Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 21:35:20 (23)

1999-06-08 21:35:20# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, JónK
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[21:35]

Jón Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Ég óska nýkjörnum þingmönnum velfarnaðar í störfum, ekki síst þeim sem nú setjast á Alþingi í fyrsta sinn. Gamalt máltæki segir að tímarnir breytist og mennirnir með. Íslenska þjóðin hefur upplifað breytta tíma á þeirri öld sem nú er að ljúka. Þetta hefur áhrif á einstaklinginn, framgöngu hans og skoðanir á þjóðmálum.

Engum blandast hugur um að fyrri hluti þessarar aldar var frjór tími. Ísland fékk fullveldi og síðan fullt sjálfstæði. Þjóðin átti sér drauma, hugsjónir og tækifæri. Þetta leiddi ekki eingöngu af sér framfarir í efnahagsmálum og stjórnsýslu heldur einnig í menningu og listum. Við búum enn í dag að þessari arfleifð, hún fylgir okkur inn í nýja öld.

Framsfl. hefur nú lagt upp í nýja vegferð í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. Ný samstarfsyfirlýsing hefur verið gefin út undir yfirskriftinni: Í fremstu röð á nýrri öld. Hvað þýðir þetta? Hvernig rímar þetta við þær hugsjónir sem við viljum hafa að leiðarljósi? Í hverju viljum við vera fremstir?

Líkt og forfeðurnir við upphaf þeirrar aldar sem nú er að líða höfum við sem nú lifum drauma um að bæta þjóðfélagið. Aðstæður eru ólíkar því sem var fyrir einni öld. Eigi að síður eru markmiðin skyld þótt aðferðirnar við að ná þeim kunni að vera aðrar en áður og ný viðfangsefni blasi við. Ég vil minna á nokkur grundvallarmarkmið sem við framsóknarmenn viljum vinna að.

Við teljum að sú samstarfsyfirlýsing um stjórnarsamstarf sem nú liggur fyrir sé tæki fyrir okkur til að koma hugsjónum okkar í framkvæmd. Þær hugsjónir eru um fulla atvinnu fyrir alla landsmenn. Þær hugsjónir eru um velferðarþjóðfélag þar sem þeim er búið öryggi sem höllum fæti standa í samfélaginu. Þær hugsjónir eru um að lifa í blönduðu samfélagi borgar og dreifðrar byggðar þar sem kostir borgarsamfélags og dreifbýlis fá að njóta sín. Þær hugsjónir eru um frelsi til að velja sér menntun, atvinnu og framtíð án tillits til aðstæðna svo sem búsetu eða efnahags. Þær hugsjónir eru um opin og sem hindranaminnst samskipti við aðrar þjóðir á sem flestum sviðum. Þær hugsjónir eru um að hafa mannréttindi í heiðri. Þær hugsjónir eru um opið og frjótt samfélag þar sem menning og sköpunarkraftur fá að njóta sín.

Leiðin til að ná þessum markmiðum byggist á mörgum þáttum. Hún byggist m.a. á því að nýta auðlindir lands og sjávar með sjálfbærum hætti, vernda fiskstofnana um landið jafnframt nýtingu þeirra gæða og ná málamiðlun milli umhverfis- og nýtingarsjónarmiða um nýtingu orku. Sú málamiðlun getur aldrei byggst á því að annar aðilinn hafi allt sitt fram.

Önnur leið er að nýta það hugvit og mannauð sem býr með þjóðinni, ekki síst æsku landsins. Möguleikarnir á þessum sviðum eru takmarkalausir í nútímasamfélagi. Árangur þeirrar viðleitni blasir víða við nú þegar. Við höfum eins og aðrar vestrænar þjóðir veðjað á lögmál markaðarins og samkeppninnar til að ná betri lífskjörum. Hins vegar megum við aldrei missa sjónar á því að markaðurinn og samkeppnin eru tæki til að þjóna félagslegum markmiðum um jöfnuð í samfélaginu en ekki til að hámarka arð hinna fáu.

Ábyrg efnahagsstjórnun er forsenda fyrir framförum og markmiðin sem ég nefndi verða ekki aðskilin frá henni. Stundum er því haldið fram að efnahagsmál taki of mikið rúm í þjóðfélagsumræðunni en aðrir þættir víki til hliðar. Staðreyndin er sú að hið góða sem við viljum gera byggist á því að atvinnulífið í landinu sé öflugt, geti greitt fólki lífvænleg laun fyrir vinnu sína og lagt til sameiginlegra þarfa í samfélaginu. Nauðsynleg framlög til mennta og menningar, heilbrigðis- og tryggingamála byggjast á þessu.

Fjölbreytni í atvinnulífi er nauðsynleg. Íslenskt atvinnulíf hefur verið einhæft og er svo víða enn. Það er ekki mögulegt fyrir þjóð sem vill breikka grundvöllinn að hafna aukningu í einni atvinnugrein og ætla að bæta það upp á annan hátt. Þess vegna þarf að leita leiða til að auka orkunýtingu jafnframt því sem við leitum leiða til að auka ferðaþjónustu svo dæmi séu nefnd af atvinnugreinum sem eru bornar saman undir formerkjunum annaðhvort/eða. Þetta verður að gerast á þeim forsendum um nýtingu auðlinda sem ég nefndi í upphafi máls míns.

Við þurfum á því að halda að sýna aðhald á öllum sviðum útgjalda. Það gildir ekki eingöngu um ríki og sveitarfélög, þetta gildir um einstaklinga og fyrirtæki. Ef tekst að skapa hugarfarsbreytingu um þetta þarf ekki að hafa áhyggjur af stöðugleikanum í samfélaginu miðað við að ekki komi til ný ytri áföll. Það þarf að halda áfram að greiða niður skuldir og beita ríkisvaldinu til að stuðla að stöðugleika.

Hér á háttvirtu Alþingi er staðan breytt. Formaður Samfylkingarinnar hefur hælt sér af því að hún sé orðin stór flokkur á Alþingi. Þessi stóri flokkur hefur enn þá ekki áttað sig á því hvað hann vill verða. Börnin velta því fyrir sér hvað þau eigi að verða þegar þau eru orðin stór. Formaður Samfylkingarinnar segir að Samfylkingin sé orðin stór en hún veit ekki hvað hún ætlar að verða, hvort hún ætlar að verða flokkur eða ekki.

Stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, er að draga lappirnar um allar breytingar í samfélaginu. Formaður þeirra samtaka er þeirri stefnu trúr. Í raun hefur ekkert annað gerst en að stjórnarandstaðan hefur klofnað og inn eru komnir nýir flokkar.

Herra forseti. Það er ástæða til þess að horfa með bjartsýni til nýrrar aldar. Tækifærin blasa við. Við eigum ekki að sitja hjá í samfélagi þjóðanna. Við eigum að ganga fram undir þeim formerkjum að við höfum eitthvað til málanna að leggja. Við eigum að ganga fram undir merkjum frelsis, mannréttinda og lýðræðis og leggja öllum þessum lífsgildum lið. Þá mun okkur vel farnast. --- Góðar stundir.