Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 424  —  228. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, og l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Áslaugu Guð­jónsdóttur, Eggert J. Hilmarsson og Tómas N. Möller. Umsagnir um málið bárust frá Banda­lagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi löggiltra endurskoðenda, ríkisskattstjóra, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á 122. þingi og taka eiga gildi 1. janúar nk. voru rýmkaðar heimildir einstaklinga til skattfrá­dráttar vegna lífeyrisiðgjalda. Launamönnum og þeim sem vinna við sjálfstæða starfsemi verður frá þeim tíma heimilt að lækka skattskyldar tekjur sínar um allt að 2% verji þeir fjár­hæðinni til lífeyrissparnaðar samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisrétt­inda og starfsemi lífeyrissjóða. Þau skilyrði eru sett að iðgjöldin séu greidd reglulega til við­urkenndra aðila og að þeim sé varið til þess að auka lífeyrisréttindi. Þessi viðbótarlífeyris­sparnaður er valkvæður og verða launþegar að hafa frumkvæði að honum og óska eftir samn­ingi þar um.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að launagreiðendum verði skylt að leggja fram 10% mót­framlag við viðbótarlífeyrissparnað þeirra starfsmanna sinna sem gera samning um aukinn lífeyrissparnað, sbr. framangreinda breytingu sem gerð var á síðasta þingi, þó ekki hærri fjár­hæð en 0,2% af iðgjaldsstofni. Á móti geti launagreiðendur lækkað tryggingagjaldið um sömu fjárhæð. Sama regla gildir um sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Þeir geta, kjósi þeir að auka lífeyrissparnað sinn, lækkað greiðslu tryggingagjalds vegna sinna launa.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Gunnlaugur M. Sigmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk álitinu.

Alþingi, 3. des. 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Svavar Gestsson,


með fyrirvara.

Einar Oddur Kristjánsson.



Steingrímur J. Sigfússon.


Valgerður Sverrisdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.


Ágúst Einarsson.