Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 20:44:01 (17)

1999-06-08 20:44:01# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[20:44]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar.

  • Rístu og sýndu sæmd og rögg
  • sól er í miðjum hlíðum.
  • Dagsins glymja hamarshögg
  • heimurinn er í smíðum.
  • Þannig kvað skáldið fyrr á öldinni þegar sóknarhugur ríkti í íslensku atvinnulífi. Enn heyrum við hamarshögg og vélagný og sjáum hugprúða menn hafa ærinn starfa. Atvinnuleysið er að mestu horfið, það ríkir eftirspurn eftir fólki og sóknarhugur á flestum sviðum. Kreppa, samdráttur og versnandi lífskjör voru áhyggjuefni gærdagsins. Slíkar áhyggjur eru þungbærar hverri þjóð því að slíkri þróun fylgir fátækt og þeir sem minna mega sín verða undir í slíkum þjóðfélögum.

    [20:45]

    Framsfl. setti fram stórhuga stefnu á síðasta kjörtímabili. Hann sá drauma rætast og átti gott samstarf við Sjálfstfl. um að hefja sókn í landinu. Við framsóknarmenn uppskárum ekki í kosningunum í vor eins og við væntum og töldum okkur eiga skilið miðað við árangurinn. Pólitík er ekki alltaf þakklát og skilningsrík en hún er eins og lífið sjálft. Það þýðir ekki að vera í fýlu og hætta að vinna þótt á móti blási. Við eigum skyldur við okkar fólk og þjóðina.

    Við framsóknarmenn gerðum upp við okkur að þrátt fyrir nokkurt tap var mikilvægt að halda áfram á sömu braut, verja stöðugleikann og festuna og bæta lífskjör þjóðarinnar til lengri tíma horft. Við fengum að vísu óvænt og síðbúið tilboð frá Samfylkingunni um stjórnarsamstarf.

    Líti nú hver Íslendingur í sinn barm. Var það vogandi að stofna til ríkisstjórnarsamstarfs með jafnvel sex eða sjö flokkum? Fjórir flokkar eru undir götóttri regnhlíf Samfylkingarinnar. Hefðum við einnig tekið með okkur vinstri græna eða rauðgræna eins og þeir heita vegna fyrirheitna landsins og bætt svo við Frjálslynda flokknum með, þá hv. þingmenn Sverri Hermannsson og Guðjón A. Kristjánsson sem sérstaka ráðsmenn, þá hefði nú orðið fjör á Hóli og vorverkin reynst tafsöm. Þá hefðu nú kálfarnir slett úr klaufunum.

    Að vísu skal það viðurkennt, hæstv. forseti, að í Samfylkingunni er skrafhreifið og skemmtilegt fólk sem vill vel. En það minnir dálítið á prestinn forðum sem snaraðist á bak klárnum og settist öfugt í hnakkinn þannig að nef sneri að sterti. Þegar lítill drengur ætlaði að benda presti á þessi mistök svaraði hann með þjósti: ,,Skiptu þér ekki af þessu. Þú veist ekki hvort ég er að koma eða fara.``

    Borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, veit hvað pólitík er en hún sagði þetta um Samfylkinguna í helgarblaði Dags, með leyfi forseta:

    ,,Í fyrsta lagi var Samfylkingin ekki sannfærandi sem ein heild ... Í öðru lagi held ég að Samfylkinguna hafi vantað ákveðnari framtíðarsýn ... Í þriðja lagi má segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki gert nein stórfelld mistök við stjórn landsins. Þorra fólks líður sæmilega vel og er sæmilega sátt.``

    Þetta er auðvitað kjarni málsins og gerði það að verkum að við framsóknarmenn gengum til áframhaldandi samstarfs við Sjálfstfl. á jafnréttisgrundvelli. Við erum annað aflið í ríkisstjórninni. Flokkarnir hafa nú sett sér skýr markmið og varðað leiðina inn í nýja öld.

    Stjórnarandstaðan hefur það fyrir takt í hverju máli að hafa heimsendaspár í frammi. Við framsóknarmenn og ríkisstjórnin lítum á hvert vandamál sem verkefni til að leysa.

    Hæstv. forseti. Mér er falið mikið ábyrgðarstarf í þessari ríkisstjórn, að fara með landbúnaðarmálin. Ég vænti þess að fá til þess stuðning þings og þjóðar að vel takist til. Ég finn það glöggt að í þéttbýlinu er vaxandi skilningur á þýðingu landbúnaðarins. Við eigum tvö lífbelti. Annað er hafið, hitt er landið. Landið verður ekki heillandi nema þar verði reisn yfir mannlífi og fjölbreytt atvinnulíf og þjónusta dafni.

    Bændur hafa á þessum áratug gefið eftir af sínum kjörum en um leið hert gæðakröfur og svarað kalli neytenda. Hér hafa íslenskir bændur, samtök þeirra og afurðastöðvar, ásamt rannsókna-, leiðbeininga- og menntunarstarfsemi lagst á eitt við að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni í framleiðslu og markaðssetningu búvara. Landbúnaðurinn er lifandi atvinnugrein sem tekur sífelldum framförum með aukinni þekkingu og tækni sem má þó ekki taka stórstígari breytingum en svo að við vitum ætíð hvað er fram undan. Umhverfi landbúnaðarins er lífrænt og mistök sem skaða verða ekki aftur tekin. Markmiðið á að vera að skila framleiðsluumhverfi landbúnaðarins til komandi kynslóða betra en við tókum við því. Jafnframt verður að bæta lífskjör bænda og tryggja þeim svipaða lífsafkomu á jörðum sínum og aðrir starfshópar búa við.

    Hæstv. forseti. Það ríkir mikil vá víða í Evrópu í matvælum. Nú ríkir viðskiptastríð á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna vegna notkunar vaxtahvetjandi hormóna og fúkkalyfja í búfjárrækt. Notkun skordýra- og illgresislyfja er gífurleg báðum megin hafsins. Hér er þetta allt öðruvísi. Notkun vaxtahvetjandi efna er bönnuð. Íslendingar ganga að því sem vísu þegar þeir kaupa okkar búvörur að þá eru þeir að kaupa hollustu matvöru sem völ er á í heiminum. Við eigum frábært fólk í matvælaframleiðslu, bændur og iðnaðarfólk í þéttbýli.

    Góðir Íslendingar. Við eigum að setja markið hátt og eiga landbúnað í fremstu röð á næstu öld.