Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 22:09:50 (28)

1999-06-08 22:09:50# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, KHG
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[22:09]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er víða vikið að byggðamálum enda íbúaþróun á landsbyggðinni mikið áhyggjuefni og byggðaröskunin er eitt alvarlegasta vandamálið sem við er að glíma í íslenskum stjórnmálum. Stjórnarflokkarnir hafa einsett sér að treysta undirstöður byggðar á kjörtímabilinu með markvissum ráðstöfunum á mörgum sviðum.

Í nýsamþykktri byggðaáætlun er lögð áhersla á að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni en meiri fjölbreytni í atvinnu er lykilatriði í nýrri sókn í byggðamálum. Skilgreind verða þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni og hvert ráðuneyti á að leggja fram tillögur þar að lútandi. Í þeim tillögum skal gert ráð fyrir að nýta möguleika upplýsingatækninnar til hins ýtrasta.

Stefnt er að því að auka hlut sveitarfélaga í opinberum rekstri og við það er miðað að hlutur þeirra verði ekki minni en hlutur ríkisins. Það þýðir að umsvif sveitarfélaga munu tvöfaldast þegar upp verður staðið. Þessu fylgir að mörg störf munu flytjast frá ríki til sveitarfélaga og það verður mikil lyftistöng fyrir landsbyggðina.

Þá vil ég nefna áherslur um jöfnun lífskjara og annarrar aðstöðu. Á þessu ári voru framlög ríkisins til niðurgreiðslu á húshitun auknar um fimmtung og á næstu tveimur árum verða niðurgreiðslurnar enn auknar. Þá verður stefnt að því að jafna aðstöðu til náms eftir búsetu. Það verður gert með því að efla framhaldsskóla og háskólastigið á landsbyggðinni og því að nýta möguleika á fjarkennslu og fjarnámi. Í byggðaáætluninni er gert ráð fyrir átaki í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi og í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að fjármagna skuli sérstök verkefni í samgöngumálum með hluta af hagnaði við sölu ríkisfyrirtækja. Á það bæði við um vegi og upplýsingahraðbrautina.

Þá er rétt að nefna eitt atriði enn sem mun miklu máli skipta um jöfnun lífskjara en það er að fasteignagjöld verða lækkuð á landsbyggðinni. Í gildandi lögum eru fasteignagjöld ekki miðuð við markaðsverð eigna heldur uppreiknað verð eignanna eins og það væri ef eignirnar væru þar sem markaðsverðið er hæst. Þetta þýðir að í öllum sveitarfélögum landsins á höfuðborgarsvæðinu nema fimm er fasteignaskatturinn lagður á annað en raunverulega eign, auk þess sem ekki er tekið tillit til áhvílandi skulda á eigninni. Mér er mjög til efs að það standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar að hafa mismunandi skattlagningu eftir sveitarfélögum á sömu verðmætin.

Sem dæmi má nefna að fasteignaskattur á 10 millj. kr. íbúð í Reykjavík er um 42 þús. kr. á ári en liðlega 112 þús. kr. á ári í tilteknu sveitarfélagi á Vestfjörðum. Munurinn er um 70 þús. kr. á ári eða 167%. Það getur ekki gengið að hafa skatta hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þarf að jafna og í stjórnarsáttmálanum er tekið fram að það verði gert. Vissulega þýðir þetta lægri tekjur sveitarfélaganna og þarf að ætla þeim tekjur á móti lækkuninni eða finna heppilegri skattstofn.

Loks vil ég nefna sjávarútvegsmálin. Þau eru stærsta byggðamálið. Sjávarútvegur er víða á landsbyggðinni helsta atvinnugreinin og því mikið í húfi að útgerð og vinnsla standi traustum fótum. Sjávarplássin urðu til vegna nálægðar við gjöful fiskimið og þau eiga tilveru sína undir því að ávallt sé fyrir hendi aðgangur að miðunum og að skilyrði til fiskvinnslu í landi séu ekki með lögum gerð lakari en til vinnslu úti á sjó.

Algjörlega frjálst framsal veiðiheimilda hefur nýlega ýtt undir mikla erfiðleika í byggðarlögum á Suðurlandi og Austurlandi. Fólk sem starfar í sjávarútvegi á fullan rétt til þess að búa við aukið atvinnuöryggi og á þessu verður að taka við endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða sem fram undan er.

Ég vil minna á að Hæstiréttur jók til muna atvinnuöryggi fólks sem starfar hjá hinu opinbera á höfuðborgarsvæðinu með þeim dómi sínum að óheimilt væri að flytja ríkisstofnanir út á land án sérstakrar lagaheimildar hverju sinni. Alþingi verður að taka mið af þeim viðhorfum um atvinnuöryggi sem liggja til grundvallar umræddum hæstaréttardómi og láta þau koma fram í öðrum atvinnugreinum, líka þeim sem helst eru stundaðar á landsbyggðinni. Það er grundvöllur árangursríkrar byggðastefnu.