Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 520  —  106. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, sbr. lög nr. 22/1995.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Lillý Baldursdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ástu S. Helgadóttur og Gunnar M. Sandholt frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur og Einar I. Magnússon og Mörtu Bergmann frá Félagsmálastofnun Hafnar­fjarðar. Þá kom Bragi Guðbrandsson frá Barnaverndarstofu á fund nefndarinnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vernd barna og ungmenna vegna nýrra lögræðislaga, nr. 71/1997, þar sem sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Núgild­andi lög gera nokkurn greinarmun á ákvæðum sem gilda um börn annars vegar og ungmenni hins vegar, m.a. með tilliti til þess að foreldrar fóru í tíð eldri lögræðislaga einungis með forsjá barna til 16 ára aldurs. Þykir nauðsynlegt að breyta því á þann veg að með hugtakinu börn í lögunum verði átt við einstaklinga að 18 ára aldri. Er þessi málnotkun í samræmi við ákvæði barnalaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir nýju ákvæði um réttindi barna við málsmeðferð þar sem réttur þeirra til að tjá sig er aukinn í samræmi við aldur og þroska. Loks er lagt til að ákvæði núgildandi laga um skipun tals­manns verði rýmkuð.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lagt til að orðið „vaxandi“ í b-lið 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins verði fellt brott.
     2.      Í öðru lagi er lagt til að í c-lið 27. gr. komi fram hvaða málslið 4. mgr. breytingin nái til. Er það til að samræmi verði í texta frumvarpsins þar sem alls staðar annars staðar í frumvarpinu er vísað til málsliða þar sem það á við.
     3.      Þá er lagt til að 29. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að lögð verði til sams konar breyting á fyrirsögn 54. gr. laganna og öðrum fyrirsögnum þeirra.
     4.      Loks er lagt til að á eftir orðunum „eða ungmenna“ í 34. gr. komi: hvarvetna.

Alþingi, 16. des. 1998.



Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Kristján Pálsson.


Magnús Stefánsson.


Guðný Guðbjörnsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.