Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:41:10 (52)

1999-06-10 11:41:10# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef sannfærst um það núna að mikið er órætt í þessu máli og óráðlegt að hlaupa í þessar breytingar við slíkar aðstæður. Menn eru að ræða og færa það fram sem rök í máli hvort það sé til bóta eða ills að hafa marga eða fáa flokka á þingi. Ég man eftir einu landi þar sem var bara einn flokkur. Það var í Sovétríkjunum. Það þótti ekki neitt sérstaklega gott að hafa einn eða mjög fáa flokka og ég byði nú ekki í það ef þeir væru hér einir á Alþingi, Sjálfstfl. og Framsfl. og jafnvel þó Samfylkingin kæmi þar líka við sögu. Ég held að það sé almennt til bóta að hér skuli vera róttækur flokkur, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, til að halda mönnum við efnið í umhverfismálum, í utanríkismálum og varðandi einkavæðinguna. Ég held að það sé til góðs og til bóta, enda var tíundi hver kjósandi í landinu á því máli. (Gripið fram í.) Ég sé hins vegar að fulltrúar Samfylkingar og Sjálfstfl. taka að ókyrrast og telja það til ills að fá einhverja kröftuga málefnalega umræðu inn í þingið. Þetta hendir menn þegar þeir ánetjast valdastjórnmálum og fjarlægjast hugsjónir sínar.