Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 381  —  232. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36 8. september 1931.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjalta Zóphóníasson, Benedikt Bogason og Sólmund Má Jónsson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Þá hefur nefndinni bor­ist umsögn um málið frá biskupsstofu.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðum um embættiskostnað presta verði breytt á þann veg að kirkjuþing setji reglur og ákveði rekstrarkostnað prestsembætta, en verkefni þetta hefur hingað til verið í höndum kirkjumálaráðherra. Breyting þessi er afleiðing af samningi um fjár­hagsleg samskipti ríkis og kirkju frá 10. janúar 1997, en samið var um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir, að frátöldum prestssetrum, og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti greiði ríkissjóður laun biskups Íslands, vígslubiskupa og 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar. Var samkomulagið lögfest með 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti kirkj­unnar, nr. 78 26. maí 1997. Þar sem um rammasamkomulag var að ræða er talið nauðsynlegt að kveða nánar á um launagjöld, embættiskostnað vegna prestsembætta, rekstrargjöld bisk­upsstofu o.fl. svo að unnt sé að ákveða fjárframlög á fjárlögum eins og lagt er til í frumvarpi þessu.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Hjálmar Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og Kristín Halldórsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Byggist fyrirvarinn á því að mjög er óljóst hvað átt er við með rekstrarkostnaði í frumvarpinu, en samkvæmt því á að miða rekstrarkostnað við reglur sem kirkjuþing setur. Í fylgiskjali með frumvarpinu um samning ríkisins og þjóðkirkjunnar koma einnig fram ýmsir kostnaðarliðir sem virðast vera umfram það samkomulag sem gert var milli ríkis og kirkju.

Alþingi, 25. nóv. 1998.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Árni R. Árnason.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Siv Friðleifsdóttir.


Kristín Halldórsdóttir,


með fyrirvara.



Kristján Pálsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.