1998-12-20 01:35:27# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[25:35]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Nú við lokaafgreiðslu fjárlaga vegna ársins 1999 verð ég enn einu sinni, líklega í tíunda skiptið á þessu hausti, að leggja áherslu á að ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar vill ekki sjá, vill ekki viðurkenna að öryrkjarnir, fatlaðir og gamla fólkið, eru þeir sem búa við lökustu kjörin. Þeir sem eru e.t.v. kallaðir óhreinu börnin hennar Evu.

Einn af postulum ríkisstjórnarinnar, þingmaður, telur að þau kjör sem þetta fólk býr við séu eða geti verið viðunandi. Lægstu kjör öryrkja eru 42.317 kr. á mánuði. Sumir búa við að fá greitt úr lífeyrissjóði allt að 12 þús. kr. Þetta fólk fær um 657.800 kr. á ári. Þetta er gjörsamlega óþolandi. Við þessi kjör búa meira en tvö þúsund manns á Íslandi. Þetta er minna en þriggja mánaða þingmannalaun. Af þessum ástæðum er gjörsamlega óforsvaranlegt að samþykkja þau fjárlög sem hér eru til afgreiðslu.