Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:05:09 (58)

1999-06-10 12:05:09# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:05]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera eitt af efnisatriðum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að umræðuefni en það er skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Ég skil fyllilega þau rök sem hv. þm. færir fyrir skiptingu Reykjavíkur í norður/suður, þ.e. skiptingu nokkurn veginn um Miklubraut og Hringbraut. Ég átta mig á því að með því fæst blanda og menn væru þar að leita eftir því að vöxtur borgarinnar skilaði sér til beggja kjördæma. Ég held þó að hin lausnin sé heppilegri og eðlilegri, að skipta Reykjavík í vestur/austur.

Sé horft til svipaðra raka og þegar landsbyggðinni er skipt í kjördæmi þá leitast menn við að fella í eitt kjördæmi þær byggðir sem eiga eitthvað sammerkt. Slík rök hljóta að eiga við um Reykjavík.

Ég vil nefna eitt annað atriði. Ef við horfum til hverfis eins og Vesturbæjarins, við gætum fundið fleiri dæmi samsvarandi, þá sjáum við að með því að skipta eftir Hringbrautinni eru klofin mörg þau félagskerfi sem eru grundvallaratriði í hverfum borgarinnar. Þar vil ég nefna sóknir, skólahverfi, þar sem skólarnir eru að sjálfsögðu mikið atriði í störfum þingmannanna, íþróttastarfsemina og annað því um líkt. Því mæli ég eindregið með því að Reykjavík verði skipt í vestur/austur en ekki norður/suður enda sjáum við að þegar menn fara að teygja þessa línu til austurs til að elta vöxtinn í borginni, þá mun hann ekki fylgja þessari götu heldur sveigja til norðurs, þvert upp í gegnum Grafarvogshverfið og kljúfa það eins og önnur hverfi sem ég gat um.