Landmælingar og kortagerð

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:25:50 (2799)

1998-12-19 20:25:50# 123. lþ. 47.3 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skrítin ræða. Það eina sem mér fannst ekki skrítið við hana er að það er alveg ljóst af skoðunum hv. þm. að hann er mjög fljótur að samsama sig Framsfl. og skoðunum sem þar ríkja. Hann taldi ástæðu til að rifja upp nokkuð ítarlega ræðu sem ég flutti á síðasta þingi þar sem ég og fleiri vorum að verja rétt þeirra sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi sem var fótum troðinn. Og ég mun aldrei á minni ævi, svo lengi sem ég lifi, skammast mín fyrir þá ræðu sem þar var flutt og hversu löng hún var. Það var svona framsóknareðli sem kom upp í þessum þingmanni þegar hann mælti þessi orð.

Hann leyfði sér líka að mótmæla dómi Hæstaréttar. Það var ekki annað að heyra á hv. þm., hv. framsóknarþingmanninum. Það var ekki annað að heyra. Ég sagði að þetta væri ekki bjóðandi þinginu. Af hverju segi ég það? Það að taka þrjár umræður um svo umdeilt mál, sem var umdeilt í þjóðfélaginu, á svo skömmum tíma er ekki bjóðandi þinginu. Það er enginn sem segir að við þurfum að fara heim á þessum sólarhring. Mér er ekkert að vanbúnaði að vera hér lengur til þess að þetta mál t.d. fái ítarlega umfjöllun. Það er það sem ég er að segja. Kannski þarf hv. framsóknarþingmaðurinn að flýta sér í sitt kjördæmi. Það er þá hans mál. En mér er ekkert að vanbúnaði að vera hér lengur til þess að þetta mál fái eðlilega og þingræðislega skoðun.

Herra forseti. Starfsfólkið hefur staðið í löngu þófi við hæstv. ráðherra og svo kemur í ljós að það hafði rétt fyrir sér. Það á heimtingu á því að fá að koma fyrir þingnefnd og ræða þetta mál og þá stöðu sem hér er komin upp. Þingið á ekki að hlaupa á eftir ráðherranum til þess að orð hans megi standa. Hæstv. ráðherra sagði alltaf að þetta væri pólitísk ákvörðun, þetta væri pólitísk ákvörðun og hafði ekkert með lög að gera. En Hæstiréttur Íslands hefur rekið það ofan í kokið á honum.

(Forseti (ÓE): Forseti minnir á ákvæði þingskapa um ávörp úr ræðustóli.)