Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 441  —  122. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á siglingalögum, nr. 34 19. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur skrif­stofustjóra og Helga Jóhannesson lögfræðing frá samgönguráðuneyti. Þá komu Guðmundur Sigurðsson lögfræðingur, Ólafur J. Briem frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Jónas Haraldsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnafélagi Íslands, Norræna flutningamannasambandinu, Sambandi íslenskra trygg­ingafélaga, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Almannavörnum ríkisins, Sjómannasam­bandi íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Landhelgisgæslu Íslands, Neytenda­samtökunum, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Landssambandi smábátaeigenda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á VIII. kafla siglingalaga, nr. 34/1985, um björg­un. Í megindráttum felur frumvarpið í sér að björgunarreglur siglingalaga eru aðlagaðar björgunarsamningi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) frá 28. apríl 1989.
    Töluverðar umræður urðu í nefndinni um hugtakið björgun eins og það er skilgreint í a-lið 1. gr. frumvarpsins. Hugtakið björgun er skilgreint mun rýmra en í gildandi siglingalögum og með lögfestingu þess munu björgunarreglur siglingalaga t.d. ná til aðstoðar sem veitt er á stöðuvötnum og við björgun úr höfnum. Nefndin telur ekki ráðlegt að þrengja hugtakið frá því sem gert er í frumvarpinu, einkum þar sem þau ekki verða séð fyrir þau atvik sem geta gerst í framtíðinni og er þá umhverfistjón sérstaklega haft í huga. Þá bendir nefndin á að við björgun lausafjár úr höfnum og á vatnasvæðum er eðlilegt að hafa hliðsjón af reglum um óbeðinn erindisrekstur þegar björgunarlaun eru ákveðin.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum orðalagsbreytingum sem getið er á sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Árni Stefánsson, Stefán Guðmundsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. des. 1998.




Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Egill Jónsson.


Ragnar Arnalds.



Magnús Stefánsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kristján Pálsson.