Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 857  —  361. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Helgu Haraldsdóttur frá samgönguráðuneyti og Ernu Hauksdóttur og Þorleif Jónsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Ferðamálaráði, Ferðamála­samtökum Vestfjarða, Félagi leiðsögumanna, Íslandsflugi hf., Sambandi íslenskra sveitar­félaga og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipan Ferðamálaráðs þannig að fulltrúum í ráðinu verði fækkað úr 23 í sjö og framkvæmdastjórn þess lögð niður í kjölfarið. Fjöldi fulltrúa í ráðinu hefur hefur gert störf Ferðamálaráðs þung í vöfum og því mikið hvílt á fram­kvæmdastjórninni. Með breytingunni er þess vænst að ráðið verði mun skilvirkara en verið hefur. Komið hefur fram gagnrýni á að Ferðamálaráði sé einungis skylt að halda einn fund á ári en í 2. mgr. 3. gr. laga um skipulag ferðamála er kveðið á um að í janúar ár hvert skuli halda fund og afgreiða fjárhagsáætlun ársins en að aðrir fundir skuli haldnir samkvæmt ákvörðun ráðsins eða framkvæmdastjórnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir óbreyttri tilhögun þannig að Ferðamálaráð ákveður hvenær fundir skulu haldnir og hversu oft. Nefndin telur ekki rétt að lögbinda ákveðinn lágmarksfjölda funda en gengur út frá því að nýskipað Ferða­málaráð muni funda reglulega og eins oft og þurfa þykir svo að það megi fullnægja hlutverki sínu skv. 7. gr. laganna.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. febr. 1999.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Stefán Guðmundsson.



Egill Jónsson.


Ragnar Arnalds.


Árni Johnsen.



Magnús Stefánsson.


Kristján Pálsson.