Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:00:12 (44)

1999-06-10 11:00:12# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Vegna þeirra orðaskipta sem áttu sér stað milli hæstv. forsrh. og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um hina formlegu og þingtæknilegu stöðu málsins vil ég árétta, þó að sönnu kunni að vera býsna freistandi að gera tilraunir til þess að ná fram breytingum á því frv. sem er til staðar með von um að það geti knúið fram nýjar kosningar, að efni þessa máls sé það mikilvægt að jafnvel sú freisting eigi ekki að leiða okkur inn í slíkt völundarhús sem umræður um hugsanlegar breytingar á þessu frv. gætu leitt af sér. Ég tel nefnilega mjög mikilvægt að það frv. sem hér liggur frammi verði afgreitt með góðum meiri hluta og bærilegri sátt.

Ég tek undir með hæstv. forsrh. að á síðasta kjörtímabili tókst þverpólitísk samstaða um að ná fram breytingum í kjördæmamálunum. Það var auðvitað ekki í fyrsta skipti sem menn gerðu atlögu að því verkefni og gerðu tilraunir til að draga úr þeim mismun atkvæða sem hefur verið viðvarandi og raunar vaxandi um langt árabil. Oftar en ekki og raunar alltaf hafa menn hins vegar hrökklast frá viðfangsefninu af ýmsum ástæðum, fyrst og síðast vegna þess að menn hafa ekki komið sér saman um leið að því markmiði. Auðvitað eru fjölmargar leiðir sem hægt er að fara og stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamenn hafa á því margháttaða sýn en í þessari lotu tókst stjórnmálaflokkunum og þingmönnum í góðri sátt að ná um þetta dágóðu samkomulagi. Það var ekki eingöngu í þeirri nefnd sem skipuð var af forsrh. á sínum tíma, sem skipuð var frá öllum þeim flokkum sem þá áttu sæti á Alþingi, heldur rifjaði það líka upp að við meðhöndlun þingsins var lögum samkvæmt skipuð nefnd til að fara ofan í málið og þar á meðal af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi þau mál áðan, sat hann í þeirri nefnd og það var einmitt hlustað á ýmis viðhorf hans til þeirra mála, og þær breytingar sem þá voru gerðar í meðhöndlun þingsins voru m.a. frá honum. Ég vil því undirstrika það alveg klárlega að þó að þingflokkur vinstri grænna hafi ekki verið til á þeim tíma, hét þá þingflokkur óháðra, þá kom hann að þeirri sátt eins og aðrir þingflokkar í hinu háa Alþingi. Menn reyndu fram að síðustu stundu að mæta þeim viðhorfum sem voru sannarlega uppi um einstök atriði. Ég man í augnablikinu eftir tveimur atriðum sem gerð var breyting á við lokaafgreiðslu málsins á vorþinginu sem laut að því að lágmark þingmanna í hverju kjördæmi var hækkað upp í sex og að kjördæmi mættu vera sex til sjö. Þetta voru ábendingar sem komu ekki síst frá þingmönnum dreifbýlisins og var sátt um að mæta þeim viðhorfum til þess að ná um þetta sem víðtækastri sátt.

Það breytir ekki hinu sem ég hygg að okkur sé öllum ljóst að auðvitað eru skiptar skoðanir um ágæti þessarar niðurstöðu. Kannski má orða það svo óvarlega að allir séu jafnóánægðir. Það er kannski styrkur málsins í raun að enginn einn hefur komið öllu sínu fram heldur hafa menn freistað þess að ná um þetta, eins og ég sagði, sátt sem gæti fallið að viðhorfi sem flestra. Auðvitað má ekki leita svo langt að úr þessu verði sá óskapnaður að ógerningur verði að vinna eftir frv., ógerningur verði að kjósa eftir þessari nýju kjördæmaskipan. Það held ég að hafi hins vegar ekki gerst því að það voru nokkur meginatriði sem lágu til grundvallar þegar farið var af stað og þau meginatriði er að finna sem hinn rauða þráð í því frv. sem hér er til afgreiðslu. Það eru ákaflega einföld og skýr atriði og ég ætla að renna yfir þau.

Í fyrsta lagi þetta sem er kjarni málsins. Allir stjórnmálaflokkar um langt árabil hafa ályktað um það á landsfundum sínum eða æðstu fundum sínum, flokksþingum eða hvað það nú heitir, um að nauðsynlegt sé að draga úr misvægi atkvæða. Ég hef ekki heyrt þann þingmann og ekki heyrt þann stjórnmálamann raunar nú um langt árabil sem hefur í raun mótmælt því markmiði, og með það að leiðarljósi var farið í þessa vinnu. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki hvað nýkjörinn formaður þingflokks Framsfl. sagði í frammíkalli. (Gripið fram í.) Tony Blair var ekki á Alþingi Íslendinga síðast þegar ég vissi. Það er fróðlegt að heyra um viðhorf hinnar nýju forustu þingflokks Framsfl. og ég vænti þess að fráfarandi formaður þingflokksins upplýsi okkur um hvort þessi undarlegi tónn í hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sé hinn nýi andi sem er að finna í þingflokki Framsfl. En við skulum halda okkur við meginatriði málsins en láta ekki orðagjálfur (Forseti hringir.) einstakra þingmanna trufla meginatriði.

Ég var að rifja upp að stjórnmálaflokkarnir allir voru sammála um að að þessu markmiði ætti að vinna. Í öðru lagi hafa allir verið sammála um að það kosningakerfi sem við höfum búið við og bjuggum við í síðustu kosningum sé þannig úr garði gert að ekki verði við unað. Þá er ég að vísa sérstaklega til þess að það er ógagnsætt og raunar óskiljanlegt með öllu. Menn rifja upp aðfaranótt 9. maí hvernig þingmenn duttu inn og út alla nóttina og er ekkert um það að segja en það sem var verst, og eins og fréttamenn lýstu því, var að það fór ákveðin rúlletta af stað, einhver óskiljanleg rúlletta sem ekkert samhengi var í og enga rökhyggju var hægt að finna í. Með öðrum orðum þetta er eins og lottónætur. Því er breytt í þessu frv. Það er gagnsætt og menn sjá og skynja og það er samhengi milli úrslita í einstökum kjördæmum og þess fjölda þingmanna sem þaðan kemur og hvaðan þeir koma.

Nú er það þannig eins og við vitum að í raun eru utankjörstaðaatkvæði á Norðurl. v. eða Norðurl. e. að hrinda mönnum inn og út á Reykjanesi eða í Reykjavík. Auðvitað er ekkert samhengi í þessu. Því er breytt í þessu frv. Mjög verulega er dregið úr þörfinni fyrir jöfnunarsæti og sú nálgun, sem er að finna í þeim kosningalögum sem með þessu fylgja er að vísu ekki til afgreiðslu á þessum tímapunkti, og ég mun ræða örlítið á eftir, gerir það að verkum að jafnræði milli flokkanna í einstökum kjördæmum og tiltölulega góður jöfnuður í einstökum kjördæmum og minni þörf fyrir jöfnunarsæti milli kjördæma er til staðar. Með öðrum orðum skila kosningaúrslit þeim þingmönnum frá þeim flokkum á þing sem kosningaúrslit segja til um. Punktur, basta. Þetta er feikilega mikilvægur þáttur og við skulum ekki gera lítið úr honum.

Í þessu sambandi náum við jöfnuði milli stjórnmálaflokka og er það lykilatriði sem menn hafa rætt fram og til baka og geta haft ýmsar skoðanir á að þingmannafjöldi verði jafn eftir, 63 þingmenn. Í öllu þessu starfi var ákaflega freistandi að leggja í fjölgun þingmanna til þess að verja, skulum við segja, ýmis kjördæmi úti um land við þeirri fækkun sem verður óhjákvæmilega þegar dregið er úr þessu misvægi. Sú umræða fór fram en fyrir henni var ekki almennur stuðningur. Einnig er ljóst að ýmsir þingmenn, og þar á meðal ég, hafa horft til þess að unnt væri að fækka þingmönnum. Ég hef látið mér detta í hug talan 43 og ég hef prívat og persónulega sagt í samhengi við að eðlilegt væri að hæstv. ráðherrar sætu þá ekki á þingi sem slíkir, þeir afsöluðu sér þingmennsku þegar þeir tækju sæti á ráðherrastólum en að þingmönnum yrði hins vegar fækkað. En þetta eru allt útúrdúrar og eiga kannski ekki við hér. Ég vildi hins vegar bara sem dæmi um það að ég, eins og allir aðrir þó ég sé mjög ákveðinn stuðningsmaður þessa frv., hef mínar prívatskoðanir á því hvernig ég vildi sjá þessa mynd í einhverri skemmri eða lengri framtíð. Ég vil líka sjá landið eitt kjördæmi og vafalaust eru menn hér inni sem vilja sjá einmenningskjördæmi þannig að viðhorfin spanna allt þetta litróf. En það er ekki viðfangsefni dagsins.

Þeir flokkar sem standa að Samfylkingunni, Alþfl., Alþb., Þjóðvaki og Kvennalisti, studdu þetta mál, stóðu að þeirri niðurstöðu sem við erum að fjalla um og munu gera það áfram. Ég vil halda því ákveðið til haga. Það er hins vegar þannig í þingflokki Samfylkingarinnar eins og var í þingflokkum stjórnarflokkanna við endanlega afgreiðslu málsins sl. vor, og ég vænti að kannski litlar breytingar hafi orðið á, að einstakir þingmenn kunni að hafa önnur viðhorf til málsins og sitji hjá eða greiði atkvæði eftir efnum og ástæðum en mikill meiri hluti þingflokksins stendur að þessu máli og mun hvergi hvika í því. Hins vegar, virðulegi forseti, hefði verið heppilegra að ljúka málinu í einni lotu. Þá á ég við að samþykkja hér kosningalög sem við eiga. Hæstv. forsrh. nefndi það í framsöguræðu sinni að hann legði til að skipuð yrði þverpólitísk nefnd þar sem farið yrði ofan í kosningalögin því að við erum raunar með tvenns konar frv. til kosningalaga tilbúin í þinginu. Annars vegar frv. dómsmrh. þar sem gerðar voru ýmsar smærri og stærri tæknilegar breytingar á núgildandi kosningalögum, t.d. hvað varðar utankjörstaðaatkvæði og fleira og einnig frumvarpsdrög frá þeirri nefnd sem stóð að skýrslugerð og tillögugerð í kjördæmamálinu, stjórnarskrárþætti þess, og er raunar fylgifrumvarp við þessa stjórnarskrárbreytingu. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni og ég geri engar athugasemdir við það og tel skynsamlegt í ljósi reynslunnar að allir flokkar komi að því verki og undirbúi vel fyrir haustið því að sannarlega verða einhver átök um það. Ég held að annað sé óhjákvæmilegt en horfast í augu við það.

Svo ég velti því aðeins fyrir mér þingtæknilega þá spyr maður sig í hvaða stöðu málið er þegar Alþingi hefur afgreitt það, væntanlega í miðri næstu viku, en engin kosningalög eru til staðar sem hægt er að búa við og við eiga? Maður veltir til að mynda fyrir sér þingrofsréttinum í því samhengi, hvort hann sé ekki meira og minna óvirkur við þær aðstæður. Maður gæti ímyndað sér að ef til kæmi að ríkisstjórnin ákvæði að efna til nýrra kosninga gæti hún beitt bráðabirgðalagarétti til þess að búa út kosningalög. Mér finnst hins vegar mjög ótrúlegt að til þess sé gripið í jafnumdeildu máli þar sem ýmsar skoðanir eru uppi þannig að málið er því miður í hálfgerðri sjálfheldu, a.m.k. fram að haustdögum þar til Alþingi Íslendinga hefur haft tækifæri til að afgreiða þau kosningalög sem verða að fylgja stjórnarskrárbreytingunni. Þetta er galli á málinu og ég hefði talið raunar að Alþingi Íslendinga hefði haft tíma og ráðrúm til þess að fara í þessa vinnu núna á næstu dögum og vikum og ljúka henni. Mér finnst óþægilegt að skilja málið eftir svona hálfkarað. En svona er það og ég hygg að ekkert sé við því að gera en hvet til þess að sú nefnd sem hæstv. forsrh. nefndi verði skipuð hið fyrsta og vindi sér til verkanna þannig að það geti verið eitt af fyrstu málum haustþings að afgreiða kosningalögin sem verða að vera til staðar þannig að málið sé heildstætt og hægt að vinna eftir því.

Ég ætla ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta, virðulegi forseti. Ég vil þó ekki láta hjá líða að nefna það vegna þess að í afgreiðslu um þetta mál á vorþingi varð ég þess var að ákveðinn kurr var í þingmönnum Reykvíkinga um skiptingu höfuðborgarinnar í tvö kjördæmi sem er undirliggjandi í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga. Þó að það þurfi ekki að vera þannig strangt til tekið þá er andi þessara stjórnarskipunarlaga þannig að kjördæmin verði sex, tvö í Reykjavík, eitt á kraganum í kringum Reykjavík og þrjú úti um land.

[11:15]

Ég vek athygli á því að ef Reykjavík verður ekki skipt þá breytist meginkjarni málsins. Jöfnunarsætamálin breytast mjög verulega. Gagnsæið sem ég nefndi áðan verður ekki hið sama og áður og jafnvel ætti þörfin fyrir jöfnunarsætið að aukast. Hinn náttúrulegi þröskuldur --- við erum með 5% þröskuld og síðan svokallaðan ,,náttúrulegan þröskuld`` --- verður í kringum 3% í Reykjavík ef Reykjavík yrði eitt kjördæmi. Hann verður í kringum 20% víða um land og auðvitað væri það algjört stílbrot á þeim anda sem hér er að finna varðandi umrædda þröskulda að hér væru 22 þingmenn alls, þ.e. að meðtöldum jöfnunarsætum og að náttúrulegur þröskuldur gæti við ákveðnar aðstæður farið niður í 3--4%.

Ég vil líka segja, herra forseti, að þetta mál er erfitt á marga lund. Það er erfitt af tilfinningalegum ástæðum. Það er erfitt vegna þess að menn hafa vanist því að kjördæmin séu átta eins og við þekkjum öll. Nú stendur til að brjóta þetta upp í öllum kjördæmum. Á Vesturlandi er slegið saman þremur kjördæmum, á Norðurlandi eystra og Austurlandi er slegið saman tveimur kjördæmum og hugsanlega mun Austurlandi skipt, Reykjanesi var skipt og því bætt við Suðurland. Menn hafa horft til þess og maður heyrir það gjarnan að öllu eigi að breyta allt í kringum landið. Það eigi að stækka kjördæmin svo mikið að það sé nánast vonlaust að ná yfir þau, en í Reykjavík eigi bara að hafa þetta eins og vant er.

Því vil ég beina því sérstaklega til þingmanna Reykvíkinga að þeir sýni ,,fórnarlund`` í þessu máli einnig og leggi eitthvað af mörkum svo heildstæð og góð sátt megi nást. Við eigum enn möguleika á því í kosningalagakerfinu að ákvarða hvernig þessi skipting verður, ekki eingöngu í Reykjavík heldur á öllu landinu. Menn hafa til að mynda með réttu bent á það á síðustu mánuðum að skiptingin norður/suður hér í Reykjavík væri sennilega skynsamlegri en skiptingin austur/vestur, af ýmsum orsökum sem ég hirði ekki um að tíunda og telja upp. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem vert er að hafa í huga og ég vil beina til þingmanna, nýrra og gamalla, að fjallað verði um.

Að lyktum: Það versta í þessu kjördæmamáli allar götur er að ekkert hefur gerst. Það er hin auðvelda lending í þessu máli og hefur verið um árabil. Menn hafa talað sig í þrot og ekkert hefur gerst. Við erum sem betur fer að komast yfir þennan þröskuld núna. Loks er eitthvað að gerast og það er heildstæð og góð hugsun í þessu frv. sem nær ýmsum þeim markmiðum sem allir stjórnmálaflokkar hafa viljað stefna að. Þess vegna undirstrika ég mikilvægi þess, herra forseti, að við ræðum hispurslaust og ítarlega, bæði í almennri umræðu og í nefndarstarfi. Mikilvægt er að við berum gæfu til að fylgja því í heila höfn á næstu dögum þannig að okkur verði ekki að vanbúnaði að vinda okkur í kosningar hvenær sem er undir nýjum formerkjum