Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:45:01 (81)

1999-06-10 14:45:01# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:45]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sakna þess raunar að í þessu andvari skyldi nýkjörinn formaður þingflokks framsóknarmanna ekki taka af öll tvímæli um afstöðu þingflokksins til málsins. Ég vona að þögn hans þýði að hún hafi ekki breyst.

Fróðlegt er að fylgjast með því að hv. þm. horfir mjög til Bretlands og jafnaðarmanna þar í landi. Ég vil hins vegar vekja athygli hans á því að fyrir frumkvæði Verkamannaflokksins og Tonys Blair hefur nefnd verið að störfum um að gera breytingar á þessu aldagamla fyrirkomulagi einmenningskjördæma og gera blöndu einmenningskjördæma og hlutfallskosninga. Hafi hann ekki tekið eftir því þá hvet ég hann til þess að kynna sér það nánar þannig að Tony Blair er einmitt að feta sig í þessa áttina.

En hingað heim. Við þurfum ekki að deila neitt meira um að jöfnuður á milli kjósenda flokkanna á að vera til staðar. Hann er tryggður í þessu kerfi. Það sem ég var hins vegar að segja, og mér finnst menn gera of lítið úr, er að það fyrirkomulag að kjördæmin séu tiltölulega jafnstór hvað þingmannafjölda varðar tryggir góða dreifingu og góðan jöfnuð í viðkomandi kjördæmi. Ekki þarf að jafna á milli kjördæma eins og við þekkjum allt of vel í dag. Það tryggir líka, eins og hér hefur komið rækilega fram og reynslan sýnir einfaldlega, að jafnræði kynja er betra þegar kjördæmi eru fjölmennari en fámennari.

Annað sem skiptir máli í Reykjavíkurumræðunni er að hinn náttúrlegi þröskuldur er svipaður í öllum kjördæmum hringinn í kringum landið. Þetta eru auðvitað réttlætismál og lúta ekki aðeins að því að kerfið sé gagnsætt og skilvirkt og skiljanlegt heldur eru þarna líka réttlætispunktar í sem mér finnst ástæðulaust að gera lítið úr. Þeir eru veigaþungir þannig að í frv. er fjölmargt sem horfir til bóta þó að vafalaust vildu allir, og þar á meðal ég, sjá einhverja hluti öðruvísi en hér er að finna.