Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 972  —  183. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hlutinn telur frumvarpið í veigamiklum atriðum og þegar á heildina er litið til veru­legra bóta fyrir tjónþola og brýnt að úrbæturnar komist þegar í stað til framkvæmda.
    Minni hlutinn gerir þó alvarlegar athugasemdir við nokkur mikilvæg atriði.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 5. gr. laganna að 40% af reiknuðu ein­greiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði verði dregin frá skaðabótakröfu. Jafnframt leggur meiri hlutinn til þá breytingu á 2. gr. frumvarpsins að frá skaðabótum skuli dregin 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði og greiðslu frá sjúkrasjóði. Minni hlutinn mun greiða at­kvæði gegn þessari breytingartillögu við 2. gr. og jafnframt leggja til breytingartillögu við 4. gr. þess efnis að greiðslur frá lífeyrissjóðum verði ekki dregnar frá skaðabótum. Iðgjöld launafólks í lífeyrissjóði eru hluti umsaminna launa og réttindin því eign launafólks. Óeðli­legt er að sú eign komi til frádráttar skaðabótakröfum. Í þessu samhengi er rétt að benda á að tryggingar sem keyptar eru á markaði koma ekki til frádráttar.
    Minni hlutinn mun einnig leggja fram breytingartillögu við 13. gr. frumvarpsins þess efnis að við mat á miskabótum vegna kynferðisofbeldis verði tekið sérstakt tillit til eðlis og afleið­inga brotsins.
    Minni hlutinn telur að sú lágmarksviðmiðun árslauna sem fram kemur í 6. gr. frumvarps­ins sé of lág. Telur minni hlutinn eðlilegra að miða þar við meðallaun landverkafólks innan ASÍ í stað þeirrar upphæðar sem lögð er til og er nokkru lægri.
    Þá vekur minni hlutinn athygli á því að þegar nefndin fjallaði um skaðabótalögin árið 1995 voru miklar deilur milli tryggingafélaganna og Vátryggingaeftirlitsins um hvort og að hve miklu leyti aukinn bótaréttur hefði áhrif á iðgjaldagreiðslur. Þær deilur áttu m.a veruleg­an þátt í því að mjög hefur dregist að breyta skaðabótalögum til að tryggja tjónþolum sann­gjarnar og eðlilegar bætur. Misvísandi upplýsingar komu fram og fólust m.a. í því að trygg­ingafélögin töldu að þær breytingar sem lágu fyrir mundu leiða til 30–50% hækkunar á ið­gjöldum en Vátryggingaeftirlitið að ekki væri þörf á neinni verulegri hækkun iðgjalda vegna breytinga á bótarétti. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af hálfu allsherjarnefndar og endurskoð­unarnefndar skaðabótalaganna með atbeina bæði dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra hefur enn ekkert skýrst varðandi iðgjöldin. Þótt meginatriði þessa máls sé að tjónþolar fái sanngjarnar og eðlilegar bætur er það einnig mikilvægt að Alþingi hafi möguleika á að fylgj­ast með hvort réttarbæturnar geti hugsanlega leitt til breytinga á iðgjöldum, en á það hefur skort að mestu leyti. Með vísan til þróunar þessa hluta málsins og stöðu bótasjóðanna leggur minni hlutinn áherslu á að Fjármálaeftirlitið (áður Vátryggingaeftirlitið), sé þess þörf, beiti ákvæðum 2. mgr. 55. gr. laga um Vátryggingaeftirlit þar sem kveðið er á um að eftirlitið geti með rökstuddum hætti gert athugasemdir ef iðgjöld eru ósanngjörn og ekki í samræmi við áhættu sem í vátryggingum felst.

Alþingi, 3. mars 1999.



Ögmundur Jónasson,


frsm.


Kristín Halldórsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.