Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 200  —  184. mál.




Frumvarp til laga



um miðlun upplýsinga og samráð við starfsmenn í fyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið laganna.

    Markmið laga þessara er að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum eða fyrirtækjahópum er starfa í a.m.k. tveimur ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
    Skal í þeim tilgangi stofna evrópskt samstarfsráð með fulltrúum starfsmanna eða setja reglur í hverju fyrirtæki og hverjum fyrirtækjahópi um upplýsingamiðlun og samráð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til fyrirtækja og fyrirtækjahópa, sbr. 3. og 4. gr.
    Þegar aðalstjórn fyrirtækis, sbr. 7. gr., er hér á landi taka lög þessi enn fremur til erlendra dótturfyrirtækja og starfsstöðva að undantekinni 8. gr., 3. og 4. mgr. 11. gr., 2. og 3. mgr. 21. gr. og 34.–35. gr.

II. KAFLI
Skilgreiningar.
3. gr.
Fyrirtæki.

    Með fyrirtæki í lögum þessum er átt við fyrirtæki sem:
     1.      hefur a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu,
     2.      er með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum,
     3.      hefur a.m.k. 150 starfsmenn í a.m.k. tveimur EES-ríkjum.

4. gr.
Fyrirtækjahópur.

    Í lögum þessum merkir fyrirtækjahópur hóp fyrirtækja sem:
     1.      hefur a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu,
     2.      er með fyrirtæki í a.m.k. tveimur EES-ríkjum,
     3.      samanstendur af minnst einu fyrirtæki með minnst 150 starfsmenn og minnst einu öðru fyrirtæki með minnst 150 starfsmenn, hvort í sínu EES-ríkinu.

5. gr.
Móðurfyrirtæki.

    Móðurfyrirtæki merkir fyrirtæki sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart öðru fyrirtæki, t.d. á grundvelli eignarréttar, fjárhagslegrar þátttöku eða þeirra reglna sem það starfar eftir, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.
    Ef ekki er unnt að sýna fram á hið gagnstæða skal telja að fyrirtæki sé í ráðandi aðstöðu gagnvart öðru fyrirtæki þegar það beint eða óbeint:
     1.      hefur rétt til að tilnefna meira en helming fulltrúa í félagsstjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstofnun þess eða
     2.      fer með meiri hluta atkvæða í því eða
     3.      á meira en helmingshlut í því.
    Ef tvö eða fleiri fyrirtæki innan fyrirtækjahóps fullnægja einu eða fleiri skilyrðum 2. mgr. telst það fyrirtæki móðurfyrirtæki sem fullnægir skilyrði 1. tölul. 2. mgr. Ef ekkert fyrir­tækjanna fullnægir skilyrði 1. tölul. 2. mgr. telst það fyrirtæki sem fullnægir skilyrði 2. tölul. 2. mgr. móðurfyrirtæki.
    Fyrirtæki, sem móðurfyrirtæki hefur eitthvert það samband við sem nefnt er í 1. og 2. mgr., telst dótturfyrirtæki. Saman mynda móðurfyrirtækið og dótturfyrirtækin fyrirtækjahóp.
    Við ákvörðun þess hvaða þýðingu atkvæðisréttur og réttur til að tilnefna fulltrúa í félags­stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstofnun fyrirtækis hefur í skilningi þessa ákvæðis skulu talin með bæði réttindi í eigu móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækja þess.

6. gr.
Undantekningar.

    Fyrirtæki telst ekki móðurfyrirtæki skv. 1.–3. mgr. 5. gr. ef um er að ræða:
     1.      Lánastofnanir, aðrar fjármálastofnanir eða tryggingafyrirtæki, þar sem verðbréfaviðskipti, kaup og sala fyrir eigin hönd eða annarra falla undir eðlilega starfsemi hlutað­eigandi fyrirtækis, sem halda til bráðabirgða hlutabréfum í fyrirtæki sem þau hyggjast selja aftur. Skilyrði er að þau notfæri sér ekki atkvæðisrétt sem þessum hlutabréfum fylgir með það fyrir augum að ákvarða samkeppnisaðgerðir þess sama fyrirtækis eða að þau notfæri sér þennan atkvæðisrétt einungis með það fyrir augum að undirbúa sölu hlutaðeigandi fyrirtækis í heild eða að hluta, eigna þess eða hlutabréfa og að af sölunni verði innan árs frá því að bréfanna var aflað.
     2.      Eignarhaldsfélag sem öðlast beint eða óbeint yfirráð yfir öðru fyrirtæki, með kaupum á hlut í því eða með öðrum hætti, að því tilskildu að atkvæðisréttur sem yfirráðin veita sé nýttur, einkum er varðar skipun í framkvæmdastjórn og yfirstjórnir fyrirtækja sem þau eiga hlut í, aðeins til að viðhalda fullu verðgildi þessara fjárfestinga og ekki til að ákvarða beint eða óbeint samkeppnisaðgerðir fyrirtækja þessara. Með eignarhaldsfélög­um er átt við fyrirtæki sem hafa það meginmarkmið að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum og ávaxta og nýta slíka hagsmuni án þess að blanda sér beint eða óbeint í stjórn slíkra fyrirtækja.
    Skiptastjóri þrotabús samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, eða annar sá aðili sem lögum samkvæmt hefur verið skipaður til að annast félagsslit, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða aðrar sambærilegar aðgerðir, telst ekki í ráðandi aðstöðu í skilningi 5. gr.

7. gr.
Aðalstjórn.

    Stjórn fyrirtækis telst aðalstjórn þess.
    Stjórn móðurfyrirtækis, sbr. 5. gr., telst aðalstjórn fyrirtækjahóps. Ef tvö eða fleiri fyrir­tæki innan sama fyrirtækjahóps eru móðurfyrirtæki telst aðalstjórn vera stjórn þess fyrir­tækis sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart hinum fyrirtækjunum, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.
    Ef aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps er ekki í EES-ríki telst aðalstjórn vera sá full­trúi sem aðalstjórn tilnefnir. Ef slíkur fulltrúi hefur ekki verið tilnefndur telst aðalstjórn vera stjórn þess fyrirtækis eða starfsstöðvar sem hefur flesta starfsmenn í EES-ríki.

8. gr.
Reglur um fjölda starfsmanna.

    Ákvörðun um fjölda starfsmanna, sbr. 3. og 4. gr., skal byggð á meðalfjölda starfsmanna sem ráðnir hafa verið til starfa á síðustu tveimur árum áður en beiðni er lögð fram skv. 10. gr. Við ákvörðun þessa skal ekki gerður greinarmunur á starfsmönnum í hlutastörfum og þeim sem gegna fullu starfi, sbr. þó 2. mgr.
    Aðalstjórn skal veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um heildarfjölda starfsmanna í fyrirtækjum og starfsstöðvum í einstökum ríkjum. Aðalstjórn skal enn fremur láta þeim í té upplýsingar um félagsform fyrirtækis og fyrirtækjahóps.

III. KAFLI
Ábyrgð á stofnun samstarfsráðs eða
samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
9. gr.
Ábyrgð.

    Aðalstjórn ber ábyrgð á því að skapa nauðsynleg skilyrði fyrir stofnun samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.

10. gr.
Upphaf samningaumleitana.

    Aðalstjórn skal að eigin frumkvæði eða fyrir skriflega beiðni um það frá a.m.k. 100 starfsmönnum eða fulltrúum þeirra í a.m.k. tveimur fyrirtækjum eða starfsstöðvum í a.m.k. tveimur EES-ríkjum hefja samningaumleitanir um stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun.
    Beiðni skv. 1. mgr. skal afhent aðalstjórn eða einhverri annarri stjórn fyrirtækis sem skal þá framsenda beiðnina til aðalstjórnar.
    Frestur, sbr. 19. gr., hefst þegar beiðni starfsmanna, sbr. 1. mgr., hefur verið afhent aðal­stjórn eða stjórn annars hlutaðeigandi fyrirtækis sem er hluti af fyrirtækjahópnum eða fyrir­tækinu.

11. gr.
Skipan sérstaks samningaráðs.

    Að uppfylltum ákvæðum 10. gr. skal aðalstjórn hafa frumkvæði að skipan sérstaks samningaráðs sem hafi það að markmiði að vinna að stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
    Í samningaráði skulu eiga sæta a.m.k. þrír en mest átján menn. Fulltrúar starfsmanna kjósa fulltrúa í ráðið úr sínum hópi. Ef því verður ekki við komið skulu allir starfsmennirnir kjósa um þá.
    Fulltrúar í samningaráðið, sem kosnir eru á Íslandi, skulu kosnir úr hópi starfsmanna af trúnaðarmönnum innan fyrirtækis. Séu ekki trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfs­menn fyrirtækis eða starfsstöðvar rétt á að taka þátt á kjöri fulltrúa í samningaráðið.
    Starfsmenn sem stöðu sinnar vegna eiga ekki trúnaðarmann eiga rétt á að velja sér fulltrúa sem skal taka þátt í kjöri fulltrúa í samningaráðið.
    Samningaráðið skal þannig skipað:
     1.      Einn fulltrúi starfsmanna frá hverju ríki þar sem fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn rekur eitt eða fleiri fyrirtæki eða starfsstöðvar, sbr. þó 2. og 3. tölul.
     2.      Ef fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn hefur færri en 2.000 starfsmenn og á fyrirtæki eða starfsstöðvar í aðeins tveimur ríkjum skal auk þess tilnefndur einn fulltrúi starfsmanna í því ríki þar sem starfsmenn eru flestir.
     3.      Ef fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn hefur 2.000 eða fleiri starfsmenn skulu enn fremur tilnefndir:
       a.      einn fulltrúi starfsmanna í ríkjum þar sem a.m.k. 25% starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins starfa og
       b.      tveir fulltrúar starfsmanna í ríkjum þar sem fleiri en 50% starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins starfa eða
       c.      þrír fulltrúar starfsmanna í ríkjum þar sem fleiri en 75% starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins starfa.
    Séu fulltrúar, sem kosnir hafa verið skv. 1.–3. tölul. 5. mgr., fleiri en átján skal þeim full­trúum fækkað sem kosnir hafa verið skv. 3. tölul. 5. mgr. Skal þá fyrst fækkað fulltrúum skv. a-lið, síðan skv. b-lið og að síðustu skv. c-lið.
    Þegar samningaráðið hefur verið skipað skal aðalstjórn og staðbundnum stjórnum tilkynnt um skipan þess.

12. gr.
Verkefni og kostnaður sérstaka samningaráðsins.

    Samningaráði og aðalstjórn ber í anda samvinnu að vinna að gerð skriflegs samnings um stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
    Samningaráðið getur kvatt sér til aðstoðar sérfræðinga að eigin vali meðan á samninga­viðræðum stendur. Kostnaður aðalstjórnar takmarkast við störf eins sérfræðings.
    Aðalstjórn skal bera þann kostnað sem hlýst af samningaviðræðum þannig að samninga­ráðinu sé gert kleift að sinna verkefnum sínum með eðlilegum hætti, þar með talinn útlagðan ferða- og gistikostnað. Þá skal aðalstjórn útvega samningaráðinu húsnæði auk túlka og ritara ef þörf krefur.

13. gr.
Boðun fundar.

    Þegar samningaráðið hefur verið skipað, sbr. 11. gr., skal aðalstjórn boða það til fundar í því skyni að hefja viðræður um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr. Stjórnum annarra fyrir­tækja skal tilkynnt um fundarboðið.

14. gr.
Inntak samnings um samstarfsráð.

    Í samningi um stofnun samstarfsráðs, sbr. 1. mgr. 12. gr., skulu vera ákvæði a.m.k. um eftirfarandi atriði:
     1.      Nöfn fyrirtækja og/eða starfsstöðva, sbr. 3. og 4. gr., sem falla undir samninginn.
     2.      Samsetningu ráðsins, fjölda fulltrúa í ráðinu, úthlutun sæta og skipunartíma þess.
     3.      Hlutverk ráðsins og upplýsingamiðlun og samráð á þess vegum.
     4.      Hvar ráðið skal hittast, hversu oft og hve lengi.
     5.      Hvert fjármagn og aðbúnaður samstarfsráðsins skal vera.
     6.      Gildistíma samningsins og tilhögun við endurnýjun hans.

15. gr.
Inntak samnings um upplýsingamiðlun og samráð.

    Ef aðalstjórn og samningaráð ákveða að gera samning er hefur að geyma reglur um upplýsingamiðlun og samráð, sbr. 1. mgr. 12. gr., skal samningurinn einkum hafa að geyma ákvæði um málefni sem varða fleiri en eitt EES-ríki og hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
    Samningur aðila skal geyma ákvæði a.m.k. um eftirfarandi atriði:
     1.      Nöfn fyrirtækja og/eða starfsstöðva, sbr. 3. og 4. gr., sem falla undir samninginn.
     2.      Fyrirkomulag á miðlun upplýsinga og samráði við starfsmenn eða fulltrúa þeirra.
     3.      Rétt starfsmanna eða fulltrúa þeirra til að koma saman til fundar í því skyni að skiptast á skoðunum um upplýsingar sem þeim eru veittar skv. 1. mgr.

16. gr.
Slit viðræðna.

    Samningaráðið getur ákveðið með a.m.k. tveimur þriðju hlutum atkvæða að hefja ekki viðræður um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr. eða slíta viðræðum sem þegar eru hafnar.
    Hafi samningaráðið ályktað skv. 1. mgr. skal viðræðum um samningsgerð slitið. Þegar slík ákvörðun hefur verið tekin gilda ákvæði IV. kafla ekki.
    Kalla má samningaráðið saman að nýju í fyrsta lagi tveimur árum eftir að ofangreind ákvörðun er tekin nema aðilar mæli fyrir um skemmri tíma.

17. gr.
Atkvæðagreiðsla.

    Atkvæði meiri hluta fulltrúa í samningaráðinu ráða úrslitum í atkvæðagreiðslum, sbr. þó 16. gr. Ef atkvæði falla jöfn hafa fulltrúar frá því ríki þar sem starfsmenn eru flestir eitt við­bótaratkvæði.

18. gr.
Tilkynning til ráðherra.

    Aðalstjórn skal tilkynna ráðherra um samninga sem gerðir hafa verið skv. 14. eða 15. gr. laga þessara. Afrit slíkra samninga eða reglna skal fylgja tilkynningu aðalstjórnar. Frá þessu má víkja um stundarsakir ef í gögnum þessum eru atriði er varða sérstaka viðskiptahagsmuni fyrirtækis og afhending þeirra getur skaðað það.

IV. KAFLI
Ákvæði til vara.
19. gr.
Skylda til stofnunar evrópsks samstarfsráðs.

    Samstarfsráð skal stofnað samkvæmt ákvæðum þessa kafla:
     1.      ef aðalstjórn og samningaráðið ákveða það,
     2.      ef aðalstjórn hefur ekki hafið samningaumleitanir innan sex mánaða eftir að beiðni frá starfsmönnum hefur borist um það skv. 10. gr.,
     3.      ef aðilar hafa ekki komið sér saman um samning þann sem tilgreindur er í 14. eða 15. gr. innan þriggja ára frá þeim tíma þegar beiðni um það barst upphaflega, sbr. 10. gr., og samningaráðið hefur ekki áður tekið ákvörðun skv. 16. gr.

20. gr.
Valdsvið.

    Valdsvið samstarfsráðs takmarkast við upplýsingamiðlun og samráð um málefni sem varða:
     1.      fyrirtæki, sbr. 3. gr., sem eina heild,
     2.      fyrirtækjahóp, sbr. 4. gr., sem eina heild eða
     3.      a.m.k. tvær starfsstöðvar fyrirtækis eða fyrirtækjahóps í a.m.k. tveimur EES-ríkjum.
    Þegar um er að ræða fyrirtæki eða fyrirtækjahópa sem falla undir 3. mgr. 7. gr. takmark­ast valdsvið samstarfsráðs við málefni sem varða allar starfsstöðvar þess eða fyrirtæki í EES-ríkjum eða a.m.k. tvær starfsstöðvar þess eða fyrirtæki sem eru í mismunandi EES-ríkjum.

21. gr.
Val fulltrúa í samstarfsráð.

    Í samstarfsráði skulu sitja minnst þrír en mest þrjátíu fulltrúar. Fulltrúar starfsmanna kjósa fulltrúa í ráðið úr sínum hópi. Ef því verður ekki við komið skulu allir starfsmennirnir kjósa um þá.
    Fulltrúar í samstarfsráðið, sem kosnir eru á Íslandi, skulu kosnir úr hópi starfsmanna af trúnaðarmönnum innan fyrirtækis. Séu ekki trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfs­menn fyrirtækis eða starfsstöðvar rétt á að taka þátt á kjöri fulltrúa í samstarfsráðið.
    Starfsmenn sem stöðu sinnar vegna eiga ekki trúnaðarmann eiga rétt á að velja sér fulltrúa sem skal taka þátt í kjöri fulltrúa í samstarfsráðið.
    Samstarfsráðið skal þannig skipað:
     1.      Einn fulltrúi starfsmanna frá hverju ríki þar sem fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn rekur eitt eða fleiri fyrirtæki eða starfsstöðvar, sbr. þó 2. og 3. tölul.
     2.      Ef fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn hefur færri en 2.000 starfsmenn og á fyrirtæki eða starfsstöðvar í aðeins tveimur ríkjum skal auk þess tilnefndur einn fulltrúi starfsmanna í því ríki þar sem starfsmenn eru flestir.
     3.      Ef fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn hefur 2.000 eða fleiri starfsmenn skulu enn fremur tilnefndir:
       a.      einn fulltrúi starfsmanna í ríkjum þar sem a.m.k. 25% starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins starfa og
       b.      tveir fulltrúar starfsmanna í ríkjum þar sem fleiri en 50% starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins starfa eða
       c.      þrír fulltrúar starfsmanna í ríkjum þar sem fleiri en 75% starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins starfa.
    Séu fulltrúar, sem kosnir hafa verið skv. 1.–3. tölul. 4. mgr., fleiri en átján skal þeim full­trúum fækkað sem kosnir hafa verið skv. 3. tölul. 4. mgr. Skal þá fyrst fækkað fulltrúum skv. a-lið, síðan skv. b-lið og að síðustu skv. c-lið.
    Aðalstjórn eða einhverju öðru hlutaðeigandi stjórnunarstigi innan fyrirtækis eða fyrir­tækjahóps skal tilkynnt um hverjir skipa samstarfsráðið.
    Ef samstarfsráðið er skipað fleiri en tíu fulltrúum, eða ef samkomulag er um það við aðal­stjórn, kýs samstarfsráðið úr sínum hópi framkvæmdanefnd sem skal skipuð mest þremur fulltrúum. Framkvæmdanefndin setur sér starfsreglur.

22. gr.
Endurskoðun.

    Annað hvert ár eftir stofnun samstarfsráðs skal aðalstjórn reikna út fjölda fulltrúa fyrir hvert ríki og gefa ráðinu upplýsingar um niðurstöðu sína. Ef niðurstaðan kallar á breytingu á fjölda fulltrúa sem skipaðir hafa verið skv. 4. og 5. mgr. 21. gr. skal fulltrúum í ráðinu fækkað eða fjölgað eftir því sem við á.
    Fjórum árum eftir að samstarfsráð hefur verið stofnað samkvæmt ákvæðum í þessum kafla ber ráðinu að ræða hver þörfin er fyrir að hefja viðræður í því skyni að gera samning skv. 14. eða 15. gr. eða hvort halda beri áfram starfi samstarfsráðsins á sama grundvelli og áður.
    Ef aðilar ákveða að gera samning skv. 14. og 15. gr. skal samstarfsráðið gegna því hlut­verki sem samningaráði væri að öðrum kosti falið.

23. gr.
Reglulegir fundir.

    Samstarfsráð hefur rétt til þess að eiga fund með aðalstjórn einu sinni á ári til upplýsingar og samráðs. Fyrir fundinn skal aðalstjórn útbúa skýrslu um rekstur og rekstrarhorfur fyrir­tækisins sem lögð skal til grundvallar fundinum.
    Á fundi skv. 1. mgr. skal einkum fjallað um uppbyggingu fyrirtækisins eða fyrirtækja­hópsins, efnahags- og fjárhagslega stöðu, líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu, ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.

24. gr.
Aukafundir.

    Ef fyrir hendi eru sérstakar aðstæður sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna, einkum vegna flutnings, lokunar starfsstöðva eða fyrirtækja eða hópuppsagna, á samstarfs­ráðið, eða framkvæmdanefndin hafi hún verið stofnuð, rétt á að fá upplýsingar um þessar sérstöku aðstæður.
    Samstarfsráðið, eða framkvæmdanefndin, hefur eftir að hafa sent frá sér beiðni þess efnis rétt til að sitja fund með aðalstjórn fyrirtækis eða einhverju öðru hlutaðeigandi stjórnunar­stigi í fyrirtækinu eða fyrirtækjahópnum, í því skyni að fá upplýsingar og hafa samráð um mikilvægar ráðstafanir sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
    Fulltrúar í samstarfsráðinu, sem kosnir hafa verið í fyrirtækjum eða starfsstöðvum sem viðkomandi ráðstafanir hafa bein áhrif á, sbr. 1. mgr., eiga rétt á að sitja fund sem ráðgerður er skv. 2. mgr.
    Fundur skv. 2. mgr. skal haldinn svo skjótt sem við verður komið á grundvelli skýrslu aðalstjórnar eða annars hlutaðeigandi stjórnunarstigs. Framkvæmdanefndinni eða samstarfs­ráðinu er heimilt að leggja fram álit á skýrslunni í fundarlok eða innan hæfilegs frests.
    Ef skammt er til árlegs fundar skv. 23. gr. er heimilt að fresta umræðum um málefni sem annars yrði fjallað um á aukafundi ef ljóst þykir að frestur af þeim sökum hafi ekki áhrif á samráðsferlið.

25. gr.
Undirbúningsfundur.

    Áður en fundur er haldinn með aðalstjórn er samstarfsráðinu eða framkvæmdanefndinni, með þeirri víðtækari skipan sem heimiluð er skv. 3. mgr. 24. gr., heimilt að halda fund án nærveru stjórnarinnar.

26. gr.
Upplýsingagjöf.

    Fulltrúar í samstarfsráði skulu greina fulltrúum starfsmanna fyrirtækisins eða, ef slíkir fulltrúar eru ekki fyrir hendi, öllum starfsmönnum fyrirtækisins frá efni upplýsinga og sam­ráði sem farið hefur fram í samræmi við ákvæði þessa kafla, sbr. þó 29. gr.

27. gr.
Sérfræðingar.

    Samstarfsráðið eða framkvæmdanefndin getur kallað til sérfræðinga að eigin vali ef slíkt reynist nauðsynlegt vegna starfsemi ráðsins. Kostnaður aðalstjórnar, sbr. 28. gr., takmarkast þó við störf eins sérfræðings.

28. gr.
Kostnaður.

    Aðalstjórn greiðir kostnað samstarfsráðsins.
    Aðalstjórn ber að tryggja fulltrúum í samstarfsráðinu það fjármagn og þá aðstöðu sem þeim er nauðsynleg til að sinna skyldum sínum. Aðalstjórn ber að tryggja að fulltrúar í sam­starfsráðinu verði ekki fyrir launamissi vegna þátttöku sinnar í starfi ráðsins.
    Einkum skal aðalstjórn greiða kostnað af skipulagi funda og aðstöðu vegna túlkunar og gisti- og ferðakostnað fulltrúa samstarfsráðsins og framkvæmdanefndar hennar, nema um annað sé samið.

V. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.
29. gr.
Þagnarskylda.

    Aðalstjórn er heimilt að leggja þagnarskyldu á fulltrúa í samningaráðinu, samstarfsráðinu og framkvæmdanefndinni, fulltrúa starfsmanna skv. 15. gr. og þá sérfræðinga sem til eru kvaddir þeim til aðstoðar. Aðalstjórn skal tiltaka sérstaklega þær upplýsingar sem þagnar­skylda lýtur að.
    Þagnarskyldan helst þótt umboð þeirra sem heyra undir 1. mgr. falli niður.

30. gr.
Undanþága frá upplýsingaskyldu.

    Aðalstjórn er heimilt að láta hjá líða að veita fulltrúum í samningaráðinu, samstarfsráðinu og framkvæmdanefndinni eða fulltrúum starfsmanna skv. 15. gr. upplýsingar ef þær eru sam­kvæmt hlutlægu mati þess eðlis að þær geti haft skaðleg áhrif á starfsemi hlutaðeigandi fyrir­tækja eða verið þeim skaðlegar.

31. gr.
Réttarstaða.

    Fulltrúar í samningaráðinu, samstarfsráðinu eða fulltrúar starfsmanna skv. 15. gr. skulu hvorki sæta uppsögn né skerðingu á kjörum sínum vegna starfa sinna. Skulu fulltrúar starfs­manna njóta sams konar réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938.
    Fulltrúum starfsmanna skal tryggður réttur með samningi við vinnuveitanda til að taka sér frí frá störfum svo að þeir geti á eðlilegan hátt sinnt skyldum sínum við gerð og fram­kvæmd samninga samkvæmt lögum þessum.

32. gr.
Ágreiningur.

    Ágreiningur, sem kann að rísa um gerð eða framkvæmd samnings sem gerður á grundvelli laga þessara, verður borinn undir almenna dómstóla.

33. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um kosningu íslenskra fulltrúa í samningaráðið og samstarfsráðið.

VI. KAFLI
Viðurlög.
34. gr.
Upplýsingar til þriðja aðila.

    Þeir sem þrátt fyrir þagnarskyldu skv. 29. gr. láta þriðja aðila í té upplýsingar sem þeim hafa verið veittar skulu dæmdir til fésekta, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

35. gr.
Viðurlög.

    Brot á 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr., 19. gr., 23. gr. og 1.–2. mgr. 24. gr. varða fésektum.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
36. gr.
13. gr. samningar.

    Lög þessi taka ekki til fyrirtækja og fyrirtækjahópa sem eiga aðild að samkomulagi um upplýsingagjöf og samráð á grundvelli 13. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Skilyrði er að sam­komulag aðila hafi öðlast gildi í síðasta lagi 21. september 1996 og að það nái til allra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis eða fyrirtækjahóps og snerti upplýsingagjöf og samráð um málefni fyrirtækja í tveimur eða fleiri ríkjum.
    Ef samkomulag, sbr. 1. mgr., fellur úr gildi er aðilum heimilt að framlengja það. Að öðrum kosti fer um samskipti aðila samkvæmt lögum þessum.

37. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.
Inngangur.
1.

    Fumvarp þetta er lagt fram með vísan til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/45/EB frá 22. september 1994, um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á bandalagsvísu um upplýsingamiðlun og samráð við starfs­menn. Tilskipun þessi var samþykkt með stoð í 2. mgr. 2. gr. samnings um félagsmálastefnu aðildarríkja Evrópusambandsins sem undirritaður var í Maastricht í Hollandi 7. febrúar 1992 og tók gildi 1. nóvember 1993. Í tilskipuninni er kveðið á um að aðildarríki Evrópusam­bandsins skuli samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 22. september 1996. Þar sem Bretland var ekki aðili að samningi um félagsmálastefnu Evrópusambandsins hafði samþykkt tilskipunarinnar ekki gildi þar í landi. Á grundvelli Amsterdamsamkomulags­ins í júní 1997 var framangreindur samningur felldur inn í Rómarsáttmálann sem 117.–120. gr. Á þessum grundvelli samþykkti ráðherraráð Evrópusambandsins 15. desember 1997 til­skipun um rýmkun á gildissviði framangreindrar tilskipunar í því skyni að hún tæki einnig til Bretlands. Samkvæmt þessari nýju tilskipun eru aðildarríki Evrópusambandsins skuld­bundin til að taka ákvæði hennar upp í landsrétt í síðasta lagi 15. desember 1999.

2.

    Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/95, 22. júní 1995, var gerð breyting á XVIII. viðauka EES-samningsins og tilskipun nr. 94/45/EB felld inn í samninginn. Telst hún því hluti af íslenskum rétti, sbr. 7. gr. EES-samningsins.
    Í stað þess að velja frumvarpinu heiti í samræmi við aðalheiti tilskipunarinnar (e. European Works Council) er farin sú leið að gefa frumvarpinu nafn sem er meira í samræmi við efni þess og inntak. Íslensk þýðing þessa heitis „evrópskt samstarfsráð“ er hins vegar notað í frumvarpinu um þann vettvang þar sem upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn fer fram. Í sumum greinum frumvarpsins er þó talað um samstarfsráð til styttingar.

II.
Tilskipun nr. 94/45/EB.

    Í formálsorðum tilskipunar nr. 94/45/EB er m.a. vikið að því að starfsemi innri markaðarins feli í sér samfylkingu fyrirtækja, samruna sem nái yfir landamæri, yfirtöku, sameiginleg verkefni og þar af leiðandi fyrirtæki og fyrirtækjahópa sem starfi í fleiri aðildarríkjum. Eigi greinar efnahagslífsins að þróast á samræmdan hátt verði fyrirtæki og fyrirtækjahópar sem starfa í tveimur aðildarríkjum eða fleiri að upplýsa og hafa samráð við fulltrúa þeirra starfs­manna sem ákvarðanir þeirra hafa áhrif á. Reglur um upplýsingamiðlun og samráð við starfs­menn taki eins og þær birtast í löggjöf aðildarríkjanna eða venjum ekki alltaf mið af því að starfsemi fyrirtækis eða fyrirtækjahóps nái til fleiri landa og að þar séu teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á þessa starfsmenn. Þetta geti leitt til þess að starfsmönnum, sem ákvarðanir eins og sama fyrirtækis eða fyrirtækjahóps varða, sé mismunað.
    Til að tryggja að starfsmenn fyrirtækja eða fyrirtækjahópa sem starfi í tveimur aðildar­ríkjum eða fleiri fái fullnægjandi upplýsingar og að haft sé samráð við þá sé nauðsynlegt að stofna evrópsk samstarfsráð eða samþykkja aðrar viðeigandi leiðir til að miðla upplýsingum og efna til samráðs við starfsmenn fleiri landa. Þá segir í formálsorðum að veita verði upp­lýsingar og hafa sem fyrst samráð við tilnefnda fulltrúa starfsmanna um tilteknar ákvarðanir er hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
    Í formálsorðum er einnig vísað til þess að eitt af markmiðum bandalagsins og aðildar­ríkjanna skv. 1. gr. samningsins um félagsmálastefnu sé að stuðla að skoðanaskiptum milli vinnuveitenda og launþega.
    Þá er í formálsorðum einnig vitnað í 17. lið stofnskrár Evrópubandalagsins um félagsleg grundvallarréttindi launþega. Þar er meðal annars kveðið á um að miðlun upplýsinga til, samráð við og þátttöku launþega skuli þróa með viðeigandi hætti þar sem tekið sé mið af ríkjandi venju í hverju aðildarríki um sig. Í sáttmálanum segir: „þetta skal einkum gilda um fyrirtæki eða fyrirtækjahópa sem hafa starfsstöðvar eða fyrirtæki í tveimur aðildarríkjum eða fleiri“.

III.
Um efni frumvarpsins.
1.

    Samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa er markmið þess að bæta rétt starfsmanna til upp­lýsinga og samráðs í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í sinni þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu og þar af a.m.k. 150 starfsmenn í tveimur fyrir­tækjum í a.m.k. tveimur EES-ríkum. Starfsmönnum fyrirtækja sem falla undir þessi stærðar­mörk er þannig gefinn kostur á að hafa aðgang að sömu upplýsingum og að eiga jafna mögu­leika og starfsbræður þeirra innan fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins í öðrum ríkjum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við aðalstjórn fyrirtækisins. Samkvæmt efni frum­varpsins takmarkast þó réttur starfsmanna við upplýsingar sem varða fyrirtækið eða fyrir­tækjahópinn sem heild á Evrópska efnahagssvæðinu nema aðilar komi sér saman um annað.
    Líta má á stofnun samstarfsráðs sem tilboð til starfsmanna í fyrirtækjum og fyrirtækja­hópum sem falla undir framangreind stærðarmörk. Þetta skýrist af því að starfsmenn eða fulltrúar verða sjálfir að gera þá kröfu til aðalstjórnar að stofnað sé til samráðs og miðlunar upplýsinga samkvæmt frumvarpinu. Nánar tiltekið verða ákvæði frumvarpsins ekki virk nema fram komi skrifleg beiðni frá a.m.k. 100 starfsmönnum í a.m.k. tveimur fyrirtækjum í a.m.k. tveimur ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Komi slík beiðni fram ber aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps að hafa frumkvæði að því að skipað sé svokallað samningaráð sem skal annast gerð samnings um samstarfsráð eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð, sbr. III. kafla frumvarpsins. Í samningaráði skulu sitja a.m.k. þrír en mest átján fulltrúar starfsmanna. Fjöldi fulltrúa miðast við að a.m.k. einn fulltrúi sé frá hverju EES-ríki þar sem fyrirtæki eða einstök fyrirtæki innan fyrirtækjahóps er með starfssemi. Aðalstjórn ber að hefja samningaumleitanir við samningaráðið innan sex mánaða frá því að beiðni um stofnun ráðsins kom fram. Samningaráðið getur þó með a.m.k. tveimur þriðju hluta atkvæða ákveðið að hefja ekki viðræður eða slíta þeim.

2.

    Taki samningaráðið ekki slíka ákvörðun skal samningaviðræðum við aðalstjórn ljúka með samningi annaðhvort um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsinga­miðlun og samráð. Samkvæmt ákvæðum III. kafla frumvarpsins er aðilum frjálst að semja um hvort stofnað skuli samstarfsráð eða að komið verði á fót öðrum reglum um upplýsingamiðlun og samráð. Þá er aðilum frjálst að ákveða hverjir skuli sitja í samstarfsráðinu, hvaða umboð ráðið skuli hafa, hvernig starfi þess skuli hagað og hvaða fjárhagslegir kostir því skulu boðnir.
    Nái aðilar hins vegar ekki samkomulagi um gerð samnings á grundvelli III. kafla frum­varpsins koma ákvæði IV. kafla frumvarpsins til framkvæmda. Þetta á við ef samningaráðið og stjórnin ákveða það eða ef aðalstjórn hefur ekki hafið samningaviðræður í síðasta lagi sex mánuðum frá því að tilmæli starfsmanna þess efnis voru lögð fram. Sama gildir ef aðilar hafa ekki náð samkomulagi innan þriggja ára eftir að beiðni starfsmanna var lögð fram að því til­skildu að aðalstjórn hafi af sinni hálfu hafið samningaumleitan á þessum tíma. Í IV. kafla frumvarpsins er að finna ítarlegar reglur um stofnun samstarfsráðs og hefta þær að mörgu leyti það samningsfrelsi sem aðilar hafa á grundvelli III. kafla frumvarpsins.
    Ef samstarfsráð er stofnað samkvæmt ákvæðum þessa kafla hefur það rétt til þess að eiga fund með aðalstjórn einu sinni á ári til upplýsingar og samráðs. Fyrir fundinn skal aðalstjórn útbúa skýrslu um rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækisins sem lögð skal til grundvallar fundin­um. Þá er kveðið á um hvert umfjöllunarefni aðila skuli vera. Segir í frumvarpinu að á þess­um fundi skuli einkum fjallað um uppbyggingu fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins, efnahags- og fjárhagslega stöðu, líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu, ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.

3.

    Með hliðsjón af 13. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB er í frumvarpinu einnig tekið tillit til samninga um upplýsingagjöf og viðræður við starfsmenn sem gerðir hafa verið fyrir 22. september 1996, svo fremi slíkir samningar nái til allra starfsmanna og snerti upplýsingagjöf og viðræður við starfsmenn um málefni sem varða fyrirtæki í tveimur eða fleiri aðildarríkj­um. Hafa slíkir samningar verið kallaðir 13. gr. samningar. Samkvæmt ákvæði frumvarpsins er aðilum heimilt að endurnýja slíka samninga án tillits til frumvarps þessa. Aðilar geta hins vegar ákveðið að endurnýjun slíks samnings skuli gerð á grundvelli frumvarps þessa. Þá er þeim einnig heimilt að fella niður samninga sem gerðir hafa verið á grundvelli 13. gr. tilskip­unarinnar og gera nýjan samning samkvæmt frumvarpi þessu.

IV.
Tengsl tilskipunarinnar við landsrétt.
1.

    Í 12. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB er tekið fram að hún gildi með fyrirvara um ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt tilskipun ráðsins nr. 75/129/EBE frá 17. febrúar 1975, um sam­ræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir, og tilskipun ráðsins nr. 77/187/EBE frá 14. febrúar 1977, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigenda­skipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar.
    Þá er kveðið á um að tilskipun nr. 94/45/EB skuli vera með fyrirvara um rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs samkvæmt landslögum.

2.

    Lög um hópuppsagnir, nr. 95/1992, eiga við um uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfs­manna, sem sagt er upp á 30 daga tímabili, er:
     a.      að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
     b.      að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn, en færri en 300 starfsmenn í vinnu,
     c.      að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.
    Í 2. gr. laga nr. 95/1992, sbr. 2. gr. laga nr. 135/1994, er kveðið á um að áformi atvinnu­rekandi uppsagnir samkvæmt lögunum skuli hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa sem þeir hafa til þess valið svo fljótt sem auðið er með það fyrir augum að ná samkomulagi. Með samráðinu skal að minnsta kosti leita leiða til að forðast hópupp­sagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda tilfærslur í starfi eða endurhæfingu starfsmanna sem sagt hefur verið upp. Þá er kveðið á um að trúnaðarmenn eða aðrir fulltrúar starfsmanna skuli eiga rétt á að fá frá atvinnurekanda allar upplýsingar, sem máli skipta, um fyrirhugaðar uppsagnir. Tilgreina skal skriflega ástæður uppsagna, fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp, hve margir eru að jafnaði í vinnu og hvers konar störfum þeir gegna og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að koma til framkvæmda. Atvinnurekandi skal veita skriflega upplýsingar um viðmiðanir sem til stendur að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp og aðferðir við útreikninga á greiðslum vegna uppsagna.

3.

    Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, taka til aðila­skipta eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar á Evrópska efna­hagssvæðinu að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heyrir undir íslenska lögsögu. Í 3. gr. laga nr. 77/1993 er kveðið á um að aðilaskipti geta ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekanda, hvorki fyrir né eftir aðilaskipti. Ákvæði þetta kemur þó ekki í veg fyrir uppsagnir starfsmanna af efnahagslegum, tæknilegum eða skipulagslegum ástæðum sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi. Í 5. gr. þessara laga segir að tilkynna beri trúnaðarmanni starfsmanna eða starfsmönnum sjálfum um aðilaskipti með góðum fyrirvara og áður en aðilaskipti koma til framkvæmda. Jafnframt skal upplýsa hlutað­eigandi um ástæður aðilaskipta, um lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingar þeirra fyrir starfsmenn og um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna starfsmanna. Þá er í 6. gr. þess­ara laga kveðið á um að hafi atvinnurekandi í huga að gera ráðstafanir vegna starfsmanna vegna aðilaskipta skuli hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna í því skyni að ná samkomulagi um þær. Samráð skal hafa með góðum fyrirvara og áður en fyrirhugaðar ráð­stafanir koma til framkvæmda.

V.
Áhrif lögfestingar tilskipunar nr. 94/45/EB á Íslandi.

    Vegna smæðar íslensks efnahagslífs miðað við önnur Evrópuríki og þau stærðarmörk sem tilskipunin setur munu ákvæði frumvarpsins ekki koma til framkvæmda hér á landi í miklum mæli. Þetta kann vissulega að breytast þegar fram líða stundir en fyrst um sinn munu ákvæði frumvarpsins fyrst og fremst eiga við um starfsmenn dótturfyrirtækja erlendra fyrirtækja og fyrirtækjahópa hér á landi.
    Kunnugt er um tvo samninga sem gerðir hafa verið með vísan til tilskipunar nr. 94/45/EB sem hafa áhrif á réttindi starfsmanna hér á landi. Hér er annars vegar um að ræða samning sem Alusuisse Lonza Europe BV, með heimilisfesti í Hollandi, gerði við starfsmenn Íslenska álfélagsins hf., sem og önnur fyrirtæki er tilheyra fyrirtækinu í Evrópu, 18. september 1996. Samningur þessi var gerður á grundvelli 13. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB og fellur því óbeint undir ákvæði frumvarps þessa.
    Þá var í júní 1997 undirritaður samningur milli breska fyrirtækisins Glaxo Wellcome Re­search and Development Limited og starfsmanna þess um stofnun samstarfsráðs. Starfsmönn­um Glaxo Wellcome ehf. var boðin þátttaka og var einn starfsmaður þess valinn fulltrúi í samstarfsráðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um markmið og gildissvið frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Markmiðið með frumvarpi þessu er að bæta rétt starfsmanna fyrirtækja sem starfa í tveimur eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu til að fá upplýsingar um málefni sem varða fyrirtækið eða fyrirtækjahópinn í heild sinni. Samkvæmt frumvarpinu eiga starfsmenn rétt á að stofnað sé samstarfsráð eða settar séu reglur um miðlun upplýsinga og samráð með það í huga að aðalstjórn fyrirtækis veiti starfsmönnum upplýsingar og hafi við þá samráð um mál sem varða hagsmuni þeirra. Taki starfsmenn ákvörðun um að nýta rétt sinn samkvæmt frumvarpi þessu ber aðalstjórn fyrirtækis ekki aðeins að veita fulltrúum þeirra upplýsingar heldur ber henni einnig að skiptast á skoðunum við fulltrúa starfsmanna um þýðingu þessara upplýsinga fyrir hagsmuni starfsmanna.
    Samkvæmt frumvarpi þessu er ekki lögð skylda á að samstarfsráð sé stofnað eða að settar verði reglur um upplýsingamiðlun og samráð. Slíku fyrirkomulagi verður aðeins komið á fyrir frumkvæði aðalstjórnar fyrirtækis eða vegna skriflegrar beiðni tilskilins fjölda starfs­manna, sbr. 10. gr. frumvarpsins.
    Frumvarpið gildir um allar tegundir atvinnurekstrar, nema annað sé sérstaklega tekið fram, þar með talin opinber fyrirtæki, hvort sem fyrirtæki er rekið sem hlutafélag, einka­hlutafélag, samvinnufélag eða hvort um sjóð, samtök, sjálfseignarstofnun eða þess háttar fé­lagsform er að ræða.
    Í frumvarpinu er jöfnun höndum talað um ríki og EES-ríki og er ávallt átt við ríki á Evrópska efnahagssvæðinu nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er kveðið á um gildissvið frumvarpsins. Ákvæði tilskipunar nr. 94/45/EB tekur til fyrirtækja og fyrirtækjahópa sem eru með starfsemi í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahags­svæðinu. Frumvarpið tekur til fyrirtækja, sbr. 3. gr., sem eru með heimilisfesti hér landi og fyrirtækjahópa, sbr. 4. gr. Ákvæði frumvarpsins sem kveða á um að aðalstjórn fyrirtækis beri ábyrgð eða tilteknar skyldur verður því beitt gagnvart aðalstjórn fyrirtækis hér á landi. Ákvæði frumvarpsins gilda einnig um framkvæmd á kosningu starfsmanna í samningaráð og samstarfsráð þó að aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps, sbr. 7. gr., sé í öðru EES-ríki.
    Þá tekur frumvarpið, sbr. 2. mgr., einnig til erlendra dótturfyrirtækja og starfsstöðva ef aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps er á Íslandi, að undanskildum ákvæðum þess um útreikning á meðalfjölda starfsmanna í öðrum ríkjum, val á fulltrúum starfsmanna í því ríki þar sem fyrirtækið hefur aðsetur og vernd fulltrúa í samningaráðinu og samstarfsráðinu. Löggjöf viðkomandi ríkis á þessu sviði tekur til þessara atriða.
    Þegar um er að ræða íslensk dótturfyrirtæki eða starfsstöðvar, sem lúta stjórn móðurfyrir­tækis í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, er almenna reglan sú að lög um evrópsk sam­starfsráð í því ríki þar sem móðurfyrirtækið hefur aðsetur gilda um samskipti aðalstjórnar og starfsmanna. Þannig verða starfsmenn eða fulltrúar þeirra að beina kröfum sínum og málatilbúnaði að aðalstjórn í því EES-ríki þar sem hún hefur aðsetur. Í þessu sambandi skal þó bent á að hafi aðalstjórn fyrirtækis ákveðið að leggja þagnarskyldu á fulltrúa í samstarfs­ráði með hliðstæðum hætti og kveðið er á um 29. gr. frumvarpsins getur sú ákvörðun haft ólíka þýðingu annars vegar eftir því hvernig bregðast skuli við meintu broti á þagnarskyldu og hins vegar eftir því undir dómstól hvaða ríkis lögmæti ákvörðunar aðalstjórnar um þagnarskyldu verði borin. Hvað varðar fyrra atriðið er í 34. gr. frumvarpsins kveðið á um viðurlög við brotum á þagnarskyldu. Þar er vísað til 29. gr. frumvarpsins sem fellur undir sameiginleg ákvæði frumvarpsins. Verður ákvæði því túlkað á þann hátt að það taki almennt til þeirra aðila sem nefndir eru í ákvæðinu án tillits til þess hvort aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps er hér á landi. Að gættum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1944, um refsilögsögu getur aðalstjórn því beint kæru vegna meints brots íslensks aðila á þagnarskyldu til lögreglu hér á landi.
    Að því er síðari atriðið varðar verða fulltrúar starfsmanna að beina málssókn sinni gegn aðalstjórn í því EES-ríki þar sem hún hefur aðsetur nema aðalstjórn sé skylt samkvæmt öðrum lögum að taka til varna á öðru varnarþingi eða hún fallist á það af öðrum ástæðum.

Um II. kafla.

    Í II. kafla er að finna skilgreiningar á hugtökunum fyrirtæki, fyrirtækjahópur, móðurfyrir­tæki, aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps og reglur um útreikning á fjölda starfsmanna.

Um 3. gr.

    Skilgreining hugtaksins fyrirtæki er í samræmi við a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Fyrirtæki merkir nánar tiltekið fyrirtæki sem rekur útibú eða annars konar starfs­stöð í tveimur eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagsvæðinu. Þetta þýðir að að uppfylltum öðrum skilyrðum frumvarpsins mundi íslenskt hlutafélag sem rekur útibú í öðru ríki falla undir gildissvið þess. Meginatriðið er að hjá fyrirtækinu starfi a.m.k. 1.000 starfsmenn og a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru EES-ríkinu um sig. Hugtakið starfsstöð er ekki skilgreint nánar í frumvarpinu en með því er almennt átt við útibú eða sambærilegt form á rekstri.
    Hugtakið „starfsmaður“ er ekki skilgreint í tilskipun nr. 94/45/EB og er það ekki heldur gert í frumvarpi þessu. Hugtakið „starfsmaður“ í skilningi frumvarpsins verður því skilgreint eins og tíðkast í íslenskum vinnurétti. Vísast að öðru leyti til athugasemda við 8. gr. frum­varpsins.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er sett fram skilgreining á hugtakinu fyrirtækjahópur. Skilgreiningin er sams konar og í c-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Eins og í 3. gr. frumvarpsins er meginatriðið að a.m.k. 1.000 starfsmenn starfi í fyrirtækjum innan fyrirtækjahópsins. Þá er skilyrði að fyrirtækjahópurinn samanstandi af minnst tveimur fyrirtækjum í mismunandi EES-ríkjum og að hjá þeim starfi a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru fyrirtækinu um sig.
    Þá leiðir það af 5. gr. frumvarpsins hvort einstök fyrirtæki hafa þau innbyrðis tengsl að um sé að ræða fyrirtækjahóp í skilningi frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er hugtakið móðurfyrirtæki skilgreint. Skilgreiningin er í samræmi við 2. og 3. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Hugtakið fyrirtækjahópur ræður úrslitum um það hvort hópur fyrirtækja hefur þau innbyrðis tengsl að þeim sé skylt að verða við beiðni starfs­manna um að stofna samstarfsráð. Hugtakið ræður einnig úrslitum um hvaða fyrirtæki í hópnum er skylt að takast á hendur skyldur aðalstjórnar.
    Viðmiðunarreglur 2. mgr. 5. gr. fela í sér að því fyrirtæki, sem hefur tengsl við annað fyrirtæki eins og vikið er að í 1.–3. tölul. 2. mgr., ber að færa sönnur á að það sé ekki í ráð­andi aðstöðu gagnvart öðru fyrirtæki ef það óskar ekki eftir að takast á hendur þær skyldur sem frumvarpið kveður á um. Ef tvö eða fleiri fyrirtæki innan fyrirtækjahóps greinir á um hvaða fyrirtæki skuli fara með þær skyldur sem frumvarpið kveður á um skal það fyrirtæki sem fullnægir einu af skilyrðunum í 2. mgr. fara með ábyrgðina.
    Ef tvö eða fleiri fyrirtæki fullnægja einu eða fleiri skilyrðum í 2. mgr. fer það eftir ákvæði 3. mgr. 5. gr. hvernig með skuli fara. Þessu má lýsa með eftirfarandi dæmi: Ef tveimur eða fleiri fyrirtækjum er öllum kleift að hafa áhrif á sama dótturfyrirtækið, t.d. vegna þess að fyrirtæki A fer með meiri hluta atkvæða á aðalfundi fyrirtækisins og annað fyrirtæki, B, á meira en helming hlutafjárins skal úr því skorið hvoru fyrirtækinu sé skylt, komi fram beiðni um það frá starfsmönnum, að gera ráðstafanir til að stofna samstarfsráð eða setja reglur um upplýsingamiðlun og samráð. Í þessu dæmi telst fyrirtæki A móðurfyrirtækið, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, nema unnt sé að færa sönnur á að fyrirtæki B hafi í raun ráðandi áhrif á viðkomandi fyrirtæki af öðrum ástæðum.
    Hvað varðar túlkun á hugtakinu móðurfyrirtæki má bera ákvæði frumvarpsins saman við ákvæði íslensks félagaréttar.
    Í 1. mgr. 2. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, segir að ef hlutafélag á svo mikinn hluta hlutafjárins í öðru hlutafélagi eða einkahlutafélagi að það fer með meiri hluta atkvæða í fé­laginu teljist fyrrnefnda félagið móðurfélag en hið síðarnefnda dótturfélag. Í 2. mgr. ákvæð­isins segir að ef dótturfélag eða móðurfélag ásamt einu eða fleiri dótturfélögum eða fleiri en eitt dótturfélag eiga í sameiningu svo mikið hlutafé í öðru hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem um ræðir í 1. mgr. teljist síðastnefnda félagið dótturfélag móðurfélagsins. Þá segir í 3. mgr. að ef hlutafélag hefur annars, vegna hlutafjáreignar eða samninga, yfirráð í öðru hluta­félagi eða einkahlutafélagi telst fyrrnefnda félagið einnig móðurfélag og hið síðarnefnda dótturfélag.
    Athygli er vakin á því að samkvæmt lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, þarf sá sem á meiri hluta hlutafjár í félagi ekki endilega að hafa ráðandi áhrif á stjórnun þess. Þetta skýrist af því að heimilt er samkvæmt lögunum að gefa út hluti án atkvæðisréttar. Nánar segir um þetta í 20. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, að allir hlutir skuli hafa jafnan rétt í félagi. Í sam­þykktum félags má þó ákveða að hlutum skuli skipt í sérstaka flokka, m.a. flokk án atkvæðis­réttar. Fyrirtæki, sem á meiri hluta hlutafjár en fer aðeins með lítinn atkvæðisrétt á aðalfundi annars fyrirtækis, telst því ekki móðurfyrirtæki nema það hafi afgerandi áhrif af öðrum sök­um.
    Samkvæmt 5. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, nr. 144/1994, telst fyrirtæki móðurfélag sem á beinan eða óbeinan hátt á svo mikinn hluta eigin fjár í öðru félagi að það fer með meiri hluta atkvæða í því eða það hefur vegna samninga yfirráð í öðru félagi og verulega hlutdeild í afrakstri þess.
    Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar telst atkvæðisréttur sem dótturfyrirtæki hefur í öðru fyrir­tæki með atkvæðisrétti móðurfyrirtækisins þegar ákvarða skal hvort ráðandi aðstaða sé fyrir hendi.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um undantekningar frá 1.–3. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Ef ekki væri kveðið á um þessar undantekningar væru þau fyrirtæki sem greinin tekur til talin ráð­andi í skilningi 5. gr. frumvarpsins þó að afskipti af rekstri viðkomandi fyrirtækja væru fyrst og fremst til bráðabirgða og í afmörkuðum tilgangi.
    Greinin er byggð á 4. mgr. 3. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB, en samkvæmt því ákvæði telst fyrirtæki ekki vera í ráðandi aðstöðu gagnvart öðru þegar um fyrirtæki er að ræða sem fjall­að er um í a- eða c-lið 5. mgr. 3. gr. í reglugerð Evrópusambandsins nr. 4064/89 frá 21. desember 1989, um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja.
    Í a-lið 5. mgr. 3. gr. þessarar reglugerðar er kveðið á um að samfylking fyrirtækja teljist ekki hafa átt sér stað þegar lánastofnanir, aðrar fjármálastofnanir eða tryggingafyrirtæki, þar sem verðbréfaviðskipti, kaup og sala fyrir eigin hönd eða annarra falla undir eðlilega starf­semi hlutaðeigandi fyrirtækis, halda til bráðabirgða hlutabréfum í fyrirtæki sem þau hyggjast selja aftur, að því tilskildu að þau notfæri sér ekki atkvæðisrétt sem þessum hlutabréfum fylgir með það fyrir augum að ákvarða samkeppnisaðgerðir þess sama fyrirtækis, eða að því tilskyldu að þau notfæri sér þennan atkvæðisrétt einungis með það fyrir augum að undirbúa sölu hlutaðeigandi fyrirtækis í heild eða að hluta, eigna þess eða hlutabréfa og að af sölunni verði innan árs frá því að bréfanna var aflað.
    Fyrirtæki sem falla undir þetta viðmið verða þannig ekki talin í ráðandi aðstöðu í skilningi 5. gr. frumvarpsins.
    Þá er í c-lið 5. mgr. 3. gr. reglugerðar Evrópusambandsins nr. 4064/89 kveðið á um að með sama hætti skuli litið á ráðstafanir þær sem tilgreindar eru í b-lið 1. mgr. reglugerðar­innar sem eru gerðar af eignarhaldsfélögum sem um getur í 3. mgr. 5. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins nr. 78/660/EBE frá 25. júlí 1978, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, eins og henni var síðast breytt með tilskipun nr. 84/569/EBE, að því tilskildu þó að atkvæðisréttur sem umræddur eignarhlutur veitir sé nýttur, einkum er varðar skipun í framkvæmdastjórn og yfirstjórnir fyrirtækja þeirra sem þau eiga hlut í, einungis til að viðhalda fullu verðgildi þess­ara fjárfestinga og ekki til að ákvarða beint eða óbeint samkeppnisaðgerðir fyrirtækja þess­ara.
    Í 1. tölul. 3. mgr. 5. gr. framangreindrar tilskipunar eru eignarhaldsfélög skilgreind sem fyrirtæki sem hafa þann tilgang einan að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum og að ávaxta og nýta slíka hagsmuni án þess að blanda sér beint eða óbeint í stjórn slíkra fyrirtækja.
    Með sama hætti og að framan greinir falla þessi fyrirtæki ekki undir skilgreiningu frum­varpsins um ráðandi fyrirtæki.
    Af ákvæði 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins leiðir að ráðandi aðstaða er ekki til staðar þegar skiptastjóri þrotabús samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti beitir valdi sínu í tengslum við gjaldþrotameðferð, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða þess konar ráðstafanir.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er hugtakið aðalstjórn skilgreint. Hafi stjórn fyrirtækis stöðu aðalstjórnar í skilningi frumvarpsins er henni skylt, komi fram beiðni um það frá tilskildum fjölda starfsmanna, að gera ráðstafanir til að stofna samstarfsráð eða setja reglur um upplýsingamiðlun og samráð.
    Ef tiltekið móðurfyrirtæki er sjálft dótturfyrirtæki annars fyrirtækis, og er þannig hluti af stærri fyrirtækjahópi, leiðir það af 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins að stjórn þessa móðurfyrir­tækis er ekki skylt að gera slíkar ráðstafanir. Skyldan hvílir þá á stjórn þess fyrirtækis sem telst aðalstjórn fyrirtækjahópsins samkvæmt þeim reglum sem nánar er kveðið á um í 5. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er fjallað um það þegar aðalstjórn fyrirtækis er ekki í ríki á Evrópska efnahags­svæðinu. Í því tilviki telst aðalstjórn fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins vera sá fulltrúi í einhverju EES-ríki sem aðalstjórn tilnefnir. Ef slíkur fulltrúi hefur ekki verið tilnefndur telst aðalstjórn vera stjórn þess fyrirtækis eða starfsstöðvar sem hefur flesta starfsmenn í EES-ríki.

Um 8. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB skal fjöldi starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjahóps reiknaður út frá meðalfjölda starfsmanna fyrirtækisins, að meðtöldum starfs­mönnum í hlutastörfum sem hafa starfað hjá því síðustu tvö árin. Í þessu sambandi er miðað við síðustu tvö árin frá því að beiðni starfsmanna er lögð fram um stofnun samningaráðs skv. 10. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að aðalstjórn beri skylda til að upplýsa fulltrúa starfsmanna um heildarfjölda starfsmanna í fyrirtækjum og starfsstöðvum í þeim tilgangi að þeir geti metið hvort skilyrði frumvarpsins að þessu leyti séu uppfyllt.

Um III. kafla.

    Í þessum kafla er að finna ákvæði um ábyrgð á stofnun evrópsks samstarfsráðs eða sam­þykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð. Þá er kveðið á um kjör fulltrúa í sérstakt samningaráð en hlutverk þess er að gera samning við aðalstjórn fyrirtækis. Einnig er í kafl­anum að finna ákvæði um lágmarksinntak samnings um stofnun samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
    Samstarfsráð tekur til allra fyrirtækja og starfsstöðva og fyrirtækja sem tilheyra fyrir­tækjahópi sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu. Því er óheimilt að undanskilja einstök fyrirtæki eða starfsstöðvar þegar samningur um stofnun samstarfsráðs er gerður á grundvelli frumvarps þessa. Sama gildir um samninga sem gerðir eru skv. 15. gr. frumvarpsins. Er þetta í samræmi við 2. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB.

Um 9. gr.

    Greinin er að efni til sams konar og ákvæði 1. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Sam­kvæmt henni ber aðalstjórn að skapa þannig skilyrði að samningaráðið geti sinnt skyldum sínum á eðlilegan hátt. Ber að skoða þessa grein með hliðsjón af 12. gr. frumvarpsins sem m.a. kveður á um ábyrgð aðalstjórnar á kostnaði er hlýst af störfum samningaráðsins.

Um 10. gr.

    Viðræður um stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð geta hafist með tvennum hætti, annaðhvort fyrir frumkvæði aðalstjórnar eða á grundvelli skriflegrar beiðni a.m.k. 100 starfsmanna fyrirtækisins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að starfsmenn geti beint beiðni sinni til stjórnar þess fyrirtækis sem þeir starfa hjá í stað þess að beina henni til aðalstjórnar fyrirtækisins eða fyrirtækja­hópsins. Ef þessi háttur er hafður á ber stjórn viðkomandi fyrirtækis að framsenda beiðnina án tafar til aðalstjórnar.
    Tekið er fram að þeir frestir sem tilgreindir eru í 19. gr. frumvarpsins miðast við þann dag þegar beiðni starfsmanna er afhent stjórn fyrirtækis eða fyrirtækis innan fyrirtækjahóps.

Um 11. gr.

    Að uppfylltum ákvæðum 10. gr. frumvarpsins ber aðalstjórn að hafa frumkvæði að stofn­un samningaráðs.
    Í 2. mgr. er kveðið á um lágmarks- og hámarksfjölda fulltrúa í samningaráðinu.
    Samkvæmt d-lið 1. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB skal við ákvörðun þess hverjir teljast fulltrúar starfsmanna byggja á landslögum og/eða venju í því landi þar sem tilskipunin er lögfest. Sambærilegt orðalag er notað í b-lið 1. tölul. 1. gr. tilskipunar nr. 75/129/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir sem lögtekin var hér á landi með lög­um um hópuppsagnir, nr. 95/1992. Sama máli gegnir um c-lið 2. gr. tilskipunar nr. 77/187/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar, sem lögfest var með lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993. Í báðum þessum lögum gegna trúnaðarmenn starfsmanna því hlutverki sem ,,fulltrúum starfsmanna“ er ætlað sam­kvæmt tilskipunum þessum. Ekki er ástæða til þess að túlka d-lið 1. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB með öðrum hætti en hér hefur verið gert og verður þannig haldið samræmi í þýðingu og notkun hugtaka við lögfestingu tilskipana Evrópusambandsins á sviði vinnuréttar hér á landi. Í 3. mgr. er því kveðið á um að fulltrúar í samningaráðið, sem kosnir eru á Ís­landi, skulu kosnir úr hópi starfsmanna af trúnaðarmönnum innan fyrirtækis. Séu trúnaðar­menn af einhverjum ástæðum ekki í fyrirtækinu eiga allir starfsmenn fyrirtækis eða starfs­stöðvar rétt á að taka þátt á kjöri fulltrúa í samningaráðið.
    Þá er kveðið á um að starfsmenn sem stöðu sinnar vegna eigi ekki trúnaðarmann eigi rétt á því að velja sér fulltrúa sem skal taka þátt í kjöri fulltrúa í samningaráðið.
    Í c-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB er kveðið á um að við kosningu í samninga­ráðið skuli tryggja í fyrsta lagi að einn fulltrúi sé fyrir hvert aðildarríki þar sem fyrirtæki á bandalagsvísu starfar með eina eða fleiri starfsstöðvar eða þar sem fyrirtækjahópur sem starfar á bandalagsvísu hefur ráðandi fyrirtæki eða eitt eða fleiri undirfyrirtæki. Í öðru lagi að viðbótarfulltrúar séu í réttu hlutfalli við fjölda starfsmanna í starfsstöðvum, ráðandi fyrir­tæki eða undirfyrirtækjum eins og mælt er fyrir um í löggjöf aðildarríkisins þar sem aðal­stjórnin hefur aðsetur.
    Er framangreindum viðmiðunum fylgt í 5. mgr. greinarinnar, en þar er kveðið á um reglur sem beita skal við útreikning á fjölda fulltrúa í samningaráðið frá hverju ríki.
    Hafi fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn færri en 2.000 starfsmenn, og hafi aðeins starfs­stöðvar eða fyrirtæki í tveimur ríkjum, er skilyrðum 1. og 2. tölul. 5. mgr. fylgt. Hafi fyrir­tækið fleiri starfsmenn er skilyrðum a–c-liðar 3. tölul. fullnægt hverju af öðru, en tillit tekið til þess að hámarksfjöldi fulltrúa skal vera átján.
    Það er hlutverk aðalstjórnar að reikna út hve margir fulltrúar skuli sitja í samningaráðinu og ber henni síðan að tilkynna fyrirtækjum eða starfsstöðvum þess hve marga fulltrúa skuli kjósa í hverju ríki um sig. Aðalstjórn ræður hins vegar ekki hvernig sjálft val fulltrúanna fer fram í hverju einstöku ríki. Skal valið fara fram eftir þeim reglum og/eða venjum sem gilda í því ríki eða ríkjum þar sem fulltrúarnir eru valdir. Framangreindar reglur gilda því um fjölda fulltrúa sem kosnir eru hér landi.

Um 12. gr.

    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar samsvarar 1. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Vísast að öðru leyti til athugasemda við 14. og 15. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. eru engin takmörk sett fyrir því hve marga sérfræðinga samninga­ráðinu er heimilt að kalla sér til liðsinnis. Kostnaður aðalstjórnar miðast þó aðeins við störf eins sérfræðings.
    Í greininni er ekki sett fram skilgreining á hugtakinu „sérfræðingur“ eða hvort hann skuli vera einn af starfsmönnum fyrirtækis eða einhver utan þess. Með sérfræðingi er almennt átt við mann sem hefur mikla reynslu í samningagerð eða er sérfróður um efnahagsmál. Hér getur verið um að ræða aðila frá stéttarfélagi, frá landssamtökum launamanna eða sameigin­legum samtökum launamanna á Evrópska efnahagssvæðinu, lögmann eða endurskoðanda. Sérfræðingur er ekki fulltrúi í samningaráðinu en hefur stöðu sinnar vegna heimild til að sitja á fundum ráðsins til að veita faglega ráðgjöf.
    Samkvæmt 3. mgr. skal aðalstjórn bera kostnað í tengslum við samningaviðræður. Útgjöld í sambandi við samningaviðræður eru m.a. ferða-, matar- og gistikostnaður, túlkunarkostn­aður, kostnaður við þýðingar skjala og hugsanlega vegna leigu á húsnæði. Ábyrgð aðal­stjórnar á kostnaði miðast við að samningaráðið geti sinnt störfum sínum með eðlilegum hætti.

Um 13. gr.

    Þegar samningaráðið hefur verið skipað ber aðalstjórn að boða ráðið til fundar og skal stjórnum fyrirtækja á hverjum stað tilkynnt um fundarboðið.

Um 14. gr.

    Í greininni eru talin upp þau meginatriði sem kveðið skal á um í samningi um samstarfs­ráð. Að öðru leyti hafa aðilar frelsi til að ákveða nánar innihald samningsins. Að uppfylltum ákvæðum þessarar greinar þurfa aðilar ekki að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til samstarfsráðs sem stofnað er skv. IV. kafla frumvarpsins. Þannig er aðilum t.d. ekki skylt að semja um árlegan fund eða fara fram á gerð sérstakrar skýrslu af hálfu stjórnar, sbr. 23. gr. o.s.frv. Ef aðilar óska eftir að halda fundi á öðrum tímum eða leggja eitthvað annað til grundvallar á fundum en skýrslu aðalstjórnar eins og gert er ráð fyrir skv. IV. kafla frum­varpsins er þeim frjálst að semja um það.

Um 15. gr.

    Í stað þess að gera með sér samning um stofnun samstarfsráðs, sbr. 14. gr., er aðalstjórn og samningaráði heimilt að gera með sér samning um setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð. Slíkt fyrirkomulag kann að vera ákjósanlegra en samstarfsráð þegar fyrir hendi eru innan fyrirtækisins eða fyrirtækjahóps upplýsinga- og samskiptaleiðir sem auðvelt er að byggja á. Komi aðilar sér saman um að hafa þennan háttinn á í stað þess að stofna samstarfs­ráð verður að gera skriflegan samning er greini frá því hver tilgangurinn með reglunum skal vera, um hvaða málefni upplýsingamiðlun og samráð samkvæmt slíkum reglum skuli snúast, hvernig slíkt skuli fjármagnað og um gildistíma.

Um 16. gr.

    Í ljós kann að koma að hið sérstaka samningaráð taki ekki undir beiðni, sbr. 10. gr., um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr. frumvarpsins. Hefur samningaráðið heimild samkvæmt þessari grein til að hefja ekki viðræður við aðalstjórn um gerð samnings. Þá getur samninga­ráðið slitið viðræðum sem þegar eru hafnar. Skilyrði er að tillaga um slíkt sé samþykkt með minnst tveimur þriðju hlutum atkvæða fulltrúa í samningaráðinu. Hver fulltrúi fer með eitt atkvæði við slíka atkvæðagreiðslu.
    Hafi samningaráðið ályktað skv. 1. mgr. er ekki hægt að kalla það saman fyrr en eftir tvö ár. Skiptir þá ekki máli þó að ný beiðni komi fram frá a.m.k. 100 starfsmönnum um að stofn­að verði samstarfsráð. Aðilum er þó heimilt að víkja frá þessu ef samningaráðið og aðal­stjórn eru sammála um það.

Um 17. gr.

    Þessi grein er í samræmi við 5. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Þó er kveðið á um í 2. málsl. greinarinnar að þegar atkvæði falla jöfn skuli fulltrúar frá ríki þar sem starfsmenn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps eru flestir hafa eitt viðbótaratkvæði.

Um 18. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjahóps skuli tilkynna ráðherra, þ.e. félagsmálaráðherra, um þá samninga sem gerðir hafa verið samkvæmt ákvæð­um frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir því að aðalstjórn beri að afhenda afrit af samningum sem gerðir hafa verið samkvæmt frumvarpi þessu. Aðalstjórn getur þó látið nægja að upplýsa einungis um að samningur hafi verið gerður. Þetta á við ef í samningi eru atriði sem varða sérstaka viðskiptahagsmuni fyrirtækis og afhending samnings getur skaðað það. Þessi undan­tekning getur þó aðeins átt við um stundarsakir sem þýðir að þegar þær kringumstæður eru ekki lengur fyrir hendi sem gera efni samningsins að viðskiptaleyndarmáli ber aðalstjórn að afhenda ráðherra afrit af honum.
    Með ákvæði þessu er hvorki gert ráð fyrir að ráðherra hafi eftirlit með því að löglega sé staðið að gerð samninga né að hann hafi vald til að skipta sér af framkvæmd þeirra. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að samningum sem gerðir eru á grundvelli frumvarpsins sé safnað saman á einn stað þannig að upplýsingar liggi fyrir um fjölda þeirra hér á landi. Er bent á almennt gildi slíkrar samantektar í þágu rannsókna á íslenskum vinnumarkaði.

Um IV. kafla.

    Ákvæði þessa kafla eru víkjandi fyrir ákvæðum III. kafla frumvarpsins og ber að beita þeim ef aðilar koma sér ekki saman um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr., innan þriggja ára frá þeim tíma þegar beiðni barst skv. 10. gr. frumvarpsins, ef aðalstjórn hefur sýnt af sér tómlæti við að hefja gerð samnings eða aðilar hafa ákveðið sjálfir að þeir vilji beita ákvæð­um þessa kafla. Hér er gerð krafa um að samstarfsráð sé stofnað samkvæmt ákveðinni for­skrift, gagnstætt ákvæðum í III. kafla þar sem fjallað er um möguleika aðila til að gera sína eigin samninga innan þeirra marka sem kveðið er á um í 14. og 15. gr.
    Í ákvæðum þessa kafla er lýst hverjir skuli sitja í samstarfsráði, svo og hvaða skyldur og réttindi aðalstjórn og samstarfsráðið hefur.
    Eru ákvæði kaflans í samræmi við 7. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB, sbr. og ákvæði í við­auka hennar.

Um 19. gr.

    Í ákvæði þessu er talin upp þau atvik sem leitt geta til þess að samstarfsráð sé stofnað á grundvelli IV. kafla frumvarpsins. Ákvæði 1.–3. tölul. fela í sér að láti aðalstjórn hjá líða að hefja samningaviðræður eða ef aðilar eru ekki sammála um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr. ber þeim skylda til að stofna samstarfsráð á grundvelli IV. kafla frumvarpsins. Skv. 13. gr. frumvarpsins teljast samningaviðræður hafnar þegar boðaður hefur verið fundur og hann er haldinn innan eðlilegs tíma eftir að fundarboðið var sent út.
    Aðilar eru þannig beittir ákveðnum þrýstingi til að koma sér saman um samning skv. 14. eða 15. gr., en kunna ella að þurfa að gera samning sín á milli á grundvelli ákvæða þessa kafla.

Um 20. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að valdsvið samstarfsráðs takmarkist við málefni fyrirtækis sem hafa þýðingu yfir landamæri einstakra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Upplýsingar og viðræður aðila verða því að lúta að málum sem snerta allt fyrirtækið eða allan fyrirtækja­hópinn eða hluta hans, svo fremi fyrirtækin séu í mismunandi ríkjum. Ef um er að ræða fyrir­tæki eða fyrirtækjahópa og aðalstjórn er ekki á Evrópska efnahagsvæðinu takmarkast vald­svið samstarfsráðsins við upplýsingar og viðræður um mál sem snerta fyrirtæki og starfs­stöðvar í EES-ríkjum.

Um 21. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um lágmarks- og hámarksfjölda fulltrúa í samstarfsráðinu og hvernig þeir eru kosnir.
    Samkvæmt 2. og 3. mgr. skulu fulltrúar í samstarfsráðið kosnir með sama hætti og þegar íslenskir fulltrúar eru kosnir í samningaráðið. Er vísað til athugasemda við 11. gr. frum­varpsins.
    Í 4. mgr. er kveðið á um eftir hvaða reglum fulltrúar í samstarfsráðið skulu valdir. Er hér um svipaðar reglur að ræða og þegar reikna þarf fjölda fulltrúa í samningaráðið, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Hafi fyrirtækið eða fyrirtækjahópurinn færri en 2.000 starfsmenn skulu full­trúar valdir á grundvelli 1.–2. tölul. 4. mgr. Hafi fyrirtækið fleiri starfsmenn skal fullnægja skilyrðunum í a–c-liðum 3. tölul., hverju á fætur öðru, og tekið tillit til þess að hámarksfjöldi fulltrúa skal vera 30. Vísast að öðru leyti til athugasemda við 11. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 7. mgr. er heimilt að stofna framkvæmdanefnd þegar samstarfsráðið er skipað fleiri en tíu fulltrúum. Þegar þannig háttar til koma fulltrúarnir frá fleiri en tíu ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í slíkum tilvikum kann að vera erfitt að kalla saman samstarfs­ráðið með litlum fyrirvara. Þá kann slík framkvæmdanefnd að vera betur í stakk búin til að gæta hagsmuna starfsmanna ef um er að ræða upplýsingar og viðræður um ákvarðanir sem mikið liggur á að séu teknar.

Um 22. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. skal aðalstjórn annað hvert ár eftir stofnun samstarfsráðs reikna út fjölda fulltrúa fyrir hvert EES-ríki og upplýsa ráðið um niðurstöðu sína. Ef niðurstaðan kallar á breytingu á fjölda fulltrúa sem skipaðir hafa verið skv. 4. og 5. mgr. 21. gr. skal full­trúum í ráðinu fækkað eða fjölgað eftir því sem við á.
    Þá er kveðið á um í 2. mgr. að þegar samstarfsráð hefur starfað í fjögur ár beri því að kanna hvort það eigi að halda áfram að starfa samkvæmt gildandi samningi eða hvort grund­völlur sé fyrir því að gera samning um samstarfsráð eða setja reglur um upplýsingamiðlun og samráð samkvæmt ákvæðum III. kafla frumvarpsins.
    Ef starfandi samstarfsráð ákveður að óska eftir viðræðum um gerð samnings um stofnun samstarfsráðs eða gerð samkomulags um upplýsingamiðlun og samráð samkvæmt ákvæðum III. kafla frumvarpsins og aðalstjórn felst á þá málaleitan þarf ekki kalla til samningaráð í þessu skyni, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Starfandi samstarfsráð semur við aðalstjórn um gerð samnings.

Um 23. gr.

    Samkvæmt þessari grein skal aðalstjórn halda a.m.k. einn fund á ári með samstarfsráðinu. Upplýsingar og viðræður á fundinum skulu snerta þróun og starfsemi fyrirtækisins eða fyrir­tækjahópsins.
    Fyrir fundinn ber aðalstjórn að útbúa skýrslu sem senda skal fulltrúum í ráðinu. Skýrslan skal liggja til grundvallar fundinum og er því mikilvægt að fulltrúum gefist tækifæri til að búa sig undir hann. Forsenda þessa er að aðalstjórn sjái um að skýrslan sé send út í tæka tíð fyrir fundinn og að hún liggi fyrir á tungumálum þeirra EES-ríkja sem eiga fulltrúa í ráðinu.
    Á fundi þessum skal einkum fjallað um uppbyggingu fyrirtækisins eða fyrirtækjahópsins, efnahags- og fjárhagslega stöðu, líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu, ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrir­tækisins eða fyrirtækjahópsins, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.

Um 24. gr.

    Ákvæði þetta gerir ráð fyrir því að ef sérstakar aðstæður koma upp sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna beri aðalstjórn að tilkynna framkvæmdanefndinni eða sam­starfsráðinu um það. Á grundvelli þessara upplýsinga metur framkvæmdanefndin eða sam­starfsráðið hvort nauðsynlegt sé að kalla saman sérstakan aukafund. Aðalstjórn ber því að­eins að boða til fundar að þær aðstæður séu fyrir hendi og framkvæmdanefndin eða sam­starfsnefndin óski eftir því.
    Einstök atvik í rekstri fyrirtækis eða viðskiptaumhverfi þess sem hafa áhrif á hagsmuni starfsmanna, en telja má eðlileg og lið í starfsemi og rekstri hlutaðeigandi fyrirtækis eða fyrirtækjahóps, er ekki unnt að telja óvenjulega viðburði í skilningi frumvarpsins sem geti verið forsenda slíkra sérstakra upplýsinga frá aðalstjórn.
    Fundur samkvæmt þessari grein skal ekki haldinn með aðalstjórn ef önnur stjórn þekkir betur forsendur hinna sérstöku aðstæðna og ber auk þess fjárhagslega ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin verður.
    Ef því verður við komið skal halda fundinn áður en þeir viðburðir sem um er að ræða gefa tilefni til ákvarðana, gagnstætt almennum fundum sem fremur einkennast af því að snúast um árlegt uppgjör fyrirtækjahópsins.

Um 25. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu hefur samstarfsráðið eða framkvæmdanefndin, í tengslum við fundinn með aðalstjórn, rétt til að halda undirbúningsfund sem aðalstjórn tekur ekki þátt í. Þetta ákvæði er mikilvægt til að tryggja að samstarfsráð geti starfað með eðlilegum hætti. Fulltrúar í ráðinu koma frá ýmsum löndum og úr ýmsum fyrirtækjum innan fyrirtækjahópsins og hafa endranær ekki mikla möguleika á að ræða þau mál sem koma fram í fyrirliggjandi skýrslu, sbr. 23. gr., áður en ráðið situr fund með aðalstjórn.

Um 26. gr.

    Ákvæðið fjallar um upplýsingaskyldu fulltrúa samstarfsráðsins gagnvart þeim starfs­mönnum sem þeir eru fulltrúar fyrir. Fulltrúum í samstarfsráðinu ber að skýra fulltrúum starfsmanna frá efni og niðurstöðu fundarins með aðalstjórn, sbr. 23. og 24. gr. Þær upp­lýsingar sem sendar eru út samkvæmt þessu ákvæði skal ekki bera undir aðalstjórn, svo fremi þær falli ekki undir ákvæði 29. gr. frumvarpsins um þagnarskyldu. Yfirleitt skal gefa skrif­legar upplýsingar en aðstæður kunna að vera með þeim hætti að starfsmenn skuli hafa mögu­leika á að fá munnlegar upplýsingar.

Um 27. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu hefur samstarfsráðið eða framkvæmdanefndin möguleika á að njóta aðstoðar sérfræðinga ef nauðsyn krefur.

Um 28. gr.

    Aðalstjórn greiðir kostnað af rekstri samstarfsráðsins en ákvæðið útilokar ekki að skipta megi ábyrgð vegna útgjalda, þannig að t.d. einstök fyrirtæki eða starfsstöðvar greiði kostnað í tengslum við þátttöku einstakra fulltrúa. Samkvæmt frumvarpinu ber aðalstjórn þó endan­lega ábyrgð. Í rekstrarkostnaði eru m.a. fólgin útgjöld vegna prentunar skýrslu, þýðingar, póstkostnaður, kostnaður við fundarhaldið sjálft, þ.e. túlkun, húsaleigu o.s.frv. Auk þess greiðir aðalstjórn kostnað fulltrúanna sem ekki verður hjá komist svo að þeir geti leyst skyldustörf sín af hendi, svo sem ferða-, matar- og gistikostnað og túlkun. Enn fremur ber aðalstjórn að sjá um að fulltrúarnir haldi fullum launum.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla eru ákvæði um þagnarskyldu sem aðalstjórn er heimilt að leggja á fulltrúa starfsmanna í samstarfsráði ef hagsmunir fyrirtækis eru í húfi, um undanþágu frá upplýsinga­skyldu aðalstjórnar í einstökum tilvikum og um réttarstöðu þeirra starfsmanna sem taka að sér að vera fulltrúar starfsmanna samkvæmt frumvarpi þessu. Þá er kveðið á um heimild aðila til að bera ágreining undir héraðsdóm og um heimild ráðherra til setja í reglugerð nánari fyrirmæli um kosningu íslenskra fulltrúa í samningaráðið eða samstarfsráðið.
    Eins og heiti kaflans ber með sér er ákvæðum þessum ætlað að taka til samskipta aðila án tillits til þess hvort þau fara fram á grundvelli III. eða IV. kafla frumvarpsins.

Um 29. gr.

    Í störfum sínum sem fulltrúar í samstarfsráðinu og samningaráðinu kunna starfsmenn að verða einhvers áskynja um atriði sem hafa mikla þýðingu fyrir hagsmuni fyrirtækisins. Er ráð fyrir því gert í 1. mgr. 8. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB að aðildarríkjum sé heimilt að kveða á um þagnarskyldu fulltrúa og að hve miklu leyti stjórnin geti haldið tilteknum upp­lýsingum leyndum.
    Er í grein þessari kveðið á um rétt aðalstjórnar til að leggja þagnarskyldu á fulltrúa í samningaráðinu og samstarfsráðinu. Stjórn fyrirtækisins metur hvort upplýsingar séu þess eðlis að fulltrúum í samningaráðinu og samstarfsráðinu sé ekki heimilt að ljóstra þeim upp. Lagt er til að þagnarskyldan gildi áfram þótt umboð hlutaðeigandi fulltrúa sé útrunnið og er það í samræmi við 1. mgr. 8. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB.
    Ákvörðun stjórnar má skjóta til almennra dómstóla, sbr. 32. gr.
    Ákvæðið hefur ekki að geyma nánari reglur um hvaða upplýsingar kunni að vera þess eðlis að aðalstjórn sé heimilt að leggja þagnarskyldu á af þeim sökum. Hér mun þó einkum vera um að ræða upplýsingar um viðskipta- og rekstrarleyndarmál, en aðrar tegundir upp­lýsinga kunna einnig að vera þess eðlis að nauðsynlegt sé að halda þeim leyndum með tilliti til hagsmuna fyrirtækisins.
    Þagnarskylda verður aðeins ákveðin í einstökum tilvikum. Þessi grein frumvarpsins heim­ilar því ekki að fulltrúar í samstarfsráðinu og samningaráðinu undirgangist almenna þagnar­skyldu er varðar þær upplýsingar sem þeir fá í störfum sínum.

Um 30. gr.

    Hér er fjallað um heimild aðalstjórnar til að veita samningaráðinu, samstarfsráðinu og framkvæmdanefndinni ekki upplýsingar. Skilyrði er að viðkomandi upplýsingar mundu sam­kvæmt hlutlægu mati hafa skaðleg áhrif á starfsemi viðkomandi fyrirtækja eða vera þeim skaðlegar. Bera má lögmæti slíkrar neitunar undir dómstóla, sbr. 32. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Í þessari grein eru almenn ákvæði um réttarstöðu þeirra starfsmanna sem bjóða sig fram til starfa sem fulltrúar starfsmanna gagnvart aðalstjórn. Er lagt til að fulltrúar starfsmanna skuli hvorki sæta skerðingu á kjörum sínum né uppsögn vegna starfa sinna. Til frekari árétt­ingar á réttarstöðu fulltrúa starfsmanna er vísað til ákvæða um trúnaðarmenn í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, með síðari breytingum.
    Í 11. gr. þeirra laga er kveðið á um að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðar­mannsstörfum fyrir sig. Þá segir í ákvæði þessu að þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
    Þá er kveðið á um að fulltrúum starfsmanna skuli með samningi við vinnuveitanda tryggð­ur réttur til að taka sér frí frá störfum til að gegna þeim skyldum sem gerð og framkvæmd samninga samkvæmt frumvarpi þessu fela í sér. Sá mælikvarði er settur á þennan rétt að við­komandi starfsmaður geti með eðlilegum hætti sinnt skyldum sínum. Þetta ákvæði verður einnig að skoða í ljósi 9. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB, en þar segir að aðalstjórn og sam­starfsráð skuli starfa í anda samvinnu með tilhlýðilegu tilliti til gagnkvæmra réttinda og skuldbindinga.

Um 32. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að komi til ágreinings um gerð eða framkvæmd samnings samkvæmt frumvarpi þessu hafi aðilar heimild til að fá úr honum skorið fyrir héraðsdómi.

Um 33. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um VI. kafla.

    Í þessum kafla er kveðið á um viðurlög við brotum aðila á einstökum greinum frum­varpsins.

Um 34. gr.

    Lagt er til að fulltrúar í samningaráðinu, samstarfsráðinu, framkvæmdanefndinni og sér­fræðingar, sem eru þeim til fulltingis, verði látnir sæta sektum fyrir að ljóstra upp, þrátt fyrir þagnarskyldu skv. 29. gr., upplýsingum sem þeim hafa verið veittar.
    Lagt er til að ákvæðið gildi ekki ef þyngri refsing liggur við brotinu samkvæmt öðrum lögum.

Um 35. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu liggja fésektir við brotum á þeim ákvæðum sem tilgreind eru í greininni.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla er kveðið á um gildistöku frumvarpsins og um þýðingu samninga sem gerð­ir voru milli fyrirtækja og starfsmanna um miðlun upplýsinga áður en tilskipun nr. 94/45/EB tók gildi 22. september 1996.

Um 36. gr.

    Samkvæmt þessari grein er tekið tillit til samninga um upplýsingagjöf og viðræður sem gerðir hafa verið á grundvelli 13. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB.
    Sú krafa er gerð til slíks samnings að hann nái til allra starfsmanna fyrirtækis eða fyrir­tækjahóps og enn fremur skal hann hafa verið gerður og hafa öðlast gildi eigi síðar en 22. september 1996, sbr. 14. gr. tilskipunarinnar. Loks skal samningurinn fjalla um upplýsingar og viðræður um mál sem hafa þýðingu fyrir fyrirtækið eða fyrirtækjahópinn án tillits til landamæra, þ.e. málið skal snerta eina eða fleiri starfsstöðvar í tveimur eða fleiri ríkjum en innan sama fyrirtækis eða fyrirtækjahóps.

Um 37. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og samráð við starfsmenn í


fyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu.


    Frumvarpið er lagt fram með vísan til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/45/EB frá 22. september 1994 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum sem starfa innan EES, um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn.
    Skuldbindingar frumvarpsins eiga fyrst og fremst við fyrirtæki og fyrirtækjahópa sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í þjónustu sinni á Evrópska efnahagssvæðinu og þar af a.m.k. 150 starfsmenn í minnst tveimur aðildarríkjum, hvoru fyrir sig. Markmið frumvarpsins er m.a. að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs þegar ákvarðanir sem hafa áhrif á þá eru teknar í öðru ríki en starfsríkinu.
    Vegna smæðar fyrirtækja í íslensku efnahagslífi munu ákvæði frumvarpsins ekki koma til framkvæmda hér á landi nema að mjög takmörkuðu leyti. Ekki verður séð að frumvarpið, verði það að lögum, muni leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.