Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:48:29 (2840)

1998-12-19 22:48:29# 123. lþ. 47.23 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:48]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Nokkuð fer hæstv. ráðherra utan vega við að rökstyðja að brýnt sé að afgreiða málið fyrir áramót. Svo er ekki og hefur í sjálfu sér ekkert með vönduð vinnubrögð að gera nema þveröfugt sé. Við biðjum um vandaðri vinnubrögð varðandi þetta mál. Við höfum bent á að ekki liggi allar upplýsingar fyrir til að setja þær leikreglur sem setja þyrfti. Meiri hlutinn hefur pólitískt vald og vilja til að hafna því.

Varðandi tekjuáætlun fjárlaga þá er hún sett upp miðað við margvíslegar forsendur og spádóma alveg eins og hæstv. viðskrh. veit. Tekjuáætlun byggist á hagvaxtarspám, spám um verðlag og annað slíkt. Við vitum allir að þær tölur getur í sjálfu sér enginn sannreynt. Menn vinna að þessu af bestu samvisku og viti.

Hið sama gildir þegar menn afla sér heimilda til sölu eigna og vonast til að fá meira fyrir eignirnar. Það hefði verið dæmi um vandaðri vinnubrögð að bíða þar til betri upplýsingar lægju fyrir, taka höndum saman með stjórnarandstöðunni og úbúa betri leikreglur. Þær mundu gilda t.d. um kennitölusöfnun þá sem ráðherrann er að mótmæla. Þetta færi þá ekki í slíkan farveg. Það hefði getað orðið miklu betri sátt í þessu máli. Það væri ágætis ráðrúm ef við kæmum saman fyrri partinn í janúar til að afgreiða þetta mál. Það hefði farið miklu betur á því. Við erum að tala um eigur almennings. Ég harma að ríkisstjórnin vilji endilega fara þá leið að knýja málið í gegn með atkvæðagreiðslu nú á síðasta degi fyrir jólahlé. Það er einfaldlega óþarfi.