Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 537  —  278. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum..

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Ragnheiði Snorradóttur og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Árna Tómasson og Ólaf Nilson frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Guðjón Rúnarsson og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtök­um verðbréfafyrirtækja, Verðbréfaþingi Íslands, Verslunarráði Íslands og Vinnuveitenda­sambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagðar til tvær mikilvægar breytingar á skattlagningu, annars vegar varðandi skattlagningu jöfnunarhlutabréfa, sbr. 2., 3. og 10. gr., og hins vegar samsköttun móður- og dótturfélaga sem lagt er til að verði heimiluð innan ákveðinna marka, sbr. 6. gr. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að ávöxtun langtímasparnaðar í formi innlánsreikninga verði skattlögð í lok binditíma en ekki á því tímamarki þegar vextir eða önnur ávöxtun er færð eiganda reiknings til eignar, sbr. 1. gr., að tekið verði fram í lögunum að greiðslur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða séu skattlagðar hjá erfingjum, sbr. 4. gr., að breytt verði reglum um undanþágu happdrættisvinn­inga, sbr. a-lið 5. gr. og 9. gr., að skattafrádráttur vegna fjárfestingar manna í hlutabréfum verði framlengdur til ársloka 2002 með breyttum skilyrðum, sbr. b-lið 5. gr. og 11. gr., að breytt verði ákvæðum varðandi skattlagningu við slit félaga og lækkun hlutafjár, sbr. 7. gr. og að breytt verði ákvæðum um meðferð ónýtts persónuafsláttar að því er snertir ráðstöfun hans til greiðslu fjármagnstekjuskatts, sbr. 8. gr.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til sú viðbót við 2. mgr. b-liðar 3. gr. að uppfærsla á kaupverði hlutabréfa við útreikning á söluhagnaði verði miðuð við kaupverð eða jöfnunarverðmæti í árslok 1996. Jafnframt er lagt til að tilvísun í 1. mgr. b-liðar 3. gr. verði færð til samræmis við tilvísun 1. mgr. 6. gr.
     2.      Lagt er til að bætt verði við 4. mgr. 5. gr. hliðstæðu ákvæði og nú er í lögum um tekjuskatt og eignarskatt um að ef hlutabréf sem skattaafsláttur hefur verið veittur vegna eru seld verði að kaupa ný bréf í stað þeirra á sama ári og ekki síðar en 30 dögum eftir að sala fer fram til að komast hjá tekjufærslu frádráttarins. Þá er lögð til viðbót við 8. mgr. 5. gr. um að regla þeirrar málsgreinar eigi ekki við um aukningu á fjárfestingu í atvinnu­rekstri sem heimilt var að flytja á milli ára á árunum 1996 og fyrr. Jafnframt er lögð til leiðrétting á númeri laga og tilvísun í 4. mgr. Regla 3. málsl. skal eiga við um mismun­inn skv. 5. málsl. 4. mgr.
     3.      Lagt er til að tvær nýjar greinar komi á eftir 5. gr. Fyrri greinin er um breytingar á 56. gr. A laganna um að skipting með yfirfærslu skattalegra réttinda verði heimil þó svo að hið fyrra félag haldi áfram með sama nafni. Síðari greinin er um breytingar á 57. gr. A um að heimilað verði að miða uppgjör við þann tíma þegar skiptin eiga sér stað sam­kvæmt samþykktum félaganna.
     4.      Lögð er til lagfæring á orðalagi 1. efnismgr. 6. gr. Jafnframt er lagt til að lágmarkstími í samsköttun verði fimm ár og að hana megi hefja að nýju fimm árum eftir að henni var hætt.
     5.      Lagt er til að fellt verði brott úr frumvarpinu ákvæði um að við slit á félagi verði úthlutun umfram 3. m.kr. skattlögð samkvæmt fullu skatthlutfalli.
     6.      Þá er lagt til að 2. málsl. 12. gr. falli brott en ekki þykir ástæða til þess að fresta gildistöku 8. gr. frumvarpsins.
    Gunnlaugur M. Sigmundsson skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur annars vegar að andstöðu hans við skattfrelsi happdrættisvinninga og hins vegar þeirri mis­munun sem gerð er milli hlutafélaga varðandi skattaafslátt vegna fjárfestingar almennings í atvinnurekstri.

Alþingi, 16. des. 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Valgerður Sverrisdóttir.



Sólveig Pétursdóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnlaugur M. Sigmundsson,


með fyrirvara.

Ágúst Einarsson,


með fyrirvara.

Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.

Svavar Gestsson,


með fyrirvara.