Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 883  —  346. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um útflutning hrossa, nr. 161/1994, sbr. lög nr. 73/1996.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson frá landbún­aðarráðuneyti, Gunnar Hólmsteinsson frá Bændasamtökum Íslands og Sveinbjörn Eyjólfsson frá útflutnings- og markaðsnefnd.
    Umsagnir bárust frá Hagþjónustu landbúnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Félagi hrossaútflytjenda og útflutnings- og markaðsnefnd.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögum um útflutning hrossa verði breytt með hliðsjón af breyt­ingum sem orðið hafa á búnaðarlögum, nr. 70/1998, og lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum. Í lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, er nú kveðið á um að inn­heimta skuli sérstakt búnaðargjald af búvöruframleiðendum og ráðstafa skuli ákveðnu hlut­falli af því til Búnaðarmálasjóðs. Með hliðsjón af því er lagt til í frumvarpinu að horfið verði frá því að hluti gjalds vegna útflutnings hrossa, sem mælt er fyrir um í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um útflutning hrossa, verði látinn renna í Búnaðarmálasjóð. Ekki er í frumvarpinu lögð til breyting á upphæð gjaldsins heldur eingöngu á ráðstöfun þess.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram það sjónarmið að frá gildistöku laga nr. 84/1997 hefðu útflytjendur hrossa í raun greitt tvöfalt gjald í Búnaðarmálasjóð. Nefndin tel­ur þetta sjónarmið á rökum reist og leggur því til að við frumvarpið verði bætt ákvæði til bráðabirgða um að endurgreiða skuli þeim sem flutt hafa út hross eftir gildistöku laga nr. 84/1997 þann hluta gjaldsins sem rann til Búnaðarmálasjóðs. Þá leggur nefndin til að útflutn­ingsgjald sem lagt er á hvert útflutt hross verði lækkað úr 8.000 kr. í 6.800 kr., enda væri ella um að ræða auknar álögur á útflytjendur hrossa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Hjálmar Jónsson og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. febr. 1999.



Guðni Ágústsson,


form., frsm.


Egill Jónsson.


Guðjón Guðmundsson.



Magnús Stefánsson.


Katrín Fjeldsted.


Ágúst Einarsson.



Sigríður Jóhannesdóttir.