Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1011  —  225. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um Orkusjóð.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ingimarsson og Guðjón A. Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Landsvirkjun, Þjóðhagsstofnun, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Orkustofnun, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Verkfræðideild Háskóla Íslands og Eyþingi.
    Frumvarpið byggist að miklu leyti á þeim ákvæðum orkulaga, nr. 58/1967, sem fjalla um Orkusjóð. Þó eru í því nokkur nýmæli. Gert er ráð fyrir að Orkusjóður fjármagni yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins. Þá er lagt til að ráðherra skipi tvo ráðsmenn en Alþingi kjósi þrjá ráðsmenn eftir hverjar alþingiskosningar. Gert er ráð fyrir að orkumála­stjóri gegni ekki stöðu framkvæmdastjóra Orkusjóðs en veiti orkuráði ráðgjöf eftir því sem um er beðið. Lagt er til að orkuráð hafi heimild til að semja við aðra aðila en Seðlabankann um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins. Þá er gert ráð fyrir að tekjuafgangur af rekstri Rafmagnsveitna ríkisins renni ekki til sjóðsins. Loks er lagt til í frumvarpinu að ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs, skuli framkvæmdaraðili endurgreiða Orkusjóði þann kostnað við veitingu virkjunar- eða nýtingarleyfa. Verði endurgreiðslu að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Helstu efnisatriði breytinganna eru eftirfarandi:
     1.      Tekið verði fram að Orkusjóði verði m.a. heimilt að styrkja sérstök verkefni á sviði hagrænna athugana í orkumálum og umhverfisathuganir í tengslum við orkurannsóknir.
     2.      Þá verði tekið sérstaklega fram að ráðherra skipi formann orkuráðs úr hópi stjórnarmanna en það er óljóst í frumvarpinu.
     3.      Fellt verði úr frumvarpinu ákvæði um að Orkusjóður skuli vera í vörslu Seðlabanka Íslands. Þess í stað verði orkuráði heimilt að semja við aðila sem lögum samkvæmt hafa heimildir til fjárvörslu um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins.
     4.      Bætt verði við ákvæði til bráðabirgða þar sem tekið verði fram að nýtt orkuráð skv. 3. gr. frumvarpsins skuli taka við stjórn Orkusjóðs við gildistöku laganna.

Alþingi, 4. mars 1999.



Stefán Guðmudsson,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Á. Magnússon.


Hjörleifur Guttormsson.


Katrín Fjeldsted.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Ragnar Arnalds.


Hjálmar Árnason.