Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:15:39 (2835)

1998-12-19 22:15:39# 123. lþ. 47.23 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:15]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér er tekið til 3. umr., um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, hefur ekki verið mjög lengi í þinginu. Það er sennilega um einn mánuður síðan hæstv. viðskrh. lagði frv. fram. Ég taldi satt að segja miðað við þá reynslu sem fljótlega eftir að þetta frv. var lagt fram kom á sölu á hlutabréfum, bæði í Landsbankanum sem þá var nýafstaðið og eins varðandi Fjárfestingarbankann og síðan það sem hefur komið í ljós varðandi Búnaðarbankann, að þetta mál mundi fá mjög vandlega og ítarlega skoðun í þinginu og gögn yrðu lögð fram í efh.- og viðskn. sem sýndu fram á hvaða áhrif salan á hlutabréfunum hefur haft.

Þegar málið var tekið til 2. umr. var ítarlega farið yfir stöðuna og ég og fleiri sem töluðum við þá umræðu töldum nauðsynlegt að málið yrði skoðað milli 2. og 3. umr. í efh.- og viðskn. T.d. taldi ég nauðsynlegt, herra forseti, að fá fram hluthafaskrána sem átti að liggja frammi að því er embættismenn viðskrn. upplýstu, þ.e. hluthafaskráin í Fjárfestingarbankanum. Ég taldi nauðsynlegt að við gætum áttað okkur betur á því hversu dreifð eignaraðildin væri í þessum bönkum eftir söluna á hlutabréfunum. Alþingi hefur þegar heimilað viðskrh. sölu á 49% hlutabréfa í Fjárfestingarbankanum og nú var hæstv. ráðherra að biðja um heimild til að selja öll hlutabréfin eða 51%.

Mér sýnist málið liggja þannig, herra forseti, þegar við erum í lokaafgreiðslu þessa máls að efh.- og viðskn. hafi ekki komið saman til þess að ræða málið og ég get ekki séð, og spyr um það, að fyrir liggi ýmsar þær upplýsingar sem ég kallaði eftir og ég taldi nauðsynlegar til að hægt væri að meta áhrifin af þessu og hvernig maður mundi greiða málinu atkvæði þegar það kæmi til 3. umr. Ég taldi t.d. nauðsynlegt að fá fram niðurstöðuna hjá bankaeftirlitinu sem er að fjalla um þetta mál, hefur tekið það til sérstakrar skoðunar út af kennitölukapphlaupinu. M.a. óskaði ég sjálf eftir því við bankaeftirlitið að það yrði sérstaklega skoðað. Eins varðandi hluthafaskrána. Ég óskaði eftir því að ráðherrann beitti sér fyrir því að upplýsingar um hana lægju fyrir þannig að við sæjum hversu dreifð eignaraðildin er. Við vitum og það kom skýrt fram við 2. umr. málsins að einn aðili, Kaupþing, á orðið 9% hlutafé af þeim 49% sem seld eru í Fjárfestingarbankanum og heildaratkvæðamagn þessa aðila, Kaupþings, er 14% og Kaupþing á að því er ég best veit rétt á stjórnarsæti í bankanum.

Ég held að það liggi alveg fyrir að markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild hafi mistekist, þó mönnum fyndist við 2. umr. að hæstv. viðskrh. væri búinn að skipta um skoðun, enda sagði hæstv. ráðherra um söfnun kennitalnanna fyrir nokkru síðan að þær gengju þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild.

Ég held að mjög mikilvægt sé þegar við erum að selja eignir ríkissjóðs og skattgreiðenda að þannig sé staðið að málum þegar um er að ræða sölu í þeirri mikilvægu atvinnugrein sem er í bankakerfinu, að ekki sé stuðlað að fákeppni og að þessar eigur ríkissjóðs safnist ekki á fárra manna hendur en það er það sem ég hef óttast að mundi gerast og hefði talið að við þyrftum að átta okkur betur á áður en málið yrði endanlega afgreitt frá þinginu. Í annan stað þarf auðvitað að gæta þess vandlega að ríkissjóður og skattgreiðendur fái fullt, eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir þær eignir sem verið er að selja. Ég held, herra forseti, að hvorugt hafi gerst. Ég held að eignir ríkissjóðs, þ.e. þessi hlutabréf, hafi verið seld á undirverði og ég tel að eignaraðildin sé ekki dreifð, þ.e. þessi markmið hafi ekki náðst. Ég hef tvö dæmi um það. Fleiri hef ég ekki og ég er að biðja um að fá að skoða málið nánar. Það er Kaupþing annars vegar með þessi 9% að því er varðar eignir í hlutabréfum og heildaratkvæðamagnið 14 og síðan verðbréfasjóður Búnaðarbankans með 5--6%. Þetta var fyrir nokkru síðan. Það mál vel vera að þetta hafi breyst. Og ég spurði um hvort hægt væri að fá upplýsingar um hve margir væru með eignaraðild yfir 1%, hve margir yfir 2%, hve margir yfir 3% o.s.frv. Ég var ekkert að biðja um að fara ofan í einhver nöfn í þessari hluthafaskrá en t.d. að hæstv. ráðherra gæfi okkur yfirlit yfir það. En það er eins og með margt annað hjá þessari ríkisstjórn að þessi virðulega stofnun virðist allt of mikið vera notuð sem stimpilstofnun fyrir hæstv. ráðherra.

Hér er heimild bara gefin til viðskrh. um að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Við höfum fyrir okkur að veruleg hætta geti verið á því að hlutabréf í þessum banka séu að safnast á fárra manna hendur. Við erum að spyrja: Er ekki ástæða til þess að Alþingi setji skorður við því og ákveði t.d. um hámarkseignaraðild, segjum 3% eða ákveðinn eignarhaldstíma sem aðilar þyrftu að eiga þessi bréf? Allt þetta opnaði hæstv. ráðherra á þegar kennitölufárið byrjaði. En svo virðist hæstv. ráðherra hafa dregið í land af því að hann var skammaður af Viðskiptablaðinu fyrir að vera að hlaupa eftir því sem ég og einhverjir aðrir segðu og hann virðist hafa alveg skipt um skoðun og meira að segja hélt hann því fram að markmiðið um dreifða eignaraðild næðist allt saman og fannst málið bara allt í einu vera í besta lagi og alveg í þeim búningi sem passaði fyrir Alþingi að afhenda í hendurnar á honum.

En ég treysti hæstv. ráðherra ekki til að fara með eignir ríkissjóðs sem á að fara að selja upp á 6 milljarða kr. án þess að ég hafi einhverja smátryggingu fyrir því að þessi verðmæti sem þjóðin á renni ekki öll á örskömmum tíma í ginið á kolkrabbanum. Mér finnst við ekki vera að tala um neitt smámál. Hvað hefur verið að gerast á undanförnum missirum? Eignir og völd eru sífellt að færast á fárra manna hendur í atvinnulífinu. Ég hef sagt að bankakerfið sé næst undir hjá þessum fjársterku aðilum og ég held, herra forseti, því miður, að ég hafi rétt fyrir mér og það muni koma í ljós þó síðar verði.

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, og þess vegna ætla ég ekki að tala neitt lengi við þessa umræðu nema hæstv. ráðherra gefi tilefni til þess á eftir, að það sé ásetningur ríkisstjórnarinnar, hvað sem við í minni hlutanum segjum, að keyra þetta mál í gegnum þingið fyrir jólin. Ég hef fært rök fyrir því og skal ekki endurtaka þau að það hefði verið hægt að bíða þangað til eftir áramót. Með hvaða rökum sagði ég það? Því að þá mundum við fá frekari upplýsingar um reynsluna af fyrra útboði. T.d. að um miðjan janúar eða 20 janúar fengjum við að sjá hvernig þessi dreifða eignaraðild lítur út, hvernig eftirmarkaðurinn hefur virkað o.s.frv. Er nokkur goðgá að bíða með þetta mál í um þrjár vikur eða mánuð til þess að sjá það? Nei. En ráðherranum liggur svo á að fá þetta mál í hendurnar til að geta farið að bjóða út allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbankanum, svo mikið liggur kolkrabbanum á að fá þetta allt saman til sín að þingið má ekki fá eðlilegan umfjöllunartíma til að fjalla um málið. Það er það sem ég hef verið að gagnrýna hér.

Herra forseti. Ég gæti auðvitað haft um þetta langt mál en ætla ekki gera það. Ég vil þó endurtaka þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Hefur hann nokkuð gert í því, frá því við töluðum saman síðast um þetta mál, að afla þeirra upplýsinga sem ég og fleiri kölluðum eftir? Þó að hæstv. ráðherra telji enga ástæðu til þess, þá er þó ósk um það frá Alþingi að þessar upplýsingar liggi fyrir og mér finnst það vera skylda hæstv. ráðherra, herra forseti, að reyna það sem í hans valdi stendur að afla upplýsinga sem kallað er eftir af þinginu eða einstökum þingmönnum. Það gerir ekkert annað en greiða fyrir málinu og það er lýðræðislegur réttur minn til þess að ég geti greitt atkvæði samkvæmt bestu samvisku og yfirsýn í málinu að fá fram þessar upplýsingar. Því miður held ég að ráðherrann hafi lítið gert til þess að við fengjum þær upplýsingar sem við höfum kallað eftir.

En ég vara við því að málið sé afgreitt með þeim hætti sem hér á að gera. Minni hlutinn lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar af því að það væri vanbúið til afgreiðslu á þinginu og undir það tók ég. Það hefði verið eðlilegt að tími hefði gefist til þess við 3. umr., sem ekki virðist vera, að flytja brtt. t.d. bæði um eignarhaldstímann og hámarkshlut sem hver og einn aðili og tengdir aðilar mega eiga, en það gefst ekki tími til þess, svo mikið liggur á að afgreiða þetta mál.

Ég geri mér það auðvitað að fullu ljóst að þó að ég standi hér einhvern tíma enn og reyni að sannfæra ráðherrann og stjórnarliðið, þá hygg ég að það hafi ekki hljómgrunn, því miður, herra forseti. En eigi veldur sá er varar og ég tel mig hafa gert það. Ég tel að við séum með á ferðinni mál sem mun sýna sig fyrr en seinna, herra forseti, að mun verða til þess að stuðla að því að auka frekar bilið milli ríkra og fátækra í þjóðfélaginu, styrkja það að eignir ríkisins fari á undirverði í hendur fárra fjársterkra peningamanna og í kolkrabbann, smokkfiskinn eða hvað þeir aðilar heita, og hæstv. ráðherra lætur þetta allt saman gerast fyrir framan nefið á sér án þess að hreyfa legg eða lið. Það er miður en við því verður ekki gert. Við erum í minni hluta í stjórnarliðinu að því er þetta mál varðar. En ég verð að segja að mér er nokkuð misboðið, herra forseti, með afgreiðslu á þessu máli. Mér finnst lýðræðislegur réttur minn ekki virtur til þess að fá þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru í þessu máli en ég hygg að í það stefni og þá verður bara svo að vera.

Ég skal ljúka máli mínu en áskil mér þá frekari rétt til að tjá mig í málinu eftir því sem umræðunni vindur áfram og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég beindi til hans.