Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:07:25 (59)

1999-06-10 12:07:25# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:07]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að þau mál sem hér voru talin upp eru að meira eða minna leyti sveitarstjórnarmál og tengjast því ekki alveg skiptingu landsins upp í kjördæmi. Við megum ekki rugla því saman. Það verða áfram starfandi sveitarstjórnir í þeim sveitarstjórnum sem nú eru til staðar í landinu.

Ég er hins vegar ekki sammála því sem kom fram í máli hv. þm., að rétt sé að hafa sem líkasta hópa saman í hverju kjördæmi og skipta mönnum þannig. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi allir eitthvað sammerkt. Við búum öll í þessu landi og ég tel mjög mikilvægt að við höfum hagsmuni alls landsins að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Þvert á móti tel ég einmitt gott að hafa blöndu, ekki eitt kjördæmi í Reykjavík með rótgrónu hverfunum innbyrðis og síðan nýjustu hverfin öll í einu kjördæmi. Ég tel að slík skipting geti þvert á móti leitt til kjördæmapots sem ég er ekki fylgjandi. Ég held að það sé mun æskilegra að skipta þessu upp eftir norður/suður þannig að við hefðum tvö ámóta kjördæmi sem áfram yrðu innan sömu sveitarstjórnarinnar eftir sem áður. Mál eins og skólamál verða að sjálfsögðu áfram á þeirra könnu.