Stimpilgjald

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:37:26 (2828)

1998-12-19 21:37:26# 123. lþ. 47.22 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv. 157/1998, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vildi í örstuttu máli rifja upp hvaða mál er á ferðinni. Það frv. sem komið er til 3. umr. snýst um tvö efnisatriði, annars vegar að færa inn á einn stað í lög um stimpilgjald allar undanþágur sem viðgengist hafa í því efni. Segja má að þar sé um að ræða ákveðna tiltekt, einföldun og hreingerningu í þessu kerfi.

Hitt efnisatriðið er að tekin eru af tvímæli að því er varðar stimpilfrelsi bréfa sem leggja höft eða bönd á kaupskip sem kunna að verða skráð hér á Íslandi. Sama er að segja um loftför, sem hafa ævinlega notið sérstakrar undanþágu samkvæmt heimildum í fjárlögum. Hugmyndin er sú með því að undanþiggja kaupskipin að það mætti kannski verða til þess að þau fengjust skráð hér á landi í einhverjum mæli en eins og kunnugt er hefur það ekki verið og þróunin hefur verið sú að eigendur kaupskipa hafa skráð þau annars staðar en hér, m.a. vegna þessara stimpilgjalda. Þetta er efni þessa frv. og í sjálfu sér er ekki gríðarlega mikið mál á ferð.

Aftur á móti kom fram í umræðu um málið að kannski væri eðlilegt að taka inn í þetta efni allt annað mál sem var til umræðu í vor en varðar að vísu stimpilgjald. Þar er um að ræða það hvort fasteignaverðbréf í húsbréfaviðskiptum, sem tengjast svokölluðum viðbótarlánum, skuli verða stimpilfrjáls. Ég hef sem fjmrh. og við í ráðuneytinu lagst gegn því og bent á að stimpilgjöld eru kostnaður í hinu nýja íbúðalánasjóðskerfi sem telst til vaxtakostnaðar og er þar af leiðandi hægt að fá endurgreiddan í formi vaxtabóta.

Kerfið var þannig úr garði gert í vor að bætt var inn í það heilmiklum fjárhæðum að því er varðar vaxtabætur og talið er að það muni kosta 1.000--1.200 millj. kr. þegar fram í sækir að fjármagna þær vaxtabætur auk þess sem þeim var flýtt og þær eru greiddar samtímis en ekki í eftiráuppgjöri eins og áður var.

En það vandamál sem bent hefur verið á lýtur að þeim möguleika að kannski kunni einhverjir ekki að standa jafn vel eftir og áður var vegna þess að sú fyrirgreiðsla sem veitt var í hinu félagslega íbúðakerfi var ekki með stimpilgjöldum. Þetta var ásetningur ríkisstjórnarinnar á síðasta vori og það er þetta sem félmrh. hefur borið fyrir brjósti, þ.e. að enginn sé verr settur eftir þessa breytingu sem áður þáði fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu en er núna inni í þessu nýja kerfi. Það er sameiginlegt markmið okkar félmrh.

En þá aðeins getur þessi staða komið upp að menn séu búnir að nýta sér að fullu vaxtabótakvóta sinn, ef svo mætti segja, og væru komnir upp í það þak sem menn geta haft í þessu tilliti. Ef slík staða kemur upp, og það er kjarni málsins, þarf að sjálfsögðu að skoða það sérstaklega og finna einhverja viðunandi lausn til að koma til móts við slíka aðila. Við höfum ekki séð í fljótu bragði að þeir verði margir eða þetta verði eitthvert alvarlegt vandamál þannig að við höfum ekki viljað taka undanþágu inn í þessi lög vegna þess að við viljum ekki vera með tvöfalt kerfi innan húsbréfakerfisins að því er varðar þetta atriði. Auk þess er hætt við því að það mundi þá hafa aðrar hliðarverkanir, eins og þær að hvetja fólk með óeðlilegum hætti frekar til þess að leita eftir svokölluðum viðbótarlánum.

En aðalatriðið er það, hugmyndin með breytingunum á sl. vori í íbúðalánasjóðskerfinu var ekki sú að íþyngja fólki umfram það sem áður var. Ef slík dæmi koma upp þarf að skoða sérstaklega hvernig hægt er að bregðast við því, hvort lagabreytingu þarf til þess í þessum eða öðrum lögum, eða hvort hægt er að leysa slík mál með einhverjum öðrum viðunandi hætti. Þetta vildi ég láta koma fram af minni hálfu og þetta tel ég að sé kjarni málsins og ég tel að það sé þetta sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ágúst Einarsson hafa borið fyrir brjósti. Þannig vildi ég gjarnan koma til móts við sjónarmið þeirra í málinu.