Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:29:14 (2836)

1998-12-19 22:29:14# 123. lþ. 47.23 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að engin ástæða er til að afgreiða þetta mál og minni en engin. Það er í rauninni beinlínis til vansa að knýja það í gegn þegar mjög skammur tími er til að ræða það. Það er vitað að um þetta mál er mikill pólitískur ágreiningur og það er einnig áhugi á því að skoða ýmislegt í tengslum við þessa framkvæmd burt séð frá þeim pólitíska ágreiningi sem ég held að full efnisleg rök standi til að gera. Það er alveg ljóst og það hefur hæstv. ráðherra sjálfur viðurkennt, að t.d. þau markmið stjórnvalda að reyna að stuðla að sem dreifðastri eignaraðild við þessa einkavæðingu á bönkunum eða fjármálastofnunum hafa ekki gengið eftir. Ákveðnir hlutir hafa gerst í þjóðfélaginu sem stofna þeim í hættu svo vitnað sé í óbreytt orð hæstv. ráðherra úr fjölmiðlum frá því fyrir ekki löngu síðan.

Þegar það svo bætist við að það getur náttúrlega ekki skipt nema hverfandi litlu fyrir neitt annað en þá metnað hæstv. ráðherra hvort þetta mál væri afgreitt nú rétt fyrir áramótin eða gert að lögum í janúarmánuði, þá blasir það bara við, herra forseti, að það er mikil stífni og í rauninni mikil sjálfselska og eigingirni af hæstv. ríkisstjórn að lemjast á málum af þessu tagi fyrir utan allt annað sem hér er verið að reyna að afgreiða í samkomulagi og menn hafa fullan skilning á og viðurkenna að þarf að afgreiða. Það á alls ekki við um þetta mál. Þess vegna er þetta fyrst og fremst dæmi um þrjósku og óbilgirni hæstv. ríkisstjórnar, í þessu tilviki hæstv. viðskrh.

Það er kannski ekki aðallega það sem aftrar mér í þessu máli eða gerir mig andvígan afgreiðslu þess að upplýsingar vanti, sem það að vísu gerir og mættu þær liggja gleggri fyrir. En mér nægja í rauninni alveg þær upplýsingar eða þær vísbendingar sem nú þegar liggja fyrir til þess að vita að staldra ætti við og endurskoða framkvæmdina á þessum málum. Mér fyndist að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin væru menn að meiri ef þeir viðurkenndu það einhvern tíma að sumir hlutir ganga ekki eftir eins og menn ætla sér. Og þegar játningar hæstv. ráðherra sjálfra liggja fyrir í þeim efnum þá er enginn að brjóta odd af oflæti sínu þó að menn bara hreinlega segi: Við tökum okkur þá tíma í að skoða þetta betur og átta okkur á því hvernig hugsanlega væri mögulegt að standa öðruvísi að þessu, t.d. til að tryggja þetta dreifða eignarhald, ef mönnum er þá einhver alvara með því markmiði. Ef það er í raun og veru ekki bara yfirskin að láta heita svo að reynt sé að koma þessu í hendurnar á almenningi þegar ljóst er að síðan sópast þetta saman með firnahraða á hendur fjármálaveldanna í landinu og verður bara enn ein fjölin í þessa kistu fákeppninnar og samþjöppunar pólitísks valds sem fyrir er auðvitað allt of mikil í okkar litla og lokaða fákeppnishagkerfi sem er meira og minna ráðið af fáeinum blokkum eða það jaðrar við, því miður, herra forseti, að tala verði um þetta í eintölu innan tíðar ef svo heldur sem horfir. En þetta má ekki viðurkenna og þá er bara að þráast við.

Herra forseti. Eins og málum er háttað er ég andvígur bæði afgreiðslu þessa frv. og því sjálfu og mun greiða atkvæði gegn því. En vegna aðstæðna ætla ég ekki að hafa um það fleiri orð, enda vænti ég þess að við eigum eftir að eiga þess kost, ég og hæstv. viðskrh., að eiga um þetta frekari orðastað á nýju ári og jafnvel nýjum árum sem í hönd fara.