Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:10:46 (61)

1999-06-10 12:10:46# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki að með þessari breytingu verði hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sviptur sambandi sínu við KR-inga og Hagaskólastjórnendur eða nemendur en geri ráð fyrir að það nána samband geti ríkt áfram jafnvel þó að einhver hluti þess ágæta fólks lenti í öðru kjördæmi en hv. þm. mundi tilheyra. Ég held einmitt að við eigum ekki að horfa á málið í þessu ljósi. Ég ítreka að við eigum að bera fyrir brjósti hagsmuni landsins alls og landsmanna allra. Við eigum ekki aðeins að horfa á þau vandamál sem rísa í eigin hverfi eða kjördæmi. Ég held að félagslegu hverfin, sem hv. þm. minntist hér á, skiptist ekki endilega upp eftir annaðhvort Miklubraut eða Skeiðarvogi. Ég held því, með fullri virðingu fyrir þessum rökum, að þetta eigi ekki að þurfa að breyta neinu fyrir hv. þm. eða aðra þá sem hér sitja.