Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 19:37:22 (2785)

1998-12-19 19:37:22# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[19:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil eingöngu víkja að því sem hv. þm. nefndi í upphafi máls síns að því er varðar tekjuhlið fjárlaganna. Ég var reyndar búinn að svara því við fyrirspurn frá öðrum þingmanni hvernig breytingin hefur orðið að því er varðar áætlaðar sölutekjur. Það er vegna þess að fyrir liggja betri upplýsingar um verðmætið sem fólgið er í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og vegna þess að stærri hluti af eignarhlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum verður seldur á næsta ári og minni á þessu ári. Það er tilflutningur.

Þingmaðurinn lét þess getið að minni hlutinn í fjárln. teldi að þróun síðustu mánaða að því er varðar virðisaukaskatt benti til að hann væri ofáætlaður um 2 milljarða á þessu ári. Þetta stendur í framhaldsnál. minni hlutans. Þar stendur líka örfáum línum ofar, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn telur að í þjóðhagsáætluninni felist vanmat á innflutningi og fjárfestingu.``

Þá er verið að tala um áætlunina fyrir næsta ár. Þetta alveg óvart, hv. þm. og herra forseti, er mótsögn því ef vanmat er á innflutningi og fjárfestingu þá þýðir það að tekjurnar eru vanáætlaðar fyrir næsta ár. En svo er sagt nokkrum línum neðar að þær séu ofáætlaðar um 2 milljarða á þessu ári. Þetta hangir allt saman. Þær upplýsingar sem við höfum að því er varðar virðisaukaskattinn á þessu ári --- þær nýjustu eru frá því í byrjun þessa mánaðar, skiladagur á virðisaukaskatti var 5. desember --- staðfesta áætlun okkar um að innheimta virðisaukaskatt á þessu ári. Þannig að þetta tal um að virðisaukaskatturinn sé ofáætlaður á þessu ári stenst ekki. Áætlanir ráðuneytisins standast mun betur en þetta sem er nú reyndar upphaflega komið frá Ríkisendurskoðun og þaðan inn í álit minni hlutans, ef ég man þetta rétt. Þannig er nú þetta.

Auðvitað veit enginn fyrir víst hvernig þjóðhagsáætlunin rætist eða þjóðhagsspáin. En ég held ekki að í henni sé um að ræða neitt sérstakt vanmat á innflutningi og fjárfestingu. Við erum einmitt að reyna að draga úr viðskiptahallanum með ýmsum aðgerðum eins og kunnugt er þannig að það væri mjög óráðlegt að reikna með að þar væri meiri tekjur að hafa af innflutningi og fjárfestingu heldur en nú er lagt til eða áætlað af hálfu Þjóðhagsstofnunar.