Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:15:45 (72)

1999-06-10 14:15:45# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:15]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að bregðast við ræðu hv. þm. m.a. vegna þess að ég sat í þeirri nefnd sem undirbjó þetta mál og náði niðurstöðu sem var málamiðlun eins og hér hefur margoft komið fram og tel ég að við getum öll unað bærilega við þá málamiðlun sem þarna náðist.

Hv. þm. hélt því fram að ekki hefði verið farið yfir möguleika þess að gera landið að einu kjördæmi. Það er ekki rétt. Í nefndinni var að sjálfsögðu farið yfir þann möguleika eins og aðra en eins og komið hefur fram hjá hæstv. forsrh. þá er það m.a. ekki vilji stjórnarflokkanna að gera landið að einu kjördæmi. Þar með var sú hugmynd úr leik.

Síðan er það næsta mál. Hvernig eigum við að fara að því að jafna vægi atkvæða miðað við núverandi kjördæmaskipan? Það lá ljóst fyrir að þingmenn hvers kjördæmis yrðu mjög fáir miðað við það að ganga þetta langt í því að jafna vægið og færu alveg niður í þrjá og jafnvel tvo þingmenn í kjördæmi. Þá voru það minni flokkarnir, sem á því kjörtímabili voru Alþfl., Alþb. og Kvennalisti sem ekki vildu það. Þeir vildu ekki svona fámenn kjördæmi, kannski skiljanlega vegna þess að þá sáu þeir fram á að þeir mundu ekki eiga þar þingmenn og atkvæði mundu safnast upp og leiða til jöfnunarþingmanna á Reykjavíkursvæðinu. Þannig varð þessi hugmynd til í stórum dráttum og hv. þm. sem hér talaði átti raunar, miðað við það að vera nú kominn í þingflokk Samfylkingar, þrjá fulltrúa í þeirri nefnd sem komst að þessari niðurstöðu.