Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1100  —  16. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um þjóðgarða á miðhálendinu.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum. Nefndinni bárust umsagnir frá Arkitekta­félagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Ferðafélagi Íslands, Ferðaklúbbnum 4x4, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi leiðsögumanna, félagsmálaráðuneyti, héraðsnefnd Árnes­inga, hérðsnefnd Eyjafjarðar, héraðsnefnd Rangárvallasýslu, héraðsnefnd Vestur-Húna­vatnssýslu, héraðsnefnd Þingeyjarsýslu, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, landbúnaðarráðu­neyti, Landgræðslu ríkisins, Landvernd, Lögmannafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Ís­lands, Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráði, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Neytendasamtökunum, Orkustofnun, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Sam­bandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Skipu­lagsstofnun, Skotveiðifélagi Íslands, Skógrækt ríkisins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Veðurstofu Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Voru umsagnirnar flestar jákvæðar um efni tillögunnar sem gerir ráð fyrir stofnun fjögurra stórra þjóðgarða á miðhálendinu með helstu jökla og aðliggjandi landsvæði innan sinna marka. Nefndin taldi þó rétt að takmarka ályktun­ina við að fela umhverfisráðherra að láta kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem tæki til alls jökulsins með það í huga að unnt verði að stofna þjóðgarðinn á aldamóta­árinu. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs fengist reynsla sem síðar gæti nýst við hugsan­legan undirbúning fleiri slíkra þjóðgarða á miðhálendinu. Vakin er athygli á að tillagan fellur vel að fyrirliggjandi skipulagstillögu um miðhálendið. Að Vatnajökli liggja ýmis svæði sem þegar njóta verndar að náttúruverndarlögum, svo sem friðland á Lónsöræfum, Kringilsárrani og Eldborgaraðir (Lakagígir). Þá nær þjóðgarðurinn í Skaftafelli nú þegar inn á Vatnajökul. Með friðlýsingu alls jökulsins tengjast þessi svæði saman í eina verndarheild.
    Rétt er að taka fram að með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs væri ekki verið að hindra ferð fólks um jökulinn heldur að skapa forsendur fyrir vernd hans og nýtingu sem útivistar- og rannsóknarsvæðis til frambúðar. Jöklar landsins eru snar þáttur í náttúrufari þess og bakhjarl vatnakerfa. Vatnsvernd og verndun hreinleika jöklanna eru samofnir þættir og hafa í senn heilbrigðislegt og hagrænt gildi. Þá hefur Vatnajökull með sínum mörgu og fjölbreytilegu eldstöðvum alþjóðlegt gildi fyrir rannsóknir.
    Í undirbúningi er á vegum Sameinuðu þjóðanna sérstakt „Ár fjalla 2002“. Fram hafa komið hugmyndir hjá þeim sem vinna að undirbúningi þess árs að kjörið væri að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð sem sérstakt framlag af Íslands hálfu í tengslum við það.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

B R E Y T I N G U:

    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.
    Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.

Alþingi, 9. mars 1999.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Hjörleifur Guttormsson.



Árni M. Mathiesen.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Magnús Árni Magnússon.



Kristján Pálsson.