Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 558  —  279. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 39/1988, um bifreiðagjald, l. nr. 3/1987, um fjáröflun til vega­gerðar, og l. nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Stjórnarfrumvarpið fjallar um breytingu á lögum um bifreiðagjald, fjáröflun til vegagerðar og vörugjald af ökutækjum. Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um lagfæringar á þungaskatts­kerfinu. Það kerfi hefur verið í gjörgæslu Alþingis í mörg ár, mikil óánægja er með kerfið meðal starfandi manna og sífellt er verið að gera breytingar á lögunum.
    Minni hlutinn telur að hér þurfi kerfisbreytingu og styður að í stað þessa kerfis verði tekið upp olíugjald. Frumvarp um slíkt var lagt fram á síðasta þingi en ríkisstjórnin heyktist á lög­festingu þess og hélt áfram að plástra þungaskattskerfið með lagabreytingu. Sú löggjöf tókst ekki betur en svo að fyrirliggjandi frumvarp fjallar enn um breytingar á þessum lögum. Minni hlutinn hafnar þessum vinnubrögðum og vill að olíugjald komi í stað eldra kerfis. Mikil vinna var lögð í málið á síðasta ári og stjórnarandstaðan studdi útfærslu starfandi manna í atvinnu­greininni.
    Rökin fyrir olíugjaldi eru í fyrsta lagi að fyrra kerfið þótti óskilvirkt.
    Í öðru lagi ræðst gjaldið í þungaskattskerfinu fyrst og fremst af því hversu mikið er ekið. Í olíugjaldskerfi ræðst gjaldið af því hversu mikilli olíu er eytt. Það hefur vitaskuld í för með sér að menn leitast við að nota sparneytin ökutæki og haga akstri sínum á hagkvæman hátt. Olíugjald er þannig mikilvægur liður í umhverfisgjaldtöku og upptaka þess hér á landi væri fyrsta skrefið í þá átt.
    Í þriðja lagi hefur olíugjald þann kost að dísilbifreiðar verða algengari en nú er. Íslend­ingar eru nokkuð á eftir nágrannalöndunum hvað þann þátt varðar. Kosturinn við dísilknúnar bifreiðar er að þær eru sparneytnari og valda minni kolsýringsmengun en aðrar bifreiðar. Það fellur mjög vel að nútímalegri umhverfisstefnu.
    Í fjórða lagi felur olíugjald í sér að gjaldtakan er samhliða akstri, þ.e. menn greiða gjaldið um leið og keypt er olía í stað þess að greiða þungaskatt á nokkurra mánaða fresti með háum einstökum greiðslum eins og nú.
    Í fimmta lagi er talið að eftirlit með olíugjaldi verði einfaldara og ódýrara en í núverandi kerfi.
    Minni hlutinn leggur mikla áherslu á umhverfisþáttinn varðandi upptöku olíugjaldskerfis.
Út frá því sjónarmiði er skynsamlegt að taka upp olíugjald á afmörkuðu sviði í stað þunga­skatts.
    Olíugjald er liður í mengunarsköttum framtíðarinnar sem mun hafa þau áhrif að dregið verður úr óhagkvæmri notkun eldsneytis og kolsýringsmengun verður minni. Einnig þarf að hafa í huga að bílar knúnir nýjum orkugjöfum munu sjá dagsins ljós á næstu árum, t.d. raf­magns- og gasbílar. Aukin áhersla á mengunarvænni orkugjafa mun móta stefnu stjórnvalda næstu ár, m.a. á sviði ríkisfjármála, með umhverfis- og mengunarsköttum.
    Minni hlutinn telur besta kostinn að taka upp einfalt olíugjaldskerfi og leggja alveg af mælagjald þungaskatts. Slík skattlagning á eldsneytisnotkun, eins og olíugjaldið er, væri tví­mælalaust jákvæð með tilliti til umhverfismála. Slíkt ætti að verka hvetjandi til orkusparnaðar og þar með auðvelda Íslendingum að standa við alþjóðlegar skuldbindingar á því sviði.
    Það kom fram í umsögnum í fyrra að langflestir vildu olíugjald í stað eldra kerfis. Í um­fjöllun um stjórnarfrumvarpið núna kom m.a. fram hjá samtökum bílstjóra að betra væri að fara í olíugjaldskerfið.
    Mikilvægt er að tryggja samkeppnisstöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga í vöruflutning­um. Þróunin undanfarin ár hefur verið í þá átt að stóru flutningsaðilarnir, svo sem skipafélög­in, hafa haslað sér æ stærri völl í landflutningum. Þetta er varhugaverð þróun og stuðlar að enn meiri fákeppni og þrengir að smærri atvinnurekendum á þessu sviði.
    Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á ríkisstjórnina og meiri hluta hennar og situr hjá við af­greiðslu málsins. Minni hlutinn vill að aftur verði tekin upp vinna við undirbúning að upp­töku olíugjalds. Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sam­þykk þessu áliti.

Alþingi, 17. des. 1998.



Ágúst Einarsson,


frsm.


Svavar Gestsson.


Steingrímur J. Sigfússon.