Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:17:55 (73)

1999-06-10 14:17:55# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér var kunnugt um það og ég nefndi það reyndar í minni ræðu að fram hefðu farið umræður í lokuðum hópum um að gera landið að einu kjördæmi og því hefði verið hafnað. Hv. þm. sem talaði áðan upplýsti að það hefði reyndar gerst. Ég skil það þá þannig að það hafi verið afgreitt milli stjórnarflokkanna að sú leið kæmi ekki til greina. Það segir mér að þetta mál hefur verið í þröngum farvegi en ekki víðum og opnum farvegi sem mál eins og þetta þyrfti að vera í þannig þingmenn gætu unnið að því helst algerlega lausir undan flokksböndunum. Það er miður. Þess vegna held ég mig við það sem ég hef áður sagt að möguleikinn á að gera landið að einu kjördæmi hefur engan veginn fengið þá umgjörð og umræðu sem hann hefði þurft að fá, bæði í sölum Alþingis og úti í þjóðfélaginu.

Ég segi hins vegar að það að ætla að nota það fyrirkomulag sem verið hefur fram að þessu, þau kjördæmi sem voru með fækkun þingmanna, í þeim tilgangi að ætla jafna vægi atkvæða, var náttúrlega algerlega út í hött. Það var vonlaust. Maður jafnar ekki vægi atkvæða með því að taka atkvæðisréttinn algerlega af sumum eins og gerist með því að vera með svona fáa þingmenn í kjördæmum, við skulum segjum þrjá. Það þýðir að atkvæði falla dauð í stórum stíl hjá þeim sem ekki ná fulltrúum í kjördæmi. Sú leið var því ófær og eðlilegt að menn höfnuðu henni.