Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:36:22 (65)

1999-06-10 12:36:22# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Annað dæmi vil ég nefna úr ræðu hv. þm. sem varðaði stjórnarskrárbreytingar, þ.e. hvernig þær ættu að fara fram. Ég tel að til álita komi að breyta því þannig að ekki verði skylt að rjúfa þing innan 45 daga, geri menn stjórnarskrárbreytingar.

Þetta leiðir til þess í raunveruleikanum að menn geyma allar slíkar vangaveltur í fjögur ár til að geta látið þær stemma við kosningarnar. Þetta tel ég óheppilegt og komi jafnvel í veg fyrir að menn taki á ýmsum málum sem menn mundu kannski taka á á miðju kjörtímabili, en ,,leggja ekki í`` að taka á rétt fyrir kosningar eða þykir það a.m.k. ekki hentugt.

Annað vil ég líka nefna. Við gerum breytingar á stjórnarskrá en við hugsum ekki dæmið til enda. Við köllum til að mynda þessi vorþing saman eftir kosningar, innan tíu vikna. Það leiðir til þess, sem ég held að enginn hafi hugsað, að menn telja nauðsynlegt að afgreiða stjórnarskrárbreytingar á þessu stutta vorþingi en fara ekki með þær yfir á haustið. Fræðimenn telja jafnvel að ef við klárum ekki þessa stjórnarskrárbreytingu núna þá kunni hún að vera fallin. Þetta eru ekki ótvíræð ákvæði en fræðimenn eru þó frekar þessarar skoðunar. Þá voru þeir að vísu að fjalla um fyrsta þing eftir kosningar sem byrjaði 1. október og stóð yfir í sex eða sjö mánuði þannig að menn höfðu meira svigrúm. Ólafur Jóhannesson telur til að mynda að afgreiði menn ekki frv. á því þingi sé það fallið. Og hann rökstyður það: Hvers vegna það óðagot að boða strax til kosninga innan 45 daga ef menn geta síðan dundað sér í fjögur ár við að klára frv.? Þetta eru rök sem ganga upp. Ég hygg að hann mundi kannski hafa verið annarrar skoðunar ef hann hefði horft til vorþings eins og þessa. En ég fyrir mitt leyti þori ekki að taka áhættuna á því að afgreiða ekki málið hér og nú. Mér finnst stundum menn gera slíkar breytingar eins og að lögskylda þessi vorþing án þess að hugsa hvaða afleiðingar það hefur.

Ég bið hv. málshefjanda afsökunar á að vera að tala um þetta í tveimur pörtum en tíminn er svona.