Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:23:24 (48)

1999-06-10 11:23:24# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:23]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kem upp í samræmi við þá röð sem þingmenn óskuðu eftir orðinu.

(Forseti (HBl): Hv. þm., það er misskilningur. Forseti veitti því athygli hvernig hv. þm. báðu um orðið. En hv. þm. hafa óskað eftir því að breyta um röð og ég hef orðið við því.)

Þar var ekki rétt tekið eftir hjá hæstv. forseta og ég ætla að vona að ekki verði framhald á þessu háttalagi hæstv. forseta hér í stjórn þingsins.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að hefja mál mitt á því að fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh. þar sem hann býður fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til þverpólitísks samstarfs um endurskoðun á frv. um kosningalög. Ég sagðist hafa ætlað að hefja mál mitt á þessu en mér fannst hæstv. forsrh. draga í land í þeim orðaskiptum sem hann átti hér undir lokin við hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson. Þar kvaðst hæstv. forsrh. bundinn af því að menn héldu sig við tiltekið fyrirkomulag, og vísa ég þar til skiptingar Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Sjálfum finnst mér að menn eigi að vera bundnir við það eitt að finna þá lausn sem víðtæk sátt er um.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að styrkur frv. væri sá að allir væru jafnóánægðir með það. Ég held að það séu orð að sönnu að því leyti að yfirleitt eru hv. þingmenn og almenningur í landinu óánægðir með þær breytingar sem hér eru lagðar til. Menn eru misóánægðir en óánægja er ríkjandi með þetta fyrirkomulag. Ég hefði haldið að verkefni okkar væri að snúa þessu við og finna niðurstöðu sem menn væru jafnánægðir með en ekki jafnóánægðir með.

Hér erum við að fjalla um breytingu á stjórnarskrá Íslands. Hér er einkum tekið á tveimur þáttum. Það er verið að fækka kjördæmum í landinu. Núna eru þau átta talsins en verða, ef þetta nær fram að ganga, sex eða sjö, fæst sex, flest sjö. Þetta er önnur breytingin sem verið er að gera.

Í annan stað er verið að breyta aðkomunni að Alþingi. Í 4. málslið 1. gr. frv. segir:

,,Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.``

Fimm af hundraði, þetta er lykiltala. Fimm af hundraði atkvæða munu veita aðgang að Alþingi. Þetta er sú regla sem við komum til með að búa við, að stjórnmálasamtök þurfa að fá 5% til að fá fulltrúa kjörna á þing.

Hvers vegna er ráðist í þessar breytingar? Það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. og hv. þm., fulltrúa Samfylkingarinnar sem hér talaði fyrir stundu. Jöfnun atkvæðisréttar er meginástæða þess að ráðist er í þessar breytingar. Menn vilja jafna atkvæðisréttinn.

Það eru orð að sönnu að um það hefur verið óánægja í landinu. Menn hafa vakið athygli á því að Vestfirðingar hafa eitt atkvæði á móti hverjum fjórum á Reykjanesi. Þarna er misvægið og misréttið, finnst mörgum, mest og verst. Menn vilja jafna þetta. Þeir líta svo á að atkvæði Reyknesinga falli í reynd dauð, komi ekki að sömu notum og atkvæði Vestfirðingsins.

En þá spyr ég á móti: Hve mörg atkvæði falla dauð við 5% þröskuldinn sem verið er að reisa hér við dyr Alþingis? Hvað eru margir kjósendur á kjörskrá? Þeir eru rúmlega 201 þús. talsins. 5% af því eru 10 þús. atkvæði, 10 þús. kjósendur. Og 10 þús. atkvæði falla dauð nái þessi breyting fram að ganga.

Þetta er nokkuð sem að sjálfsögðu hefur verið rætt í þjóðþingum annarra landa, hvar á að reisa þröskulda af þessu tagi. Danir eru með þröskuld sem nemur 2%, Svíar eru með 4%. Við ætlum að reisa hér þröskuld við Alþingi Íslendinga upp á 5% og ákveða að 10 þús. atkvæði falli dauð. Ég vek athygli á þessu í ljósi þeirrar vandlætingar sem oft kemur fram í máli manna þegar vísað er til misvægis atkvæða á milli þéttbýlis og landsbyggðar.

[11:30]

Það fyrirkomulag sem við búum við núna hefur ýmsa mikilvæga kosti í för með sér. Við erum með mörg kjördæmi og tiltölulega smá. Kostirnir eru þeir að efla og treysta tengsl þingmanna við kjördæmi sitt. Þetta er að mínum dómi mjög mikilvægt fyrir kjördæmi sem eru fjarri þéttbýlissvæðinu hér. Ég vísa þar og kannski ekki síst til Vestfjarða. Það sem menn hafa talað um sem kjördæmapot, oft með mikilli fyrirlitningu, legg ég svolítið annan skilning í þegar við höfum góða sveit einstaklinga, þingmanna sem sinna vel tilteknum landshluta sem er fjarri stjórnsýslunni hér í þéttbýlinu. Þetta hefur ýmsa kosti í för með sér.

Með því að stækka kjördæmin er dregið úr þeim kostum. Og með þessum breytingum líka erum við að fjölga þingmönnum á þéttbýlissvæðinu á kostnað hinna dreifðu byggða. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði hér úr ræðustól að allir væru á því að jafna ætti vægi atkvæða. Það eru ýmsir sem hafa sett fram efasemdir um það og ég er einn af þeim. Ég er þingmaður Reykv. en ég hef engu að síður sett fram ákveðnar efasemdir vegna þess að ég vil jafna aðstöðu einstaklinganna og byggðarlaganna í landinu. Það er mikill aðstöðumunur milli þeirra sem sitja á þessu svæði í nálægð við stjórnsýsluna og hinna sem eru fjarri henni. Það er mikill aðstöðumunur sem felst í því og ég vil þess vegna skoða þessi mál heildstætt. Ég hef viljað og vil, vegna þess að ég vil leita lausna sem allir eru jafnánægðir með en ekki jafnóánægðir eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson virðist vilja, skoða miklu róttækari og stórstígari breytingar en eru hér á borðinu. Ef við ætlum að finna leið sem jafnar algerlega vægi atkvæða, þá eigum við að taka stærra skref. Við eigum núna að gera landið að einu kjördæmi en jafnframt færa vald til einstakra byggðarlaga eða landshluta, hugsanlega með einhvers konar fylkjafyrirkomulagi, færa þangað vald til að ráðstafa fjármunum og ráða ráðum. Gera landið að einu kjördæmi í stað þess að búa til einhverja hallærislausn eins og hér er á borði sem allir eru jafnóánægðir með og menn tala um sem helsta kost og styrk þessara breytinga að allir skulu vera óánægðir með þær.

Samræmist það virðingu Alþingis að ráðast í breytingar sem menn viðurkenna hér að allir séu óánægðir með? Hæstv. forsrh. þurfti ekki að fara út fyrir Reykjavík, hann þurfti ekki að ferðast um landið til að átta sig á því að mikil óánægja væri með þessar breytingar því að ég hygg að í Reykjavík séu þær einna mestar. Menn eiga mjög erfitt með að átta sig á og skilja röksemdina að baki því að skipta Reykjavík upp í tvær einingar. Að sjálfsögðu skilja menn að hér búa tölfræðileg rök að baki en við erum að fjalla um það hvernig við skiptum landinu upp í pólitískar einingar. Það er það sem umræðan snýst um og á þann hátt eigum við að fjalla um málið.

Þess vegna mæli ég með því, hæstv. forsrh., að við göngum ekki frá þessum breytingum á þann hátt sem hér er lagt til heldur íhugum aðrar og róttækari breytingar sem sátt getur myndast um. Þegar við göngum til þess að skoða kosningalögin, eins og hæstv. forsrh. boðaði, að menn mundu setjast að samningaborði úr öllum þingflokkum, þá eigum við að reyna að ná niðurstöðu og lausn í þeim anda að við séum ekki bundin af neinu öðru en því einu að fá niðurstöðu sem sátt er um og menn telja skynsemi í.