Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 524  —  186. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breyting­um.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands. Málið var ekki sent til umsagnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 9.gr. laganna verði breytt þannig að skylda til að til­kynna um breytt aðsetur samkvæmt lögunum hvíli á 18 ára einstaklingum og eldri, en nú er slík skylda miðuð við 16 ára aldur. Þá er lagt til að sú skylda verði lögð á forráðamenn yngri einstaklinga en 18 ára að þeir tilkynni um breytt aðsetur þeirra, en miðað er við forráðamenn einstaklinga yngri en 16 ára nú.
    Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi ný lögræðislög, nr. 71/1997, þar sem sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Í kjölfar þess að lögin voru samþykkt skipaði dómsmálaráð­herra nefnd til að gera tillögur um hvaða lögum þyrfti að breyta vegna hækkunar sjálfræðis­aldurs. Lagði umrædd nefnd m.a. til þá breytingu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir.
    Í lögum um tilkynningar aðsetursskipta hefur verið miðað við að sjálfráða einstaklingar tilkynni um breytt aðsetur sitt og forráðamenn ósjálfráða einstaklinga um breytt aðsetur þeirra. Með nýjum lögræðislögum sem áður var getið hækkaði forsjáraldur í 18 ár. Er því eðlilegt að breyta lögunum um tilkynningar aðsetursskipta á þann veg sem lagt er til í frum­varpi þessu þannig að áfram verði við það miðað að skylda þessi hvíli á sjálfráða einstak­lingum og forráðamönnum ósjálfráða einstaklinga.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að nokkuð virðist skorta á að þær breytingar sem gera verður á lögum vegna hækkunar sjálfræðisaldurs séu gerðar á samræmdan hátt. Er því talsverð hætta á ósamræmi milli laga um þetta efni. Leggur nefndin áherslu á að nauð­synlegt er að móta heildarstefnu um þetta efni sem fyrst.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 16. des. 1998.



Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Kristján Pálsson.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Stefánsson.


Guðný Guðbjörnsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.