Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 13:55:14 (70)

1999-06-10 13:55:14# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[13:55]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil gera örstuttar athugasemdir við frv. sem hér liggur frammi, frv. til stjórnarskipunarlaga. Ég tek undir það sem Sverrir Hermannsson sagði áðan en ég geri mér fulla grein fyrir því að málið er nánast afgreitt eða hefur fengið þá meðferð.

Ég vil beina máli mínu til hv. þm. Ég held að nálgun þessa máls hafi verið á alröngum forsendum. Ég finn á öllum mínum beinum að nálgunin er út frá vægi flokkanna og hún er út frá þeirri pressu sem er á höfuðborgarsvæðinu varðandi jöfnun á vægi atkvæða. Jöfnun atkvæðavægis er ekkert aðalmál í hugum okkar sem búum úti á landi. Til þess að jafna vægi atkvæða þarf fyrst, hv. þm. allir, að taka á stjórnsýslumálum sem stuðla að ójöfnuði í landinu. Það væri grunnurinn að því að byggja upp lýðræðislegt þjóðfélag.

Við vitum öll að Ísland er miðstýrt samfélag. Við vitum öll að hér er samþjöppun valds og það á sér sögulegar forsendur. Sennilega er aðalástæðan sú að við tókum kanselíið, Íslandsráðuneytið, heim til Reykjavíkur á sínum tíma. Hér er öllum völdum og stjórnsýslu þjappað saman. Hvers vegna í ósköpunum, ef fólki er svona mikilvægt að gæta réttlætis og lýðræðis og jöfnunar á vægi atkvæða, er ekki samhliða farið í þá vinnu að skoða hið miðstýrða kerfi? Hér er þingið. Hér er allt framkvæmdarvaldið í öllu sínu veldi. Hér eru stofnanir ríkisins, skólarnir, sjúkrahúsin o.s.frv. að langmestu leyti og þetta eru gríðarleg forréttindi. Þess vegna er það alrangt í mínum huga, og ég vil að það komi fram hér, að jöfnun á vægi atkvæða sé eitthvert aðalmál fyrir fólk t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel svo ekki vera vegna þess að í krafti stjórnskipunar Íslands, miðstýringarinnar og stofnananna hér hefur þetta svæði þvílíkt ægivald yfir önnur á landinu. Menn ættu að hafa það í huga þegar talað er um réttindi fólks.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta frv. verður samþykkt og mun leggja á það höfuðáherslu í framhaldinu að litið verði á þau mál sem lúta að dreifingu valds og möguleikum landsbyggðarinnar á að taka yfir og stjórna fleiri verkefnum. Ég tel það höfuðverkefni og mun á haustþingi leggja áherslu á að staðið verði við áform um að vinna þessa grunnvinnu í stjórnskipun og stjórnsýslu sem ég tel að þingmenn hefðu átt að einhenda sér í að vinna áður en menn fóru að gæla við að jafna vægi atkvæða. Jöfnun á vægi atkvæða hefði fremur átt að vera eftirleikur og ég vil bara árétta það.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að taka lengri tíma. Ég vildi bara árétta þessi mál. Ég tel að málið hafi borið að á röngum forsendum og ég tel óheppilegt að í allri þessari vinnu hafa þingmenn verið allt of uppteknir við málið út frá eigin flokki og út frá hugsuninni um völd án þess að gera uppskurð eða hugsa stjórnsýsluna og stjórnskipan Íslands upp á nýtt með lýðræði að leiðarljósi. Okkur er mörgum mjög tamt og einmitt sumum sem ég hef hlustað á í morgun í umræðunni, að hugsa um völdin miðað við það kerfi sem við búum við í dag en fara síður í vinnu og bollaleggingar um nýjar, bættar og betri leikreglur. Ég árétta eina ferðina enn, áður en ég stíg úr ræðustóli, að jöfnun á vægi atkvæða er ekki sá lýðræðislegi sigur sem margir vilja vera láta. Það ætti að fara ofan í stjórnkerfið allt og þar hefði átt að byrja.