Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 10:55:41 (42)

1999-06-10 10:55:41# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[10:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta svar hæstv. forsrh. hafi verið afar vandræðalegar tvær mínútur til þess að viðurkenna að ég hafði rétt fyrir mér, en hæstv. forsrh. átti erfitt með að kyngja því að framsetning hans á málinu hér var ekki formlega rétt. Að sjálfsögðu hefur Alþingi þriðja kostinn, sem er sá að breyta frv. Ég held að við þurfum ekki í sjálfu sér að rökræða það mikið eða velta því fyrir okkur. Segjum að breytingarnar hefðu á fyrra þinginu verið samþykktar með naumum meiri hluta og um þær hefði verið harður ágreiningur. Í kosningunum sem í hönd fóru hefði tekist þannig til að minni hlutinn væri orðinn að meiri hluta og andstaða væri orðin við staðfestingu frv. í óbreyttri mynd. Þá er sá kostur að sjálfsögðu í hendi nýs meiri hluta og nýs þings að gera á því breytingar.

Það er hárrétt hjá hæstv. forsrh. og það er miður að stjórnarskrárbreytingar hafa upp á síðkastið a.m.k. haft tilhneigingu til þess að kafna algjörlega í pólitískum málefnum þegar kosið er til Alþingis og það er eðlilegt vegna þess að það er meingölluð aðferð að bera stjórnarskrárbreytingar undir atkvæði samhliða þingkosningum. Ef það er gert ætti a.m.k. að kjósa í tvennu lagi, annars vegar þingmennina og hins vegar um stjórnarskrárbreytinguna þannig að kjósendur gætu á sjálfstæðan hátt látið álit sitt í ljósi á stjórnarskrárbreytingunni.

Ég held einmitt að sú staðreynd að þessar breytingar á stjórnarskránni voru nánast ekki nefndar á nafn í kosningabaráttunni ætti að vera okkur ábending um að taka það til skoðunar hvort ekki þurfi að breyta fyrirkomulagi staðfestingar á stjórnarskrárbreytingum. Annaðhvort sé kosið um þær alveg sérstaklega í sjálfstæðum kosningum eða að tvöföld kosning verði þegar kosið er til Alþingis, annars vegar séu kosnir framboðslistar og hins vegar sé stjórnarskrárbreytingin sjálf borin sjálfstætt undir þjóðaratkvæði.

Þetta fyrirkomulag er verulega gallað. Ég varð sömuleiðis var við það á fundum um landið, eins og hæstv. forsrh., að menn kvörtuðu undan því hvernig stjórnarskrárbreytingin hvarf út úr umræðunni og einnig hinu að enginn flokkur gerði þetta í raun og veru að sjálfstæðu kosningamáli, nema þá helst við sem stóðum fyrir einhverri gagnrýni á málið.