Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 490  —  109. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



Valdníðsla meiri hlutans.
    Við afgreiðslu málsins milli 2. og 3. umræðu gerðust þau fáheyrðu tíðindi að meiri hluti ríkisstjórnarinnar í nefndinni hafnaði algjörlega óskum fulltrúa fimm stofnana og félagasam­taka um að fá að koma á fund nefndarinnar til að segja álit sitt á grundvallarbreytingum á frumvarpinu sem meiri hlutinn hafði boðað við 2. umræðu. Þær breytingar sem hér um ræðir fela í sér gjörbreytta meðferð á erfðaupplýsingum sem samkvæmt tillögum meiri hlutans verður hægt að samkeyra hvenær sem er við gagnagrunn á heilbrigðissviði án sérstakrar heimildar tölvunefndar.
    Samtökin, sem meiri hlutinn meinaði að koma á fund nefndarinnar, voru: Mannvernd, Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, siðaráð Læknafélags Íslands og læknadeild Háskóla Íslands. Tillaga minni hlutans um að fulltrúum framangreindra yrði leyft að mæta á fund nefndarinnar var felld í formlegri atkvæðagreiðslu í nefndinni.
    Í sömu atkvæðagreiðslu hafnaði meiri hlutinn tillögu minni hlutans um að fá á fund nefnd­arinnar fulltrúa vísindasiðanefndar, sérfræðing í erfðalækningum krabbameina, auk fulltrúa Ríkisendurskoðunar, til að ræða kostnaðarhlið við gerð gagnagrunns.
    Þá hafnaði meiri hlutinn einnig, eftir að hafa hlýtt á andmæli tölvunefndar gegn fyrirhug­aðri breytingu á meðferð erfðaupplýsinga, að fengið yrði skriflegt álit tölvunefndar á við­komandi breytingartillögu sinni.
    Jafnframt hafnaði meiri hlutinn að fulltrúar Samkeppnisstofnunar yrðu fengnir til að ræða breytingar á ákvæðum um aðgengi vísindamanna að gagnagrunni á heilbrigðissviði.
    Enn fremur féllst meiri hlutinn ekki á að aðrar tillögur en hans eigin yrðu ræddar á fundi nefndarinnar sem felur í sér að stjórnarliðið er ekki til viðtals um samþykkt neinna þeirra breytingartillagna sem 1. minni hluti hafði lagt fram og kallað aftur til 3. umræðu.

Afstaða tölvunefndar.
    Tölvunefnd var eini aðilinn sem meiri hlutinn treysti sér ekki til að meina minni hlutanum að fá til fundar um breytingarnar, enda óhjákvæmilegt að heyra afstöðu hennar þar sem breytingartillaga meiri hlutans felur í sér sérstakt hlutverk tölvunefndar gagnvart meðferð erfðaupplýsinga.
    Viðbrögð tölvunefndar á fundinum við umræddri breytingu meiri hlutans voru skýlaus. Hún tjáði nefndinni það skorinort að tölvunefnd yrði að fá fyrirmæli í lögum um vinnuferli eins og það sem lagt er til í breytingartillögum nefndarinnar þar sem án skýrrar lagaskipunar treysti nefndin sér ekki til að taka að sér það hlutverk sem tillagan ætlar henni. Þegar spurt var út í rökin sem lægju að baki því viðhorfi var svarið eftirfarandi: „Vegna þess að frá sjónarhóli persónuverndar felur það svo mikla ógn í sér.“


Utanaðkomandi þrýstingur.

    Eftir að hafa lokið þessum morgunverkum samþykkti meiri hlutinn síðan að fá til fundar við nefndina tvo einstaklinga. Annar þeirra er starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar og hinn einn höfunda álits Lagastofnunar sem Íslensk erfðagreining pantaði og borgaði.
    Athygli vekur að í fjölmiðlum varði varaformaður nefndarinnar og talsmaður meiri hlutans ákvörðun hans um að boða fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar til fundar við nefndina efnislega svo að ekki væri athugavert að „fulltrúa starfsleyfishafa“ væri boðið að segja álit sitt á breytingunum. Af því tilefni verður að rifja upp að engum hefur enn verið veitt starfsleyfi samkvæmt frumvarpinu sem hefur ekki einu sinni verið samþykkt á Alþingi.
    Fyrir utan þá vanvirðu sem ummæli af þessu tagi eru gagnvart Alþingi er vert að rifja upp að í áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands er lögð áhersla á að áður en starfsleyfi er veitt verði þeim aðilum sem kynnu að hafa áhuga á gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði kynnt áform um gerð hans til að skapa jafnræði með áhugasömum fyrirtækjum, enda væri annað brot á al­mennum reglur stjórnsýslunnar og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einn höfunda álitsins, prófessor Davíð Þór Björgvinsson, áréttaði þessa skoðun sína á fundi nefndarinnar 7. desember.
    Þegar á fyrri fundi nefndarinnar að morgni föstudagsins 7. desember lýsti meiri hlutinn afdráttarlausri ætlan sinni að afgreiða málið þann sama dag. Þó var ljóst að samkvæmt starfsáætlun þingsins einsog hún lá þá fyrir hafði nefndin að minnsta kosti fjóra daga til að fjalla rækilega um málið. Engum dylst því að þrýstingur utan nefndarinnar varð til þess að meiri hlutinn kom til fundar milli 2. og 3. umræðu með skýr fyrirmæli um að ljúka málinu strax hvað sem það kostaði og án nauðsynlegrar umræðu.
    Rétt er að upplýsa Alþingi um að fulltrúar tölvunefndar, sem voru boðaðir til fundarins með afar skömmum fyrirvara og höfðu þá ekki fengið að skoða breytingartillögur meiri hlutans, greindu frá að formaður tölvunefndar væri erlendis en kæmi til landsins á sunnu­dagskvöld og fundur væri boðaður í tölvunefnd á mánudag. Tölvunefnd gæti því skilað skriflegu áliti á mánudag, eða tveimur dögum áður en 3. umræða málsins var ákveðin. Eigi að síður var tillögu um að veita tölvunefnd frest fram á mánudagskvöld til að skila skriflegu áliti og um að fá þá formann hennar á fund nefndarinnar einnig hafnað.
    Í þessu samhengi er einnig rétt að rifja upp að heilbrigðisráðherra hafnaði því að staðfesta við 2. umræðu málsins að þær breytingar sem meiri hlutinn vildi gera á meðferð erfðafræði­legra upplýsinga væru að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Á engu stigi umfjöllunar nefndar­innar komu fram óskir um breytingar í þessa veru frá fulltrúum ráðuneytisins. Þvert á móti kom ítrekað fram af þeirra hálfu að gert væri ráð fyrir að um meðferð erfðagagna, sem ekki eru hluti sjúkraskráa, skyldu gilda almennar reglur gildandi laga um persónuvernd.
    Grundvallarbreytingarnar sem meiri hlutinn leggur til á meðferð erfðaupplýsinga eru því ekki gerðar að tilhlutan heilbrigðisráðherra heldur keyrðar í gegn á lokastigum málsins vegna óhóflegs þrýstings aðila sem ekki tengjast Alþingi.

Blekkingar.
    Í upphaflega frumvarpinu var skýlaust tekið fram að einungis upplýsingar úr sjúkraskrám skyldu fara í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í greinargerðinni eru sömuleiðis tekin af tvímæli um að samkeyrslur við önnur gögn þurfi að lúta gildandi lögum um vernd persónulegra upp­lýsinga og þar með að vera háð sérstöku leyfi tölvunefndar í sérhvert sinn sem hinn fyrir­hugaði gagnagrunnur á heilsufarssviði yrði samkeyrður við aðra grunna, svo sem erfðafræði­grunna rekstrarleyfishafa eða annarra. Í tillögum meiri hlutans felst hins vegar sú grund­vallarbreyting að samkeyrsla erfðagagnagrunns rekstrarleyfishafa við fyrirhugaðan gagna­grunn á heilbrigðissviði verður heimil án þess að sérstakt leyfi tölvunefndar verði veitt í sér­hvert skipti eins og upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir. Í þessu felst því eðlisbreyting á frumvarpinu. Gildir þá einu hvort horft er til persónuverndar eða áhættunnar sem felst í þátttöku sjúklinga í gagnagrunni á heilbrigðissviði.
    Þessi viðhorf minni hlutans voru staðfest á fundum stjórnarandstöðunnar með sérfræðing­um á sviði læknisfræði og erfðafræði, þar á meðal þeirra samtaka og stofnana sem meiri hlut­inn meinaði um fund með heilbrigðis- og trygginganefnd.
    Af hálfu meiri hlutans komu einungis fram þau rök að yrði farið að almennum ákvæðum gildandi laga um samkeyrslur gagna eins og heilsufarsupplýsinga í miðlægum gagnagrunni á heilsufarssviði og erfðauppýsinga, þar sem sérstakt leyfi tölvunefndar þarf fyrir hverri samkeyrslu, yrði það of tafsamt fyrir rekstrarleyfishafann. Hagsmunum einstaklingsins í formi persónuverndar er því varpað fyrir róða vegna fjárhagslegra hagsmuna eins fyrirtækis.
    Öll umræða um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði hefur síðustu mánuði farið fram á grundvelli upphaflegrar gerðar frumvarpsins og þar með verið gert ráð fyrir að erfðafræði­upplýsingar, sem ekki eru í sjúkraskrám, væru ekki hluti grunnsins. Því er ljóst að með tillögu sinni um gjörbreytta meðferð erfðaupplýsinga er ríkisstjórnin uppvís að því að hafa blekkt bæði þingið og vísindasamfélagið. Engum dylst að hefði þessi ætlan stjórnarliðsins verið ljós fyrir fram hefðu viðbrögð við grunninum heima og erlendis orðið enn harkalegri en þau eru í dag.
    Þessi meginbreyting hefði því átt að leiða til þess að afgreiðslu málsins yrði frestað svo að vísindamenn, læknar og þjóðin öll hefðu fengið tóm til að meta frumvarpið í nýrri mynd. Í raun hefði því verið eðlilegt, eins og vísindamenn hafa bent á síðustu daga, að frumvarpið yrði sent aftur til umsagnar öllum þeim sem sendu nefndinni umsagnir um frumvarpið eins og það var lagt fyrir í þingbyrjun. Minni hlutinn setti þó aðeins fram þá hógværu ósk að auk þeirra fimm stofnana og samtaka sem óskuðu eftir að fá að koma á fund nefndarinnar yrðu þrír aðilar kvaddir til samráðs við hana, það er tölvunefnd, vísindasiðanefnd og Reynir Arn­grímsson, sérfræðingur í erfðafræði krabbameina. Eins og áður er rakið var þessu alfarið hafnað.
    Í þessu ljósi er því efalaust að ríkisstjórnin hefur leitt þing og þjóð á villigötur í umræð­unni. Það frumvarp sem meiri hlutinn leggur til að verði samþykkt við 3. umræðu felur í sér grundvallarbreytingar sem ekki komu fram fyrr en á lokastigum málsins í meðferð Alþingis. Þjóðin, þingið og vísindasamfélagið hefur því verið blekkt til að ræða málið á allt öðrum for­sendum og í allt öðrum búningi en birtist við lokaafgreiðslu málsins.

Ábyrgð stjórnarliðsins.
    Í allri sögu Alþingis finnast vart dæmi þess að eitt einstakt fyrirtæki, sem hagsmuna á að gæta gagnvart lagasetningu, hafi með svo grófum hætti getað hlutast til um veigamiklar breytingar á frumvarpinu sem er komið til lokaafgreiðslu í þinginu. Með háttsemi af þessu tagi er Alþingi vanvirt og á því ber ríkisstjórnin alla ábyrgð.
    Hér er jafnframt um freklegt brot á viðteknum vinnuhefðum Alþingis að ræða. Meiri hlutinn hafnaði því með atkvæðagreiðslu að grundvallarbreytingar sem fólust í tillögum hans yrðu rannsakaðar faglega eins og er þingleg ábyrgð nefnda þingsins.
    Meiri hlutinn hafnaði sömuleiðis að aðrar breytingar á frumvarpinu yrðu ræddar, en eins og kunnugt er voru breytingartillögur frá stjórnarandstöðunni kallaðar til 3. umræðu. Þar með er ljóst að stjórnarliðið er ekki til viðtals um breytingar sem fela m.a. í sér bann við mis­notkun upplýsinga sem verða unnar í krafti gagnagrunns á heilbrigðissviði á t.d. vinnumark­aði eða tryggingamarkaði.
    Í ljósi þess að breytingum á frumvarpinu er stjórnað utan þingsins og með hliðsjón af þeim gerræðislegu vinnubrögðum sem hér er lýst og fela í sér að Alþingi er svipt hinum lýðræðislega rétti til að vinna málið faglega er ljóst að meiri hlutinn hefur eyðilagt alla möguleika á lágmarkssamstöðu um málið. Minni hlutinn telur því einboðið að frumvarp til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði verði alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hann mun því ekki flytja neinar breytingartillögur og greiða atkvæði gegn málinu við 3. umræðu.
    Ögmundur Jónasson hefur setið fundir nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og tekur fram að hann hefur frá upphafi verið andvígur máli þessu og stóð að flutningi frávísunartillögu ásamt öðrum þingmönnum óháðra. Hann er samþykkur nefndarálitinu.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat einnig fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk álitinu.

Alþingi, 15. des. 1998.



Össur Skarphéðinsson,


form.


Bryndís Hlöðversdóttir,


frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.