Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 608  —  365. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Stjórnarandstaðan er eindregið hlynnt því að þær ívilnanir til bótaþega almannatrygginga­kerfisins sem felast í frumvarpinu komi til framkvæmda hið fyrsta. Vinnubrögð ríkisstjórn­arinnar við framlagningu frumvarpsins eru hins vegar stórlega ámælisverð. Hér er um að ræða frumvarp sem varðar grundvallaratriði er þurfa bæði ítarlega skoðun nefndarinnar og mikla umræðu. Þótt heilbrigðisráðherra telji nauðsynlegt að frumvarpið sé afgreitt fyrir árs­lok 1998 kom það ekki fram í þinginu fyrr en degi áður en þingi lýkur. Það er tekið til um­ræðu á lokadegi þingsins fyrir jól þannig að tóm til umræðu og hefðbundinnar skoðunar er nánast ekkert. Fyrir vikið gefst ekki tóm til að senda málið til umsagnar, og þó liggur fyrir að um það er ekki eining í þeim hópum sem frumvarpið varðar. Sömuleiðis er ámælisvert í ljósi þess hve seint málið kemur fram að ekki hefur verið haft eðlilegt samráð við hagsmuna­samtök.
    Í frumvarpinu er í fyrsta sinn lagt til að fest verði í lög umdeild skerðingarákvæði þar sem tekjur maka lífeyrisþega skerða tekjutryggingu bótaþega. Fyrir liggur að hér kann að vera um brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Fyrir því liggja eftirfarandi rök:
     1.      Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra at­vika.“
     2.      Í 65. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litar­háttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
    Í þessum greinum er skýlaust lýst yfir að allir skuli jafnir fyrir lögum og allir skuli njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar. Undir orðalag 65. gr., þar sem rætt er um „stöðu að öðru leyti“, fellur ljóslega hjúskaparstaða. Þegnum ríkisins verður því ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu.
    Í ljósi þessa getur stjórnarandstaðan ekki greitt atkvæði með málinu. Hún hefur jafnframt bent á leiðir sem gætu tryggt að ívilnun gagnvart bótaþegum hefði náð fram að ganga án þess að lögfest yrðu ákvæði sem mögulega fælu í sér mannréttindabrot. Við því vildi meiri hlutinn ekki verða. Stjórnarliðið verður því að bera ábyrgð á samþykkt framangreindra laga.
    Ögmundur Jónasson, áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra, og Guðný Guðbjörnsdóttir, áheyrnarfulltrúi Kvennalista, tóku þátt í afgreiðslu málsins og eru samþykk álitinu.

Alþingi, 19. des. 1998.



Össur Skarphéðinsson,


form., frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.