Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:37:46 (78)

1999-06-10 14:37:46# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:37]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er margt við ræðuhöld hv. þm. sem ástæða væri til að gera að umfjöllunarefni og gera athugasemdir við, ýmsar fullyrðingar sem þar hafa komið fram. Ég vildi þó aðeins andmæla einni fullyrðingu þingmannsins sem mér finnst vera það alvarleg að nauðsynlegt sé að leiðrétta hana. Hún var á þá lund að núgildandi fyrirkomulag við kosningar tryggði ekki jafnvægi á milli flokka. Það er alrangt.

Fyrirkomulagið sem tekið var upp 1987, í kjölfar stjórnarskrárbreytingarinnar 1983, var einmitt til að tryggja jöfnuð á milli flokka og gerði það. Svo hefur verið í öllum kosningum þar sem það hefur verið notað. Kjarninn í atkvæðisréttinum er að sjónarmiðin hafi sama vægi. Að þeir sem styðja eitt sjónarmið megi treysta því að atkvæði greitt því hafi sama vægi og atkvæði greitt öðru sjónarmiði.

Hins vegar hefur hv. þm. kosið að líta fram hjá þessu grundvallaratriði og einblínt á búsetuna. Hv. þm. álítur að það skipti höfuðmáli hvernig búsetu þeirra þingmanna er háttað sem valdir eru fyrir tiltekinn stjórnmálaflokk eða tiltekið sjónarmið. Þannig er hann í raun að lýsa yfir andstöðu við það hvernig þingmenn Alþfl. hafi verið valdir eftir þessu kerfi frá 1987.

Alþfl. hefði ekki fengið fleiri þingmenn þótt notað væri það kerfi sem hann leggur til að tekið verði upp núna. Hann hefði í öllum kosningum fengið jafnmarga þingmenn og hann hefur fengið. Hann hefði hins vegar fengið færri þingmenn á Vestfjörðum, svo dæmi sé tekið, en fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Mér því finnst ómaklega vegið að formanni Alþfl. í þessari röksemdafærslu þingmannsins.