Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 816  —  504. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1998.

I. Almennt.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar jukust þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989 og mikilvægi nefndarinnar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994. Fulltrúar úr nefndinni skipa EFTA-hluta hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES. EFTA samanstendur nú af Íslandi, Liechtenstein, Nor­egi og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA. Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan EES varð þingmannanefnd EFTA með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, nú með fjórum fyrrgreindum aðildarríkjum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES. Nefndirnar funda hins vegar ávallt saman og sitja því Svisslendingar sem áheyrnarfull­trúar þegar verið er að taka fyrir málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar EES. Til einföldunar verður í frásögn­um hér á eftir talað um fundi þingmannanefndar EFTA þegar við á þótt í raun hafi þá báðar nefndirnar, þ.e. eldri EFTA-nefndin og EES-hluti þingmannanefndar EFTA, setið saman á fundi.
    Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, en fundar jafnframt tvisvar á ári með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar um starfsemi EFTA, gerð fríverslunar­samninga, málefni EES og ESB og efnahags- og viðskiptamál almennt. Alþingi á fimm full­trúa í þingmannanefnd EFTA eins og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA hefur einnig samstarf við ríki sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við, svo sem ríki á Miðjarðarhafssvæðinu og í Mið- og Austur-Evrópu. Þessi þáttur í starfi EFTA fer vaxandi og eru fríverslunarsamningar við fleiri lönd og svæði í bígerð.
    Á milli funda hittist framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar en hún undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi, en einungis einn fulltrúi frá hverju ríki hefur atkvæðisrétt á fundum. Í Íslandsdeildinni hefur, auk formanns, einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmda­stjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EFTA vann ötullega að því í samvinnu við Evrópuþingið að í samningn­um um EES væri gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Sam­eiginlega þingmannanefnd EES samanstendur nú af 24 þingmönnum, tólf frá Evrópuþinginu og öðrum tólf frá EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Hin sameiginlega þingmannanefnd EES á að fylgjast með fram­kvæmd og þróun EES-samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin fundar tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda. Í framkvæmdastjórninni sitja sex full­trúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni milli ára. Þegar í upphafi hafði sameiginlega þingmannanefnd EES frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún vill skoða sérstaklega og eru þær skýrslur svo ræddar á fundum nefndarinnar. Fyrir hverja skýrslugerð eru tilnefndir tveir framsögumenn (rapport­eurs), einn úr hópi EFTA-þingmanna og einn úr hópi Evrópuþingmanna, og leggja þeir jafn­framt fram drög að ályktunum. Þær eru bornar undir atkvæði sem og einstakar málsgreinar eða breytingartillögur við þær, að því gefnu að a.m.k. fjórðungur hvorra tveggja þingmanna Evrópuþingsins og fulltrúa EFTA-ríkjanna séu viðstaddir. Einstakar málsgreinar eða breyt­ingartillögur eru samþykktar með einföldum meiri hluta en atkvæði tveggja þriðju hluta við­staddra þarf síðan til að samþykkja ályktunina í heild sinni. Ályktanir sem samþykktar eru á grundvelli þessara skýrslna eru síðan sendar til ráðherraráðs EES, hinnar sameiginlegu EES-nefndar, þinga EFTA-EES-ríkja og Evrópuþingsins. Bæði ráðherraráðið og sameigin­lega EES-nefndin svara ályktunum þingmannanefndarinnar á næsta fundi hennar og síðan eftir þörfum. Þingmannanefndin heldur skrá yfir allar tillögur sem fram koma í ályktunum hennar og er sú skrá birt árlega sem fylgiskjal með skýrslu um ársskýrslu hinnar sameigin­legu EES-nefndar (embættismannanefnd). Þannig getur þingmannanefndin fylgst með því hver þróun hefur orðið í þeim málum sem hún hefur tekið fyrir og tekið aftur upp mál þar sem hún telur framþróunina ófullnægjandi. Með því að taka skipulega fyrir skýrt afmörkuð mál­efni hefur þingmannanefnd EES þannig möguleika til áhrifa á þróun EES-samningsins. EFTA-hluti þingmannanefndar EES hefur líka fjallað mikið um áhrif þjóðþinga EFTA-ríkjanna á samninginn og lagasetningu af völdum hans.
    Á undanförnum árum hefur Íslandsdeildin fundað með Evrópunefnd (eða samsvarandi nefnd) þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB, en skipt er um forusturíki á sex mánaða fresti.

II. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í Íslandsdeildinni áttu sæti á árinu 1998 Vilhjálmur Egilsson, þingflokki sjálfstæðis­manna, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, þingflokki framsóknarmanna, varaformaður, Árni M. Mathiesen, þingflokki sjálfstæðismanna og Sighvatur Björgvinsson, þingflokki jafn­aðarmanna. Hjörleifur Guttormsson átti sæti í nefndinni fyrir hönd þingflokks Alþýðubanda­lags þar til í október er hann varð fulltrúi þingflokks óháðra. Hjörleifur sat sem varamaður í þingmannanefnd EES, en þar á Ísland einungis fjögur sæti. Þá var Kristín Ástgeirsdóttir, þingflokki Kvennalistans og síðan utan þingflokka, áheyrnarfulltrúi í nefndinni þar til í októ­ber er hún gekk í þingflokk óháðra, en þá varð Svavar Gestsson, þingflokki Alþýðubanda­lags, áheyrnaraðili. Gústaf Adolf Skúlason var ritari Íslandsdeildarinnar til september er Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs, tók við.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru Vil­hjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson. Fulltrúi Íslandsdeildarinnar í framkvæmda­stjórn þingmannanefndar EES var Vilhjálmur Egilsson.

III. Starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 1998.
    Megináherslan í starfi nefndanna beggja undanfarin ár hefur jafnan verið sú að fylgjast sem best með framkvæmd EES-samningsins. Þannig leita nefndirnar upplýsinga frá ráðherra­ráði EFTA og EES og embættismönnum stofnana EFTA og Evrópusambandsins (ESB) og koma skoðunum og áherslum þingmanna á framfæri við þessa aðila. Á árinu 1998 skoðaði þingmannanefnd EFTA sérstaklega tilvik þar sem óæskilegar tafir á lögleiðingu EES-gerða í EFTA-ríkjunum höfðu átt sér stað og hvernig þær væru tilkomnar. Nefndin samþykkti ályktun um málið í framhaldi af rannsókn sinni. Þá var hlutverk þjóðþinga í ákvarðanatöku­ferli EES nokkuð til umræðu, og jafnframt þátttaka EFTA-ríkjanna í mótun ákvarðana innan ESB eftir samþykkt Amsterdamsáttmálans, en þá fær Evrópuþingið aukið vægi í lagasetn­ingu ESB. Hið aukna vægi Evrópuþingsins í lagasetningu innan ESB mun auka um leið mikilvægi þingmannanefndar EES fyrir EES-EFTA-ríkin.
    Þingmannanefndir EFTA og EES fylgdust á árinu grannt með stækkunarferli ESB, undir­búningi myntbandalagsins og framvindu mála í Schengen-samstarfinu. Þá fylgdist þing­mannanefnd EFTA með framvindu mála í viðræðum um fríverslunarsamninga við þriðju ríki, en EFTA á nú m.a. í viðræðum við Kanada um fríverslun. Sex skýrslur voru kynntar á fund­um þingmannanefndar EES á árinu 1998 og fjölluðu þær um framkvæmd EES-samningsins árið 1997, frjálsa fólksflutninga á EES svæðinu, áhrif Amsterdamsáttmálans á EES, Kyoto-bókunina og EES, stækkun ESB og áhrifi þess á EES og öryggi matvæla. Ályktanir voru samþykktar í þessum málum, nema þeim tveimur síðastnefndu þar sem afgreiðslu var frestað til 1999.
    Íslandsdeildin var mjög virk í starfi nefndanna á árinu. Hún átti tvo framsögumenn af sex sem EFTA-hluti þingmannanefndar EES tilnefndi út af skýrslum ársins. Þá fór Vilhjálmur Egilsson, formaður Íslandsdeildarinnar, með formennsku í þingmannanefnd EFTA á árinu og varaformennsku í þingmannanefnd EES. Loks ber að geta funda sem Íslandsdeildin átti á árinu með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem næst voru í röðinni að taka við forsæti í ráðherraráði ESB, en ESB-ríkin skiptast á um formennsku þar til hálfs árs í senn. Íslands­deildin hefur haldið slíka fundi í tengslum við fundi þingmannanefndar EFTA. Á slíkum fundum kynnir Íslandsdeildin málefni EFTA og EES og útskýrir hvernig ýmsar ákvarðanir ESB hafa bein og/eða óbein áhrif á EES og fær jafnframt upplýsingar um helstu áhersluatriði viðkomandi ríkja í forsæti ráðherraráðs ESB. Þannig fundaði nefndin með utanríkismála­nefnd og almennri nefnd austurríska þingsins í maí og fulltrúum úr Evrópunefndum þýska þingsins (Bundestag og Bundesrat) í nóvember, en Austurríki tók við forsæti í ráðherraráði ESB í júlí 1998 og Þýskaland í ársbyrjun 1999.

14. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
15. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
49./17. fundur þingmannanefndar EFTA.
    Þann 11. mars fundaði framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES í Strassborg og 12. mars fundaði framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA og þingmannanefnd EFTA í Brussel.
    Fund framkvæmdastjórnar EES sat Vilhjálmur Egilsson, formaður, fyrir hönd Íslands­deildarinnar, auk ritara. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu Vilhjálmur Egilsson, formaður þingmannanefndar EFTA, og Hjörleifur Guttormsson fyrir hönd Íslands­deildarinnar, auk ritara. Á fundunum var fjallað um dagskrár komandi funda og skýrslu- og ályktanagerð.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var mestum tíma varið í málstofu þar sem starfsfólk EFTA kynnti þingmönnum helstu málefni sem á dagskrá voru í EES-samstarfinu og það sem helst var á döfinni í reglusetningu innan ESB. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar þau Vilhjálmur Egilsson, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, varaformaður, Árni M. Mathiesen, Hjörleifur Guttormsson og Kristín Ástgeirsdóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Vilhjálmur Egilsson, formaður þingmannanefndar EFTA, stýrði fundinum. Hann lét þess getið að um þessar mundir hefðu orðið þær breytingar á EES-samstarfinu að EFTA-ríkin þrjú væru að mestu búin að lögfesta þau mál sem beðið hefðu afgreiðslu frá því að samn­ingurinn tók gildi og bæst hefðu við á árunum þar á eftir. Nú snerist samstarfið fyrst og fremst um þau mál sem væru efst á baugi hverju sinni innan ESB og því við hæfi að nefndin fengi upplýsingar frá skrifstofu EFTA um það sem helst væri á döfinni í þeim efnum.
    Aðilar frá þeim þremur deildum EFTA-skrifstofunnar sem fást við meginsvið EES-samn­ingsins, þ.e. fjórfrelsið og jaðarmálefni (deild um vöruflutninga, deild um þjónustu og fjár­magnsflutninga og deild um fólksflutninga og jaðarmálefni) veittu upplýsingar og svöruðu spurningum þingmanna.
    Í framhaldi af málstofunni hófst eiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA að nýju. Håkan Berglin, forstöðumaður lagadeildar Eftirlitstofnunar EFTA (ESA), gerði grein fyrir máli þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafði beðið EFTA-dómstólinn um ráðgefandi álit. Málið snerist um vangoldin laun til starfsmanns eftir gjaldþrot.
    Þá var tekið fyrir skjal sem unnið hafði verið af landsdeildum EFTA-ríkjanna þriggja í EES þar sem skoðað var ferli EES-mála í stjórnkerfi EFTA-EES-ríkjanna og kannað hversu lengi þjóðþingin hafa verið að afgreiða mál sem til þeirra var vísað. Meðalafgreiðslutími EES-mála á Alþingi (frá því að stjórnarfrumvarp var lagt fram og þar til það varð að lögum) reyndist vera um þrír og hálfur mánuður. Það getur vart talist of langur tími, enda voru þau tvö mál sem lengstan tíma tóku (sex mánuði) lögð fram skömmu fyrir jólahlé. Að jafnaði tók það Stjórnarráðið hins vegar fjórtán og hálfan mánuð að leggja málin fyrir Alþingi í formi stjórnarfrumvarps eftir að ákvörðun hafði verið tekin í sameiginlegu EES-nefndinni. Svipaða sögu var að segja frá Noregi og Liechtenstein, þótt meðaltíminn væri raunar enn styttri í norska þinginu, eða fjörutíu og þrír dagar.
    Á grundvelli umrædds skjals var samþykkt ályktun þar sem ríkisstjórnir EFTA-aðildar­ríkja EES voru m.a. hvattar til að upplýsa þingin við fyrsta tækifæri um mál sem eru á döf­inni í EES-samstarfinu og væntanleg til þinganna. Þá var skorað á þjóðþingin þrjú að fylgj­ast náið með þróun mála í EES-samstarfinu á fyrri stigum sem kann að gera þeim kleift að hafa áhrif á afgreiðslu þeirra áður en ákvarðanir eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og auðvelda þannig meðferð þeirra í þingunum síðar meir. Einnig voru þjóðþingin hvött til að hraða meðferð EES-mála, einkum þeirra sem talist geta tiltölulega óumdeild innan þing­anna. Loks voru ríkisstjórnir landanna hvattar til að leggja þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem krefjast meðferðar þjóðþinganna fyrir þau við fyrsta tækifæri, og þegar við á að hefja undirbúning viðeigandi lagafrumvarpa þótt formleg ákvörðun hafi ekki verið tekin í sameiginlegu EES-nefndinni,.

16. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
15. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
10. fundur þingmannanefndar EES.
    Dagana 25. og 26. maí fundaði þingmannanefnd EES í Vaduz í Liechtenstein. Á sama tíma funduðu framkvæmdastjórnir þingmannanefnda EFTA og EES. Fund þingmannanefndar EES sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður, Gunnlaugur M. Sig­mundsson, varaformaður, Árni M. Mathiesen, Gísli S. Einarsson, sem sótti fundinn í fjarveru Sighvats Björgvinssonar, og Hjörleifur Guttormsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu formaður og Hjörleifur Guttormsson, auk ritara, en fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES sat formaður, auk ritara.
    Á framkvæmdastjórnarfundum var fjallað um dagskrár komandi funda, verkefnaskiptingu og áherslur í starfi. Fundur þingmannanefndar EES hófst með ávarpi John Nichols frá breska utanríkisráðuneytinu, sem sat fundinn fyrir hönd forusturíkis ráðherraráðs ESB (Bretlands). Hann fagnaði þeim árangri sem náðst hefur í að auka skilvirkni lagasetningarkerfis EES, en sagði þó að enn mætti betur gera. Þá fjallaði hann um fyrirhugaða stækkun ESB o.fl. Breski Evrópuþingmaðurinn Gary Titley sagði stækkun ESB augljóslega mundu hafa áhrif á EFTA-aðildarríki EES og því yrðu þau að hafa einhverja leið til að geta komið skoðunum sínum á framfæri í þeirri þróun. Hann spurði hvort ljóst væri hvernig farið yrði með það mál. Nichols sagði forusturíki ráðherraráðsins jafnt sem framkvæmdastjórn ESB vera meðvituð um stöðuna, og að verið væri að gera ráðstafanir í því efni. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að EFTA-aðildarríki EES fengju að fylgjast náið með stækkunarferli sambandsins.
    Þá ávarpaði fundinn Fabrizio Barbaso frá framkvæmdastjórn ESB, en hann gegnir nú for­mennsku í sameiginlegu EES-nefndinni. Hann tók undir með Nichols og fagnaði aukinni skil­virkni lagasetningarkerfis EES sem hann sagði að þakka mætti báðum aðilum. Þannig hefðu 107 ákvarðanir verið afgreiddar í nefndinni árið 1997, en 84 árið áður. Hann benti þó jafn­framt á að samt sem áður hefði uppsöfnuðum lagagreinum sem bíða afgreiðslu nefndarinnar fjölgað og því þyrfti enn að gera betur. Þá fjallaði Barbaso um það sem gerst hafði innan ESB í þeim málaflokkum sem sameiginlega þingmannanefnd EES ályktaði um í október 1997, þ.e. í samgöngumálum og á sviði upplýsingasamfélagsins. Loks sagði hann að það mál sem Gary Titley innti Nichols eftir hefði verið til umræðu í sameiginlegu EES-nefndinni og að þar hefði verið samþykkt að nota þær stofnanir EES-samningsins sem þegar væru að störfum til þess að skiptast á upplýsingum og skoðunum um málefni stækkunar ESB og áhrif hennar á EFTA-aðildarríki EES.
    Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra ávarpaði þessu næst fundinn fyrir hönd EFTA-for­usturíkis EES (Íslands). Hann fagnaði því sérstaklega að mikill áfangi væri að nást í málefn­um sem tengjast vottunum, m.a. á fiskafurðum, sem mundu t.d. auðvelda afgreiðslu við landamæri innan EES-svæðisins. Hann greindi einnig frá þeim árangri sem náðst hefði við að „straumlínulaga“ starf sameiginlegu EES-nefndarinnar og að verið væri að opna gagnagrunn með upplýsingum um lagasetningu á EES-svæðinu. Þá sagði hann eðlilegt að auka upplýsingastreymi á fyrri stigum ákvarðanatöku á EES-svæðinu til Evrópuþingsins í ljósi aukins vægis Evrópuþingsins samfara Amsterdamsáttmálanum. Loks sagði hann ljóst að stækkun ESB, sem um leið þýddi stækkun EES, mundi hafa áhrif á EFTA-aðildarríki EES og þau mál hefðu verið rædd við framkvæmdastjórn ESB, forusturíki ráðherraráðsins og umsóknarríkin. Hann sagði alla aðila hafa sýnt málinu mikinn skilning og talið eðlilegt að EFTA-aðildarríki EES kæmu með einhverjum hætti að þessari þróun.
    Knut Almestad, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), gerði grein fyrir ársskýrslu stofn­unarinnar og sagði árið 1997 hafa verið „gott ár“, pólitískt umhverfi stöðugt og að um 300 ákvarðanir hefðu verið afgreiddar. Norski þingmaðurinn Haakon Blankenborg lagði til að nefndin gerði árlega skýrslu um ársskýrslu ESA, og tók sænski Evrópuþingmaðurinn Sören Wibe, formaður nefndarinnar, undir það sjónarmið.
    Þessu næst voru teknar til afgreiðslu fjórar skýrslur nefndarinnar og ályktanir þeirra. Fyrst var tekin til umfjöllunar skýrsla um frjálsa flutninga starfsfólks á svæðinu. Framsögu­menn voru finnska Evrópuþingkonan Marja T. Matikainen-Kallström og Sighvatur Björg­vinsson, en í fjarveru Sighvats kynnti Vilhjálmur Egilsson skýrslurnar fyrir hönd hans. Þá var að venju rædd skýrsla um virkni EES-samningsins sem byggist á ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir árið 1997. Otto Büchel frá Liechtenstein kynnti skýrsluna ásamt Gary Titley. Því næst var rædd skýrsla um áhrif Amsterdamsáttmála ESB á EES sem þeir Blankenborg og Wibe kynntu. Loks var rædd skýrsla um Kyoto-bókunina um losun gróður­húsalofttegunda og áhrif hans á EES. Skýrsluna kynntu þýski Evrópuþingmaðurinn Markus Ferber og norski þingmaðurinn Bror Yngve Rahm.
    Að lokinni umfjöllun um skýrslurnar voru ályktanir þeirra og breytingartillögur við þær teknar til afgreiðslu. Allar ályktanirnar voru samþykktar og nokkrar breytingartillögur við flestar þeirra.
    Loks var fráfarandi ritara þingmannanefndar EFTA, Belindu Theriault, þakkað gott starf í þágu nefndarinnar, en hún hafði gegnt starfi ritara þingmannanefndar EFTA (og þar með sameiginlegu þingmannanefndar EES í samstarfi við starfsmann Evrópuþingsins) undanfarin þrjú ár.

Fundur Íslandsdeildarinnar með utanríkismálanefnd austurríska þingsins.
    Þar sem Austurríki átti að taka við formennsku í ráðherraráði ESB þann 1. júlí átti Ís­landsdeild þingmannanefndar EFTA fund með utanríkismálanefnd og almennri nefnd austur­ríska þingsins 27. maí í Vín, en þær nefndir fara með málefni ESB í austurríska þinginu. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sátu fundinn þeir sömu og sátu fundina í Vaduz. Fundinum stýrði af hálfu Austurríkismanna formaður utanríkismálanefndarinnar, Peter Schieder, en hann þurfti að hverfa á braut á miðjum fundi og tók þá varaformaðurinn, dr. Michael Spindelegger, við fundarstjórninni af honum.
    Á fundinum gerði Vilhjálmur Egilsson grein fyrir tveimur stuttum skýrslum sem Íslands­deildin hafði unnið upp úr yfirgripsmiklum úttektum EFTA á áhrifum Amsterdamsáttmála ESB annars vegar og stækkunaráætlunar sambandsins (Agenda 2000) hins vegar á EES og EFTA-aðildarríki samningsins. Hann sagði jafnframt að Íslandsdeildin teldi gagnlegt og jafnvel nauðsynlegt að halda slíka fundi til þess að minna verðandi forusturíki ESB á EES-samninginn og fjalla um hvernig hann virkar og um hugsanleg áhrif þeirrar þróunar sem verður innan ESB á EFTA-aðildarríki EES. Hann fjallaði síðan ítarlegar um stækkun ESB og um Amsterdamsáttmálann og benti á hvernig ný aðildarríki yrðu um leið ný aðildarríki EES. Þá sagði hann mikilvægt fyrir EFTA-aðildarríki EES að fá tækifæri til að standa vörð um hagsmuni sína í því ferli sem leið nýrra ríkja til aðildar yrði. EFTA-ríkin væru með frí­verslunarsamninga við flest þessara ríkja, og t.d. fælu þeir samningar í sér betri aðgang að mörkuðum fyrir sjávarafurðir en á markaði ESB. Þessum markaðsaðgangi vildu EFTA-ríkin og ekki síst Íslendingar vissulega halda. Þá ræddi hann aukin völd Evrópuþingsins með sam­ráðsferli við ráðherraráðið í kjölfar Amsterdamsáttmálans, spurninguna um samstarf í samn­ingaviðræðum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) o.fl.
    Rætt var um möguleika EFTA-EES-ríkjanna til að hafa áhrif á lagasetningu ESB, um áhrif myntbandalags Evrópu á ríki utan bandalagsins og viðhorf Íslendinga til stækkunar ESB. Þá var jafnframt komið inn á fiskveiðistefnu ESB og Schengen-samstarfið.
    Að lokum sagði Vilhjálmur mun auðveldara að fjalla um málefni EES við Austurríkis­menn en t.d. við Evrópunefndir breska og hollenska þingsins þar sem Austurríkismenn hefðu nýverið sjálfir verið aðilar að EFTA og EES. Hann bað þá að gleyma ekki hagsmunum EFTA-aðildarríkja EES og dr. Spindelegger sagði svo ekki mundu verða, sá yrði afrakstur þessa fundar.


18. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.
50./18. fundur þingmannanefndar EFTA.

    3. júní sl. fundaði þingmannanefnd EFTA á Þingvöllum og með ráðherraráði EFTA í Reykjavík. Fundina sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, varaformaður, Árni M. Mathiesen, Hjörleifur Guttormsson og Kristín Ástgeirsdóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Á fundi með ráðherrum kynnti Vilhjálmur Egilsson, formaður þingmannanefndar EFTA, ályktun nefndarinnar frá fundi hennar í Brussel 13. mars. Í ályktuninni voru ríkisstjórnir EFTA-aðildarríkja EES m.a. hvattar til að upplýsa þjóðþingin við fyrsta tækifæri um mál sem eru á döfinni í EES-samstarfinu og væntanleg til þinganna í formi lagafrumvarpa. Þá var skorað á þjóðþingin þrjú að fylgjast náið með þróun mála í EES-samstarfinu á fyrri stigum, sem kann að gera þeim kleift að hafa áhrif á afgreiðslu þeirra áður en ákvarðanir eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og auðvelda þannig meðferð þeirra í þingunum síðar meir. Loks voru ríkisstjórnir landanna hvattar til að leggja þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem krefjast meðferðar þjóðþinganna fyrir þau við fyrsta tækifæri, og jafnvel að hefja undirbúning viðeigandi lagafrumvarpa þótt formleg ákvörðun hafi ekki verið tekin í sameiginlegu EES-nefndinni. Vilhjálmur sagði grundvöll ályktunarinnar vera þann vilja þinganna að fá tækifæri til að koma að ákvarðanatökuferlinu í málefnum EES fyrr en nú er. Halldór Ásgrímsson, formaður ráðherraráðs EFTA, fagnaði ályktuninni og sagðist hlynntur inntaki hennar. Því fyrr sem upplýsingar bærust ríkisstjórnum eða þjóðþingum því auðveld­ara væri að afla stuðnings við viðkomandi mál. Hann sagði að ráðherraráðið mundi gera sitt besta til að framfylgja ályktuninni. Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs, tók undir með Halldóri og fagnaði ályktuninni. Hann sagði norsku ríkisstjórnina leggja á það mikla áherslu að koma slíkum upplýsingum á framfæri við Stórþingið hið fyrsta, þótt alltaf mætti eflaust gera betur.
    Þá kynnti Vilhjálmur ályktun þingmannanefndar EES um Amsterdamsáttmála ESB frá því í vikunni áður, þar sem m.a. var fjallað um viðbrögð við stærra hlutverki Evrópuþingsins í lagasetningu innan ESB. Vilhjálmur sagði nauðsynlegt að ríkisstjórnirnar kæmu sjónarmið­um EFTA-ríkjanna einhvern veginn á framfæri við Evrópuþingið. Þingmannanefndin gæti ekki séð um það eingöngu þótt þingmannanefnd EES væri vissulega gagnlegur vettvangur í þessu sambandi og mikilvægi hans fyrir EFTA-aðildarríki EES ykist í kjölfar þessara breytinga. Halldór sagðist telja að þjóðþingin ættu að geta komið meira að ákvarðanatöku­ferli EES-mála. Norska þingkonan Grete Knudsen lagði til að samevrópskir þingflokkahópar yrðu nýttir í þessu sambandi, en þar mætast oft Evrópuþingmenn og þingmenn þjóðþinga aðildarríkja EFTA. Halldór tók undir það og bætti við að verið væri að kanna það innan EFTA hvernig best væri að bregðast við þessum breytingum.
    Þá fjallaði Halldór Ásgrímsson um fyrirhugaða stækkun ESB og áhrif hennar á aðildarríki EFTA, en þess má geta að EFTA-ríkin hafa gert fríverslunarsamninga við flest þeirra ríkja sem gert er ráð fyrir að gerist aðildarríki ESB upp úr aldamótum. Halldór greindi frá því að haft hefði verið samband við þessi ríki, framkvæmdastjórn ESB og Bretland sem þá fór með forustu í ráðherraráði ESB vegna þessa máls. Allir aðilar hefðu sýnt því skilning að þarna kynnu talsverðir hagsmunir að vera í húfi fyrir EFTA-ríkin og að eðlilegt væri að þau gætu á einhvern hátt komið sjónarmiðum sínum á framfæri í stækkunarferlinu. Ákveðið hefði verið að notast við núverandi stofnanir EES-samningsins í því skyni, ekki síst sameiginlegu EES-nefndina. Halldór kynnti einnig hvernig miðaði gerð fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Kanada, en könnunarviðræður hófust nokkrum dögum fyrir fundinn. Halldór lagði áherslu á að pólitískur vilji væri til þess að ganga frá slíkum samningi sem fyrst, en hann yrði EFTA-ríkjunum gífurlega mikilvægur jafnt í efnahagslegu sem stjórnmálalegu tilliti.
    Loks gerði Pascal Couchepin, svissneski efnahagsmálaráðherrann, grein fyrir stöðu mála í viðræðum Sviss og ESB um tvíhliða samning en þær hófust árið 1994.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var hlutverk þjóðþinganna í ákvarðanatökuferli EES fyrsta málið á dagskrá. Þar var annars vegar fjallað um áhrif stærra hlutverks Evrópuþings­ins í lagasetningu innan ESB í kjölfar Amsterdamsáttmálans, og var almenn samstaða um að breytingarnar ykju mikilvægi sameiginlegrar þingmannanefndar EES í ákvarðanatökuferli samningsins. Hins vegar var fjallað um stöðu þjóðþinganna innan stjórnkerfa EFTA-ríkjanna með tilliti til umræðnanna á fundinum með ráðherraráðinu um ályktun þingmannanefndar­innar frá því í mars. Í því sambandi sagði Vilhjálmur Egilsson norska þingið bersýnilega vera betur skipulagt í þessum efnum en það íslenska og sagði Alþingi margt geta lært af Stór­þinginu.
    Kjartan Gunnarsson, deildarstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, kynnti gang mála í samningaviðræðum á vettvangi Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) um gerð fjölþjóðlegs samnings um fjárfestingar. Þá fjallaði Ólafur W. Stefánsson, skrifstofu­stjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, um Norræna vegabréfasambandið, Schengen-samn­inginn og stefnu Evrópuríkja í málefnum flóttamanna. Loks fjallaði Aldo Matteucci, aðstoð­arframkvæmdastjóri EFTA, ítarlega um fyrrnefndar samningaviðræður EFTA-ríkjanna og Kanada um gerð fríverslunarsamnings.

51./19. fundur þingmannanefndar EFTA.
17. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
16. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES í Strassborg
.
    Þann 19. október fundaði þingmannanefnd EFTA í Brussel. Fundinn sátu fyrir hönd Ís­landsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, varaformað­ur, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Guttormsson og Svavar Gestsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var haldinn sama dag og sátu hann formaður og Sighvatur Björgvinsson, auk ritara. Fund fram­kvæmdastjórnar þingmannanefndar EES, sem haldinn var í Strassborg 20. október sátu for­maður og ritari.
    Nikolaus prins af Liechtenstein, sendiherra og forseti sameiginlegu EES-nefndarinnar, skýrði á fundi þingmannanefndar EFTA frá niðurstöðum fundar ráðherraráðs EES, sem hald­inn hafði verið 6. október. Á fundi ráðherraráðs EES hefðu menn lagt jákvætt mat á þróun EES-samstarfsins. Loksins væri búið að afgreiða reglur um heilbrigði dýra í sameiginlegu EES-nefndinni og skriður hefði komist á framtíðarþátttöku EFTA-EES-ríkjanna í Lyfjamála­stofnun Evrópu (EMEA) þótt málið væri ekki endanlega komið í höfn. Hann skýrði frá um­ræðum um stækkun ESB og sagði að EFTA-EES-ríkin hefðu lagt áherslu á upplýsingaflæði og samráð og minnt á að samningar um aðlögunartímabil og undanþágur á einhverjum svið­um hefðu líka áhrif á EES og þar með EFTA-EES-ríkin. Þá ræddi prinsinn þróunarsjóð EFTA og þær deilur sem nýlega hefðu sprottið upp í sambandi við hann. EFTA-EES-ríkin hefðu litið svo á að þegar sjóðurinn hætti störfum núna um áramótin, eins og EES-samning­urinn gerði ráð fyrir, væri málið úr sögunni. Að minnsta kosti eitt ESB-ríki, Spánn, vildi meina að fjárhagsaðstoð EFTA væri varanlegur hluti af EES-samningnum og því ætti að framlengja starfsemi sjóðsins. Mikið hefði verið rætt um þetta mál á bak við tjöldin á fundinum. Niðurstaðan hefði verið að ákveða að senda málið til hinnar sameiginlegu EES-nefndar til umfjöllunar.
    Kjartan Jóhannsson kynnti breytingar á skrifstofuhaldi EFTA. Þjónustu við þingmanna­nefndina og ráðgjafarnefnd aðila vinnumarkaðarins mun framvegis verða sinnt sameiginlega af tveimur starfsmönnum skrifstofunnar, en áður var einn starfsmaður fyrir hvora nefnd fyrir sig. Guðmundur Einarsson væri nýlega tekinn við sem ritari þingmannanefndarinnar, en jafn­framt væri von á nýjum norskum starfsmanni til nefndanna. Kjartan ræddi við nefndina ýmis mál tengd EES sem huga þyrfti vel að í náinni framtíð, en sum hver eru nú til umfjöllunar í þingmannanefndinni. Þar má t.d. nefna hvort breytingar þær sem gerðar hafa verið á ESB með nýjum sáttmálum síðan að EES tók gildi hefðu þýðingu fyrir það hvernig EFTA kemur að mótun ákvarðana (decision-shaping) innan ESB, hvernig ákvæðið um aukinn sveigjan­leika gæti komið til með að hafa áhrif á EES og hvernig EFTA-EES-ríkin ættu að styrkja samskipti sín við Evrópuþingið, nú þegar það hefði fengið aukin völd. Kjartan ræddi líka ný­afstaðna samningalotu við Kanadamenn um fríverslun. Hann sagði fyrstu lotuna lofa góðu, en mörg tæknileg vandamál þyrfti að leysa áður en hægt yrði að ljúka samningum.
    Málstofa var haldin á fundinum og voru þrjú mál til umfjöllunar: lagaleg þýðing Amster­damsáttmálans fyrir EES, myntbandalag Evrópu (EMU) og EES og rafræn viðskipti.
    Á framkvæmdastjórnarfundunum var m.a. ákveðið að þingmannanefnd EES fundaði á Ís­landi 16. mars 1999.

17. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
11. fundur þingmannanefndar EES.
18. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
    Fund þingmannanefndar EES sem haldinn var í Lúxemborg 23.–24. nóvember sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Fund framkvæmda­stjórnar þingmannanefndar EES sátu formaður og ritari. Við sama tækifæri var haldinn fund­ur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og hann sátu formaður og Sighvatur Björg­vinsson, auk ritara.
    Á 11. fundi þingmannanefndar EES ræddi forseti ráðherraráðs EES, Andrea Willi (Liechtenstein), m.a. upplýsingaflæði frá ESB til EES-EFTA-ríkjanna um stækkunarviðræð­urnar. Hún taldi að EFTA-EES-ríkin þyrftu að fá skrifleg gögn úr aðildarviðræðunum til viðbótar þeim upplýsingum sem ríkin fengju nú þegar og væru aðilar málsins að reyna að finna leiðir til þess. Nokkrar umræður urðu um þróunarsjóð EES-EFTA-ríkjanna sem leggja átti niður um áramótin. Willi sagði kröfur Spánverja um áframhaldandi greiðslur EFTA-EES-ríkjanna koma mjög á óvart og vera án lagastoðar. EFTA-ríkin væru reiðubúin til við­ræðna um hugsanlegt nýtt sameiginlegt átak til að minnka félagslegan og efnahagslegan mun á ríkjum innan ramma gagnkvæmra réttinda og skyldna og með tilliti til frekari samruna í Evrópu. Fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB og fulltrúi ráðherraráðs ESB á fundinum voru ósammála því að krafa Spánverja ætti sér ekki stoð í EES-samningum, en vonuðust til að hægt yrði að leysa málið og vísuðu til góðs samstarfs EES-ríkja fram að þessu. Þingmenn ræddu málið og töldu almennt EFTA hafa lögin sín megin, en ákveðið var að kanna málið til hlítar fyrir næsta fund þingmannanefndar EES. Sumir viðstaddir töldu að ekki ætti að ein­blína á lögin heldur horfa á hina pólitísku hlið málsins, en þá út frá stækkun ESB.
    Forseti sameiginlegu EES-nefndarinnar, Nikolaus prins af Liechtenstein, sendiherra, svar­aði þingmönnunum varðandi ályktanir þær sem samþykktar voru á 10. fundinum í maí. Í framhaldi af ræðu hans spunnust nokkrar umræður um Kyoto-bókunina, en ein ályktun síð­asta fundarins fjallaði einmitt um það mál. Knut Almestad frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fór yfir starf stofnunarinnar á árinu með tilliti til markmiðsins um einsleitni á EES-svæðinu og vísaði hann til stigataflna ESA og framkvæmdastjórnar ESB um framkvæmd ESB-gerða í aðildarríkjum EES sem sýna hvernig aðildarríkin standa sig. Ísland er í 12. sæti, en hér eru 5,4% gerða ekki komin til framkvæmda.
    Tvær skýrslur voru teknar til umræðu á fundinum, skýrsla um stækkun ESB og áhrifin á EES (framsögumenn: Sören Wibe (PES, Svíþjóð) og Vilhjálmur Egilsson) og skýrsla um öryggi matvæla (framsögumenn: Grete Knudsen (Verkamannaflokki, Noregi) og Marjo Matikainen-Kallström (EPP, Finnlandi). Afgreiðslu ályktana um þessi mál var frestað til næsta fundar. Formaður fyrir árið 1999 var kjörinn Haakon Blankenborg og tekur hann við af Sören Wibe. Sören Wibe var kjörinn varaformaður og tekur hann við af Vilhjálmi Egilssyni.

Fundur Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA/EES með þýskum þingmönnum.
    Að loknum fundunum í Lúxemborg hélt Íslandsdeildin til Bonn þar sem hún hélt fund 25. nóvember með þýskum þingmönnum í tilefni að því að Þýskaland tekur við forsæti í ESB um áramótin. Íslandsdeildin fundaði fyrst með tveimur þingmönnum Evrópunefndar Bundestag, Dieter Dzawas frá SPD og Peter Hintze , talsmanni CDU í nefndinni. Þá átti Íslandsdeildin fund með formanni utanríkismálanefndar Bundestag, Hans-Ulrich Klose frá SPD, og síðast með formanni Evrópunefndar Bundesrat, Willi Stachele. Það hittist vel á því að nýbúið var að skipa þessar nefndir eftir þýsku kosningarnar og fékk Íslandsdeildin því tækifæri til að hitta aðila sem voru nýlega teknir við embættum sínum.
    Að lokinni almennri umfjöllun um störf þingmannanefndanna fjallaði formaður Íslands­deildarinnar um hugsanleg áhrif stækkunar ESB til austurs á fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við viðkomandi ríki og minnti á að stækkun ESB þýddi um leið stækkun EES. Hann lagði áherslu á að haft yrði samráð við EES-EFTA-ríkin um væntanlega samninga um aðlög­unartímabil á ýmsum sviðum fyrir ný aðildarríki. Hann útskýrði jafnframt að fríverslunar­samningarnir næðu yfir fríverslun með fisk en ekki EES-samningurinn þannig að finna yrði viðunandi lausn á því máli. Þá greindi hann frá deilum sem upp væru komnar innan EES um þróunarsjóð EFTA og sjónarmið EFTA-ríkjanna. Hjörleifur lagði áherslu á mikilvægi þess að EFTA-ríkin fengju aðgang að skriflegum gögnum um stækkunarferlið. Hann minntist líka á að hann teldi hugsanlegt að erfiðleikar kæmu upp á Íslandi í tengslum við lögleiðingu ESB-gerðar um orkumál. Gestgjafarnir spurðust frekar fyrir um orkumál á Íslandi og voru þau mál rædd í víðu samhengi. Jafnframt var komið inn á gagnagrunnsmálið. Fulltrúar Evrópunefndar Bundestag fullvissuðu Íslandsdeildina um að þeir gerðu sér vel grein fyrir því að Ísland væri hluti af samfélagi Evrópuríkja þótt það stæði fyrir utan ESB. Klose spurði um afstöðu Ís­lendinga til aðildar að ESB og settu meðlimir Íslandsdeildarinnar fram sín sjónarmið. Sam­eiginleg fiskveiðistefna ESB barst í tal og útskýrðu alþingismenn viðhorf Íslands til þessa, en Klose taldi af og frá að Ísland fengi undanþágu frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni ef til þess kæmi að landið sækti um aðild að ESB. Þar skipti sérstaða Íslands eða skortur á sam­eiginlegum fiskstofnum með ESB engu máli. Hann benti á að afstaða Íslands til ESB byggð­ist að mestu á efnahagslegum grunni en aðildarríkin litu frekar á aðild í pólitísku samhengi og með tilliti til fortíðar Evrópu.


52./20. fundur þingmannanefndar EFTA.
19. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
19. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.

    Fundirnir voru haldnir 30. nóvember í Leukerbad. Fundi þingmannanefndar EFTA sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk ritara Íslands­deildarinnar. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu formaður og Sighvat­ur Björgvinsson, auk ritara.
    Þingmannanefnd EFTA ræddi erfiðleika þá sem upp hafa komið undanfarið á fjármála­mörkuðum heims og hvernig bregðast ætti við þeim. Á fundinn mætti sérfræðingur frá sviss­neska fjármálaráðuneytinu.
    Bæði á innra fundi þingmannanefndarinnar og á fundinum með ráðherrum var rætt um samskipti EFTA-EES-ríkjanna við Evrópuþingið, sérstaklega með tilliti til mótunar ákvarð­ana innan ESB (decision shaping).
    Jafnframt var á báðum fundunum rætt um ákvarðanir sem teknar hafa verið í sameiginleg­um nefndum EFTA-ríkjanna og samstarfsríkja EFTA á sviði fríverslunar, en reglulegir fundir eru haldnir til að uppfæra samningana og gera á þeim nauðsynlegar breytingar. Sumar ákvarðanir þarf að leggja fyrir þjóðþing bæði EFTA- og samstarfsríkjanna til staðfestingar. Vantað hefur upp á að þetta hafi verið gert og er nú svo komið að nokkur fjöldi ákvarðana er óstaðfestur. Þingmannanefndin ætlar að skoða málið og mun væntanlega gera tillögu um lausn.
    Þá var rætt um þá vinnu sem nú fer fram á vegum EFTA við gerð fríverslunarsamninga við æ fleiri samstarfsríki, en bráðabirgðasamningur við PLO var einmitt undirritaður í Leuk­erbad. Jafnframt var rætt um þróunarsjóð EFTA og þau vandamál sem komu upp í tengslum við niðurlagningu hans sem og nýleg drög að samkomulagi um Schengen.
    Haakon Blankenborg frá Noregi var kjörinn formaður þingmannanefndar EFTA fyrir 1999 og tekur hann við af Vilhjálmi Egilssyni. Tveir varaformenn voru kjörnir, Peter Bieri frá Sviss fyrir EFTA-hluta nefndarinnar og Otto Büchel frá Liechtenstein fyrir EES-hlutann.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar fjallaði um fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir árið 1999 og samþykkti álit á henni, en þar var m.a. lýst stuðningi við áform um að bæta við starfslið stofnunarinnar á næsta ári.

Alþingi, 10. febr. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form.


Gunnlaugur M. Sigmundsson,


varaform.

Árni M. Mathiesen.



Sighvatur Björgvinsson.


Hjörleifur Guttormsson.