1998-12-20 00:41:59# 123. lþ. 47.1 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, GE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[24:41]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Minni hlutinn hefur hvað eftir annað í umræðu um fjáraukalög gert grein fyrir því að í stað 133 millj. kr. afgangs eins og gert var ráð fyrir í upphafi vega þegar lagt var upp með frv. til fjárlaga fyrir 1998 er fyrirsjáanlegur halli upp á 9--10 milljarða og það mun koma í ljós við uppgjör ríkisreiknings núna á vordögum að svona verður dæmið. Við teljum nauðsynlegt að menn athugi tekjuforsendur og útgjaldaforsendur betur en gert hefur verið undanfarin þrjú ár og þess vegna kem ég hér upp og geri athugasemd um leið og við lýsum því yfir, minni hlutinn, að við sitjum hjá við lokaafgreiðslu.