Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 557  —  279. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar á l. nr. 39/1988, um bifreiðagjald, l. nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og l. nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breyt­ingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Áslaugu Guðjónsdóttur, Tómas Möller, Pál Kolbeins og Eggert J. Hilmarsson frá fjármálaráðuneyti. Frá Skráningarstofunni komu Sigurður Pétursson og Högni Eyjólfsson, frá Íslandspósti hf. kom Eysteinn Gunnarsson, frá samtökum ferðaþjónustunnar komu Erna Hauksdóttir, Garðar K. Vilhjálmsson og Pálmar Sigurðsson, Jónas Þór Steinarsson kom frá Bílgreinasambandinu, Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Ingimar Kjartansson, Elvar Ólafsson og Árni Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Guðmundur Stefánsson frá Bændasamtökum Íslands, Guðbrandur Bragason og Snorri Bjarnason frá Ökukennarafélagi Íslands, Unnur Sverrisdóttir og Jón Pálsson frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Ómar Jóhannsson frá Trausta, félagi sendibílstjóra, Arngrímur Hermannsson frá Addís, Pétur Jóhannsson frá G.P. Krönum ehf., Sigfús Bjarnason frá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Guðmundur Arnaldsson frá Landvara, Jón Birgir Jónsson frá samgönguráðuneyti, Friðrik Pálmason sem rekur steypustöð á Sauðárkróki og Steinar Jónsson sem rekur steypustöð á Blönduósi.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá sveitarstjóra Búðahrepps, Húsavíkurkaupstað, Strætisvögnum Reykjavíkur hf., Bændasamtökum Íslands, Snæfellsbæ, Þórshafnarhreppi, Vegagerðinni, Trausta, félagi sendibílstjóra, Bílgreinasambandinu, Frama, Samtökum ferða­þjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, G.P. Krönum ehf., Landssambandi vörubifreiðastjóra, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Verslunarráði Íslands, Landsvirkjun, Ökukennarafélagi Íslands, ríkisskattstjóra, Landvara og Steypustöð Skagafjarðar ehf.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um bifreiðagjald, fjár­öflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum. Lagt er til að sett verði að nýju hámark á fjárhæð bifreiðagjalds og jafnframt að gerðar verði breytingar á gjaldskránni. Lagt er til að gjaldskrá þungaskatts verði hækkuð til samræmis við vegáætlun. Þá er lagt til að breytt verði ákvæðum um ákvörðun hlutfallstalna vörugjalds á ökutækjum þannig að þær verði ákveðnar í lögunum í stað reglugerðar eins og nú. Um nánari efnisatriði frumvarpsins er vísað til athugasemda við það.
    Meiri hlutinn er samhuga um að taka þurfi lög um fjáröflun til vegagerðar til endurskoð­unar. Vill hann því beina þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hann hlutist til um slíka endurskoðun fyrir 1. október 1999 þannig að taka megi upp nýtt kerfi árið 2000. Nefndin skuli meðal annars hafa að markmiði einföldun þungaskattskerfisins og að álagning þunga­skatts taki mið af nýtingu ökutækja, akstri og sliti á vegum. Æskilegt er að nefndin hafi í störfum sínum samráð við helstu samtök hagsmunaaðila á þessu sviði.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði hámark á fjárhæð bifreiðagjalds og telur nefndin rétt að greiðendum bifreiðagjalds á 2. gjaldtímabili 1998 verði endurgreiddur mismunur þess og þeirrar greiðslu sem þeir inntu af hendi. Lagt er til að bráðabirgða­ákvæði þess efnis verði bætt við lögin um bifreiðagjald, sbr. 1. tölul. breytingartillagna.
     2.      Þá er lagt til að í upphafi II. kafla verði bætt við nýrri grein sem kveði á um að námubifreiðar sem eingöngu eru notaðar utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum verði undan­þegnar greiðslu þungaskatts, enda meginmarkmið þungaskattsins að notendur vegakerf­isins greiði fyrir notkun sína.
     3.      Lagt er til að fellt verði niður fast árgjald að fjárhæð 100.000 kr. af tengi- og festivögnum en í stað þess verði kílómetragjald þessara ökutækja hækkað, sbr. a- og d-liði 3. tölul. breytingartillagna. Jafnframt er lagt til að fast árgjald verði ekki innheimt af slökkvibifreiðum sem falla undir vörulið 8705.3009, sbr. b-lið 3. tölul. tillagnanna. Þá er lagt til að eigendum eða umráðamönnum ökutækja verði heimilað í upphafi gjaldárs að velja á milli þess að greiða gjald fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt mæli eða fast gjald sem samsvari 95.000 km akstri á gjaldárinu, sbr. d-lið 3. tölul. breytingartillagna. Ákvörðun þessari verður ekki breytt eftir að gjaldár er hafið. Einnig leggur nefndin til að ákvæði um endurgreiðslur til sérleyfishafa verði felld brott úr lögunum um fjáröflun til vegagerðar, sbr. e-lið 3. tölul. breytingartillagna. Samhliða þeirri breytingu verða framlög Vegagerðar til viðfangsefnisins 10-211 1.11 Styrkur til sérleyfishafa í frum­varpi til fjárlaga hækkuð. Nefndin mælist til þess að Vegagerðin hafi fyrst um sinn við úthlutun þess fjár hliðsjón af áður gildandi ákvæðum 3. gr. reglugerðar nr. 593/1987, um þungaskatt, en þar er kveðið á um að styrkurinn skuli miðast við bifreiðar sem eru 15,0–15,9 tonn að leyfðri heildarþyngd og nýttar í sérleyfisferðum.
     4.      Þá er lögð til leiðrétting á tilvísun í 1. efnismgr. 4. gr. og orðalagsbreyting til skýringar á lokamálslið þeirrar greinar.
     5.      Lagt er til í nýju ákvæði til bráðabirgða að eigendum og umráðamönnum ökutækja verði heimilt að greiða fast gjald sem samsvari samtals 63.333 km akstri á öðru og þriðja gjaldtímabili á því gjaldári sem þegar er hafið í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt mæli. Eðli málsins samkvæmt getur val samkvæmt d-lið 3. tölul. breytingar­tillagna ekki farið fram við gildistöku laga þessara fyrir það gjaldár sem þegar er hafið og nefndin telur eðlilegt að umræddir aðilar njóti þessa vals þá á síðari tveimur tíma­bilum gjaldársins. Einnig er leiðrétt tilvísun í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins með hliðsjón af b-lið 3. tölul. breytingartillagnanna.
     6.      Lagt er til að sérsmíðaðar keppnisbifreiðar verði undanþegnar vörugjaldi. Hér er eingöngu átt við bifreiðar sem eru sérsmíðaðar frá grunni sem keppnisbifreiðar en ekki venjulegar fólksbifreiðar sem hefur verið breytt. Einnig er lagt til að vélsleðar í eigu fyrirtækja í ferðaþjónustu og eingöngu eru ætlaðir til útleigu til ferðamanna eða til flutnings á þeim skuli bera 30% vörugjald í stað 70%. Þá er lögð til frekari lækkun frá því sem í frumvarpinu greinir á vörugjaldi af leigubifreiðum til fólksflutninga frá 1. janúar 2000, sbr. c-lið 6. og 7. tölul. breytingartillagna.
     7.      Lögð er til breyting á gildistöku laganna þannig að ákvæði 3. gr. taki ekki gildi fyrr en í upphafi 2. gjaldtímabils þess gjaldárs sem nú er hafið.

Alþingi, 18. des. 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Valgerður Sverrisdóttir.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.

Sólveig Pétursdóttir.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.