Breytingar á ýmsum skattalögum

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:17:59 (2820)

1998-12-19 21:17:59# 123. lþ. 47.19 fundur 150. mál: #A breytingar á ýmsum skattalögum# frv. 159/1998, Frsm. minni hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:17]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta hv. efh.- og viðskn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstakur eignarskattur, 0,25%, sem upphaflega var lagður á til að reisa Þjóðarbókhlöðu og falla á niður um áramótin 1999/2000 verði framlengdur um fimm ár eða út árið 2004. Nú er búið að reisa Þjóðarbókhlöðuna en þessi skattur skal samt lifa áfram. Til að rifja það upp fyrir hv. þm. þá er hér um að ræða svokallaðan ekknaskatt sem mikið var til umræðu fyrir nokkrum árum og er það enn og íþyngir sérstökum hópi fólks sem hefur ekki miklar ráðstöfunartekjur.

Í alþjóðlegum samanburði eru eignarskattar með þeim hæstu hér á landi eða 1,45% sem þýðir það að ríkið tekur eignir manna umfram ákveðin mörk á 70 ára fresti. Þetta skýrir mikla söfnun eigna hjá opinberum aðilum og rýrir eignir einstaklinga sambærilega. Að sjálfsögðu þarf ekki að geta þess að allar eignir ríkis og sveitarfélaga eru undanþegnar þessum sköttum sem og öllum öðrum. Minni hlutinn leggur því til svofellda breytingu:

,,2. gr. falli brott.``