Bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:55:40 (2844)

1998-12-19 22:55:40# 123. lþ. 47.24 fundur 279. mál: #A bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum# (gjaldskrár o.fl.) frv. 151/1998, Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:55]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. en auk mín standa að álitinu hv. þm. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti minni hluta efh.- og viðskn.

Hv. formaður efh.- og viðskn. gerði grein fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar áðan. Ég er ekki viss um að þingheimur hafi alveg áttað sig á öllum þeim brtt. sem meiri hlutinn leggur til. Það var ekki farið mjög ítarlega í það í framsögunni áðan. Það liggur hins vegar fyrir í þingskjölum.

Við í minni hlutanum leggjumst gegn þessu frv. Hér er nokkuð sérstakt mál á ferðinni. Það er verið að plástra þungaskattskerfið eina ferðina enn. Þetta er kunnuglegt verkefni í efh.- og viðskn. og hér á hinu háa Alþingi. Við teljum að þurft hefði að gera kerfisbreytingu og taka upp olíugjald. Frv. um slíkt var lagt fram á síðasta þingi en ríkisstjórnin kiknaði í að lögfesta það mál. Hún hélt áfram með þungaskattskerfið og þarf nú nokkrum mánuðum seinna að koma með nýtt frv. til að endurbæta það.

Við höfnum þessum vinnubrögðum. Við viljum að olíugjald komi í staðinn fyrir eldra kerfi. Mikil vinna var lögð í þetta á síðasta ári og má benda á að menn í greininni, bílstjórar og aðrir, styðja það sem við leggjum til. Menn hafa gefist upp á þessu gamla kerfi. Það kom mjög skýrt fram í umsögnum um þetta frv. að menn sáu mjög eftir því að hin fyrri leið skyldi ekki farin.

Ég vil í örfáum orðum rökstyðja olíugjaldið. Margvísleg rök eru fyrir því, m.a. er það liður í mengunarsköttum framtíðarinnar. Það mundi hafa þau áhrif að dregið yrði úr óhagkvæmri notkun eldsneytis og kolsýringsmengun yrði minni. Allt eru þetta þættir sem eru mjög mikilvægir og með aukinni áherslu á mengunarvæna orkugjafa. Innheimta verður einfaldari, eftirlit einnig og þetta leiðir til sparneytnari bifreiða.

Þetta væri jákvætt með tillit til umhverfismála og þess má geta að mjög margar þjóðir hafa tekið upp gjaldtöku af þessu tagi. Þetta viðhorf nýtur stuðnings fjölmargra í samfélaginu, sérstaklega í þessari atvinnugrein. Ég er þess fullviss að verði það sem meiri hlutinn leggur til að lögum þá muni ekki líða á löngu áður en nýtt frv. um endurbætur á því verði lagt fram. Þetta kerfi er komið að fótum fram og löngu tímabært að stokka það upp.

Minni hlutinn vísar því allri ábyrgð á ríkisstjórnina og meiri hlutann. Við munum sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Við viljum að aftur verði tekin upp vinna við undirbúning að upptöku olíugjalds. Við erum reiðubúin að standa að þeirri vinnu ásamt þeim þingmönnum sem það kjósa.