Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1097  —  564. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hlutinn gerir athugasemdir við það hve frumvarpið kemur seint fram eða í síðustu viku þingsins. Um er að ræða breytingu á lögum um málefni fatlaðra vegna tímabundinna samninga skv. 13. gr. laganna. Lagt er til að nýtt ákvæði til bráðabirgða heimili að hlutað­eigandi starfsmenn svæðisskrifstofu verði í þjónustu viðkomandi sveitarfélags, byggðasam­lags eða héraðsnefndar en ekki starfsmenn ríkisins.
    Minni hlutinn telur varasamt að hrófla við stéttarfélagsaðild þeirra starfsmanna sem fara tímabundið til annars rekstraraðila, eins og lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi. Með hliðsjón af því að fulltrúar Starfsmannafélags ríkisstofnana mæla ekki með samþykkt frumvarpsins og þess að ekki gefst nægjanlegur tími til að fara með fullnægjandi hætti yfir málið mun minni hlutinn ekki standa að afgreiðslu þess.
    Um nánari skýringar vísast til meðfylgjandi álits Starfsmannafélags ríkisstofnana.

Alþingi, 9. mars 1999.



Guðný Guðbjörnsdóttir,


frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.




Fylgiskjal.


Umsögn send félagsmálaráðuneytinu um fyrirhugaðar
breytingar á lögum um málefni fatlaðra.

(3. febrúar 1999.)


    Starfsmannafélag ríkisstofnana hefur verið með skýra stefnu hvað varðar stöðu starfs­manna við flutning frá einum atvinnrekanda til annars. Þessi stefna hefur komið m.a. fram í bréfi félagsins til ráðuneytisins d. 17.11.1996 v/nefndar um endurskoðun á lögunum um málefni fatlaðra og í bréfi til félagsmálaráðherra d. 23. febrúar 1996 v/starfsmannamála í reynslusveitarfélögum.
    Meginstefna félagsins er eftirfarandi:
     1.      Að öll réttindi starfsmanna við flutning á milli atvinnurekenda haldist óbreytt.
     2.      Að stéttarfélög haldi áfram óbreyttu umboði til kjarasamningsgerða fyrir þau störf sem flutt eru á grundvelli laga um reynslusveitarfélög.
     3.      Að með flutningi á verkefnum milli ríkis og sveitarfélaga haldi stéttarfélagið áfram réttinum til kjarasamningsgerðar fyrir þau störf ásamt nýju félagi sem er fyrir á þeim vett­vangi. Starfsmaðurinn hafi síðan val um hvoru stéttarfélaginu hann er í, sbr. flutning á verkefnum frá sveitarfélögum til ríkisins 1990–1991.
    Varðandi fyrirspurn ráðuneytisins nú, þá álítur SFR að þau störf sem fara til annars rekstraraðila samk. tímabundnum samningi samk. 13. gr. skulu áfram vera á samningssviði þess stéttarfélags sem hefur það umboð. Á það einnig við um ný störf sem hugsanlega er stofnað til á meðan samningurinn er í gildi.
    Hér telur félagið að gildi nákvæmlega sömu rök og eiga við þegar um er að ræða yfirtöku verkefna á grundvelli laga um reynslusveitarfélög.
    Að öðru leyti er vísað í ofangreind bréf til ráðuneytisins, sem eru meðfylgjandi.

Virðingarfyllst,
Árni St. Jónsson, framkvæmdastjóri SFR.