Stimpilgjald

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:08:29 (2834)

1998-12-19 22:08:29# 123. lþ. 47.22 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv. 157/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér fannst ræða mín áðan ekki gefa tilefni til þess að hæstv. fjmrh. skipti svona skapi í ræðustól eins og hann gerði nú. Mér fannst ég ekki gefa honum neitt tilefni til þess.

Um hvaða mál erum við að fjalla, herra forseti? Við erum að fjalla um frv. til laga um breyting á lögum um stimpilgjöld. Ég held að öll mín ræða hafi gengið út á stimpilgjöld og kostnað íbúðakaupenda vegna stimpilgjalda (Gripið fram í.) sem þeir sem hafa fengið íbúðir í félagslega kerfinu þurfa núna allt í einu að fara að greiða frá og með næstu áramótum. Það er nýtt, herra forseti, að þeir sem verið hafa í félagslega kerfinu þurfi nú, frá og með næstu áramótum, að fara að greiða stimiplgjald af húsbréfum. (Fjmrh.: Það er ekki í þessu frv.) Í þessu frv. er í lið 4 rætt um að skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns verði undanþegin stimpilgjaldi, þ.e. þeir sem voru í félagslega kerfinu þurfa nú að bera kostnað af ákveðnum hluta af láni hins nýja Íbúðalánasjóði. Herra forseti. Ég spyr um hvort að í 4. tölulið sé ekki verið að ræða um að skuldabréf sem gefin eru út af Íbúðalánasjóði vegna viðbótarlána beri ekki stimpilgjöld. (Fjmrh.: Þetta er ekki nýtt.)

Síðan erum við að ræða um það að um næstu áramót taka gildi lög sem fela í sér að lögð eru ný gjöld á fólk í félagslega kerfinu upp á 50--70 þúsund kr. Ég get bara ekkert að því gert, herra forseti, þó að hæstv. ráðherra sé pirraður yfir málflutningi mínum úr þessum ræðustól. Ég veit að margir sem núna þurfa að leita í þennan nýja Íbúðalánasjóð og bera þar kostnað sem skiptir tugum þúsunda sem ekki þurfti áður, bera auðvitað kvíðboga fyrir því. (Gripið fram í.) Og núna við afgreiðslu á frv. um stimpilgjald var reynt að ná samstöðu um að húsbréfin mundu ekki bera stimpilgjöld. (Fjmrh.: Húsbréf eru stimpilfrjáls. Það stendur í 1. gr. frv.)

Við erum að tala um fasteignaveðbréf sem skipt er fyrir húsbréf. (Fjmrh.: Hvernig væri þá að hafa það bara rétt.) Mér finnst ráðherrann gefa tilefni til þess að ég fari aðeins að bretta upp ermarnar og taki fyrir nokkra umræðu um greiðslumat í félagslega íbúðakerfinu vegna þess að ég er hér með bók sem fjallar mjög ítarlega um það mál, herra forseti. Við erum að fjalla um stimpilgjöld sem fasteignaveðbréfin eiga að fara að bera núna um áramótin. Ég hef áhyggjur af því, þó að hæstv. ráðherrann hafi það ekki, að það fólk sem verst er sett í þjóðfélaginu eigi allt í einu núna frá næstu áramótum að fara að bera kostnað sem það hefur ekki borið áður, sem samsvarar kannski einum mánaðarlaunum hjá þessu fólki.

Mér finnst að ráðherrann geti alveg stillt skap sitt þótt hér sé eytt nokkrum mínútum í að ræða kostnað sem er verið að setja á fólk sem nemur einum mánaðarlaunum. Ef það væri verið að taka úr vasa ráðherrans þær 400 eða 500 þúsund krónur sem hann hefur á mánuði ... (Fjmrh.: Getur þingmaðurinn stillt skap sitt?) ef það væri verið að taka það af ráðherranum þá hefði hann kannski eitthvað um málið að segja. En ég er að tala um lægst launaða fólkið. Ég ætlaði mér ekki, herra forseti, að hafa mjög langt mál um þetta. Ég ætlaði mér ekki að gera það. (Gripið fram í.) Og ég tel mig í fyrri ræðu minni ...

(Forseti (GÁ): Forseti biður um hljóð í þingsal og að hv. þm. megi tala af rólegheitum.)

Herra forseti. Ég bið um það að ekki sé snúið út úr máli mínu með frammíköllum hæstv. ráðherra, sem á nú svolítið undir því ásamt ríkisstjórninni að mál gangi fram á þessum síðustu klukkustundum og m.a. það frv. sem ráðherrann hæstv. ber hér fram. Þótt ráðherrann eigi það svo sannarlega skilið að ég standi í ræðustól drjúgan tíma enn (Gripið fram í.) til þess að ræða þetta mál, þá ætla ég ekki að láta skapvonsku ráðherrans bitna á öðrum þingmönnum sem ekkert hafa til saka unnið og vilja fara að ljúka þingstörfum með eðlilegum hætti. En það skal ég undirstrika, herra forseti, að hæstv. ráðherra á ekki skilið að þessari umræðu sé lokið. Það veit sá sem allt veit, vegna þess að ráðherrann hefur ekki hagað sér þannig við þessa umræðu að það gefi tilefni til þess, og ekki, miðað við stærðina á því máli sem við erum að ræða, gagnvart því fólki sem nú fer að bera mikinn aukakostnað vegna þeirra breytinga sem m.a. Framsfl. stendur fyrir. Hæstv. viðsk.- og iðnrh. talaði hæst fyrir síðustu kosningar um greiðsluvanda heimilanna sem hefur nú aukist verulega. Á síðustu 24 mánuðum hafa skuldir heimilanna aukist um 73 milljarða kr. Hvað ætlaði hæstv. viðskrh. að gera? Hann ætlaði að beita sér fyrir frv. um greiðsluaðlögun. Hann fór mikinn í kosningabaráttunni. Það frv. sést ekki enn þá. Það sést ekki enn þá þó að þinginu og kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar sé að ljúka.

Gott og vel, herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta frv. eða þetta mál, vegna þess að gert hefur verið ákveðið samkomulag hér. Það hefur ekki verið brotið af minni hálfu. Ef einhver hefur brotið það þá er það geðvonska hæstv. fjmrh. við þessa umræðu. Síðan skulum við sjá hvað setur eftir áramótin þegar þessi hringekja í Íbúðalánasjóðnum fer af stað. Þá skulum við sjá hvort okkar hafði rétt fyrir sér, ég eða fjmrh., um það hvort verið sé að leggja á lægst launaða fólkið í þessu landi miklu meiri greiðslubyrði bæði í vöxtum og kostnaði en það hefur áður séð.