Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:33:10 (2837)

1998-12-19 22:33:10# 123. lþ. 47.23 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:33]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyrja: Hvað liggur á? Eins og hér kom fram við 2. umr. er sala á Fjárfestingarbankanum hluti af fjárlögum ríkisins. Gert er ráð fyrir tekjum í fjárlögum ríkisins af sölu á eignarhluta ríkisins í Fjárfestingarbankanum.

Varðandi það sem hér hefur verið deilt á, að eignaraðildin eða eignarhlutirnir séu ekki nógu dreifðir, þá er ég því ekki sammála. Ég hef hins vegar sagt að kennitölufárið sem fór af stað á sínum tíma, þar sem einstakar fjármálastofnanir eða viðskiptablokkir reyndu að smala saman hópi manna eða ná undir sig tilteknum eignarhlutum í viðkomandi fyrirtækjum, gekk þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú er hins vegar reynslan fengin af árangrinum af slíku. Árangurinn af þessari söfnun er enginn, hann mistókst sem betur fer. Þess vegna fullyrði ég að markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignarsölu gengur eftir. (JóhS: Hvernig getur ráðherrann fullyrt þetta?) Á grundvelli reynslunnar.

Nú skulum við halda okkur við Fjárfestingarbankann til þess að halda umræðunni við málið sem ætlunin er að ræða. Það væri hægt að vitna til enn skýrara dæmis sem væri Búnaðarbankinn en það ætla ég ekki að gera. Ég segi einfaldlega: Markmiðin gengu eftir hvort sem menn horfa á viðskiptabankana, Búnaðarbanka og Landsbanka eða Fjárfestingarbankann.

Það má hins vegar að einhverju leyti nota þessa reynslu þegar kemur að því að gera næstu útboðslýsingu fyrir sölu á 51%. Það er óþarfi að vera að setja í lög frá Alþingi hvernig þeirri sölu skuli háttað. Reynslan mun notuð til að undirbúa næstu sölu og setja hana inn í útboðslýsinguna.

Þegar ég fullyrði að markmiðin hafi gengið eftir þá voru upphaflega 10.700 aðilar sem skráðu sig fyrir hlut í Fjárfestingarbankanum. Lítill hluti þessa hóps skráði sig fyrir hámarksupphæðinni. Hámarksupphæðin var þá 3 millj. kr. Ég held að ef menn væru að tala um reynsluna af sölunni, þá ættu menn að hafa í huga hvort upphæðin ætti ekki að vera lægri en 3 millj. kr. þegar næsta skref verður tekið. Að endingu urðu þessar 3 millj. kr. 360 þús. kr. að nafnvirði á hvern aðila. Í dag er staðan sú, án þess að ég hafi nákvæma tölu, að hluthafar eru nálægt 7.000 í Fjárfestingarbankanum. Eins og hér hefur komið fram og kom fram við 2. umr. málsins á stærsti einstaki hluthafinn 9%. Hann hefur yfir 14% eignarhlut að ráða af því að sjóður í vörslu viðkomandi aðila er með 5% eignarhlut. (JóhS: Er það ekki of mikið?) Nei, ég tel að það sé ekkert of mikið og hægt sé að tryggja dreifða eignaraðild eftir sem áður.

Í öðru lagi er einn aðili með 5% til viðbótar við þetta og af því að hv. þm. taldi nauðsynlegt að fá hluthafaskrána inn í þingið, þá held ég að ekki sé ástæða til þess. Það væri dálítið óvenjulegt að ég tel. Því hef ég aflað mér frekari upplýsinga. Ef hv. þm. vill hlusta því ég veit að hv. þm. er áhugasöm um að vita hvernig hluthafaskráin lítur út, án þess að vita nákvæmlega nöfn í þeim efnum, þá eiga fjórir eða fimm aðilar á bilinu 1--2%. Sem sagt, sex, sjö eða átta eiga eignarhluti í bankanum sem eru meira en 1%. Hinir tæplega 7.000 eiga eignarhlut undir 1%. Hversu mikið þarf að rannsaka í þessum efnum? (JóhS: Þetta verður nú fljótt að breytast.) Ég er, hv. þm., ekki með neinar spár um það. Ég hef ekki verið beðinn að svara því, að gera spá um það hvernig þetta muni breytast. Hv. þm. gekk mjög eftir því fyrir 2. umr. málsins að ég gæfi þessar upplýsingar sem ég hef gefið núna og taldi rétt að þeim væri haldið til haga.

Ef menn þurfa að rannsaka eignarhluti sem eru undir 1%, þá er auðvitað eitthvað annað sem liggur að baki. Hvað sem hver segir og hvaða nöfnum sem menn kalla þetta, einkavinavæðingu og þar fram eftir götunum, þá eru engin rök til að halda slíku fram þar sem þúsundir manna eiga eignarhluti í fyrirtækinu sem eru undir 1%, sárafáir eiga litla hluti sem eru innan við 10% í fyrirtækinu. Að ætla halda því fram að þarna sé um samþjöppun á valdi að ræða milli viðskiptablokka, kolkrabba, smokkfisks, hvað sem menn kalla þetta, er náttúrlega ekkert annað en blekkingaleikur í þeim eina tilgangi að reyna að gera fyrirtækið tortryggilegt.

Sé það einlægur ásetningur hv. þm. að auka verðmæti þjóðarinnar í þessu fyrirtæki eins mikið og nokkur kostur er, þá get ég sannfært hv. þm. um að leiðin er ekki sú að reyna að gera fyrirtækið tortryggilegt. Leiðin er sú að skapa frekar jákvæða umræðu um fyrirtækið þannig að verðmæti ríkisins í því aukist og þjóðin fái sem mest fyrir það. Á þá ár ættum við í sameiningu að leggjast á næstunni, að reyna að auka verðmæti þjóðarinnar í þessu fyrirtæki.

Eitt af því sem hv. þm. spurði líka um við 2. umr. málsins og ég svaraði þá, snýr að skoðun bankaeftirlitsins á málinu. Þá svaraði ég mjög skýrt. Bankaeftirlitið hefur ekki lokið við sína skýrslu. Hins vegar er ekkert sjálfsagðara en að þegar sú skýrsla liggur fyrir þá geti hv. þm. fengið hana í hendur. Hv. þm. verður að hafa í huga að bankaeftirlitið er sjálfstæð stofnun og heyrir ekki undir viðskrh. Viðskrh. segir ekki bankaeftirlitinu fyrir og leggur fyrir það verkefni. Þetta sjálfstæði verða menn að virða, ekki bara öðru hverju heldur alltaf. Það verða menn að hafa að leiðarljósi hvort sem mönnum liggur á að fá skýrslur eða ekki. Bankaeftirlitið ræður ferðinni í því en þegar skýrslan liggur fyrir, þá er ekkert því til fyrirstöðu að hv. þm. verði afhent sú skýrsla. Hv. þm. óskaði eftir því að þetta verði gert þannig að búast má við að hv. þm. fái þessa skýrslu í hendur fyrst af öllum.