Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 19:04:44 (2783)

1998-12-19 19:04:44# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[19:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að mæla fyrir brtt. á þskj. 586 við fjárlagafrv. en ég leyfi mér að leggja til nokkuð hærri fjárveitingar til Barnaverndarstofu. Ástandið í þeim efnum er nokkuð erfitt. Samkvæmt nýjum lögum þurfa barnaverndaryfirvöld að bera ábyrgð á mun stærri hópi en áður í samræmi við ný lögræðislög og einnig --- gott ef það varð ekki að lögum í dag --- lög um vernd barna og ungmenna.

Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar benti á það í bréfi til okkar þingmanna að sú fjárveiting sem ætluð er til Barnaverndarstofu væri allsendis óviðunandi. Hún dygði ekki nema til að mæta þörf fyrir vistun á sex nýjum rýmum fyrir börn og benti á að nú bíða 20 börn á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur í bráðum vanda eftir meðferð hjá Barnaverndarstofu sem er sýnt að verður ekki hægt að sinna miðað við þá fjárveitingu sem ætluð er í frv. Reyndar hefur fjárln. hækkað aðeins fjárveitingu til Barnaverndarstofu en alls ekki nægilega. Fjárveitingin sem hækkað er um nemur tveimur rýmum til viðbótar sem er náttúrlega langt því frá að duga.

Ég legg til að til viðbótar fái Barnaverndarstofa 80 milljónir þannig að unnt verði að bæta við 24 rýmum til þeirra barna sem eru í bráðum vanda. Þar með væri hægt að sinna þeim sem bíða hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og einnig nokkrum til viðbótar.

Barnarverndarnefnd Reykjavíkur minnir á að það var Alþingi sem tók þá ákvörðun að auka skyldur ríkis og sveitarfélaga um að sinna málefnum unglinga á aldrinum 16--18 ára og þess vegna er óviðunandi ef Alþingi ætlar ekki að standa við eigin skuldbindingar í þessum efnum. Ég get tekið undir það og flyt þessa brtt. til þess að koma til móts við þá miklu þörf á meðferðarúrræðum fyrir börn hjá Barnaverndarstofu.

Sömuleiðis kemur á sama þingskjali nýr liður undir lífeyristryggingarnar, þ.e. lífeyristryggingar almannatrygginga þar sem ég legg til að komi 100 millj. kr. Í dag höfum við verið að ræða ný almannatryggingalög þar sem skerðingar bóta vegna tekna maka lífeyrisþega eru minnkaðar en í þeirri umræðu hefur komið fram að stór hópur lífeyrisþega fær enga bót eða mjög litla við þessa breytingu. Þeir sem ekki eiga neinn rétt á greiðslum úr lífeyrissjóðum hækka ekki nema um 200--300 kr. við þá hækkun á bótum sem ríkisstjórnin ætlar þeim um áramótin.

Ég legg til að þessar 100 milljónir fari í að greiða kostnað sem kæmi til vegna lagafrumvarpa sem liggja fyrir þinginu og hafa legið fyrir um réttarbætur til lífeyrisþega sem eru einna verst settir í kerfinu. Þar vil ég nefna öryrkja sem búa einir en geta ekki búið með börnum sínum vegna þess að þá skerðast greiðslur þeirra um þriðjung, aðeins við það að þeir búa með börnum sínum. Það að öryrki eignast barn, við skulum segja kona, lækka greiðslur til hennar um þriðjung. Ég hef lagt til í frv. að gerð verði breyting á þessu þannig að heimilað verði að greiða heimilisuppbætur til öryrkja sem búa einir og mundi hluti af þessari fjárhæð koma til þess að mæta þeim breytingum.

Sömuleiðis hef ég lagt til að kjör öryrkja skerðist ekki við það eitt að þeir verði 67 ára, skerðist ekki við það eitt að þeir verði ellilífeyrisþegar. Það kostar ekki mikið að breyta því en ég hefði talið rétt að hluti af fjárhæðinni færi í að mæta þeirri breytingu. Enn fremur er ein breyting til viðbótar, sem ég hef margoft lagt til hér og tel að auknar fjárveitingar þyrftu að koma til, og það er að umönnunargreiðslur greiðist fleirum en maka, þ.e. greiðslur fyrir umönnun á heimili greiðist fleirum en maka sjúklings. Þær ætti að greiða þeim sem er heimilisfastur með sjúklingnum, t.d. systkinum. Þetta hef ég margoft lagt til í frumvörpum og tel fulla ástæðu til þess nú í góðærinu, nú í sólskininu, að komið verði til móts við þessa hópa, hópa sem standa hvað verst að vígi, eiga erfiðast með að berjast fyrir réttindum sínum og fá nánast enga bót hjá ríkisstjórninni í þessum fjárlögum.

Herra forseti. Ég vil einnig taka undir þá tillögu sem kemur frá minni hlutanum um að auka greiðslur til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Ég veit að mikið ófremdarástand ríkir í hjálpartækjamálum heyrnarlausra og heyrnarskertra og nánast neyðarástand á sumum heimilum vegna þess að ekki hefur verið staðið við að útvega hjálpartæki gegnum Heyrnar- og talmeinastöð fyrir þessa hópa. Ég veit um nokkur dæmi sem eru algjörlega afleit og óviðunandi þar sem foreldrar geta jafnvel ekki sinnt börnum sínum vegna þess að þeir hafa lágmarkshjálpartæki til þess vegna fötlunar sinnar. Ég tek því heils hugar undir að aukafjárveiting komi til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar.

Einnig verð ég að lýsa yfir, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, áhyggjum vegna fjárhagsástandsins á spítölunum. Ég veit að mjög slæmt ástand er t.d. á Kópavogshælinu hvað varðar aðbúnað, húsnæði sem er nánast ekki mönnum sæmandi að bjóða sjúklingum og vistmönnum á Kópavogshælinu upp á. Ég hefði talið fulla ástæðu til þess að fjárln. færi og kannaði hvernig ástandið er þar hjá ákveðnum hópum sem enn búa á Kópavogshælinu. Auðvitað hefði þurft að sjá til þess að fjárveitingar kæmu til að laga það ástand. Ég veit að í húsakynnum þar sem aldraðir, mikið fatlaðir einstaklingar búa er ekki einu sinni hitakerfi á húsinu og hefði ég nú talið ástæðu til þess í góðærinu að menn kæmu með fjárveitingar til þess að sinna því að þarna sé a.m.k. mannsæmandi aðbúnaður fyrir þá sem þar búa. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.