Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:47:40 (82)

1999-06-10 14:47:40# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:47]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil færa mönnum þakkir fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað um stjórnarskipunarlagafrv. og reyndar um þau önnur mál sem fylgja því frv. Ég vil aðeins taka fram vegna þess sem rætt hefur verið um að betra hefði verið að málið yrði allt afgreitt í senn, kosningalög og kjördæmabreyting í senn þannig að menn hefðu hvort tveggja fast eftir afgreiðsluna. Ég tek undir þetta en tel þó hins vegar enga stórkostlega vá fyrir dyrum þó að þetta sé ekki gert. Ef svo tækist til, sem engar líkur eru nú á í augnablikinu, að efna þyrfti með hraði til kosninga yrði löggjafinn, annaðhvort sá sem hér er eða bráðabirgðalagalöggjafinn, að tryggja að sá kosningalagagrundvöllur sem þarf að vera fyrir hendi samkvæmt stjórnarskipunarlögunum yrði fyrir hendi þegar kosið væri. Það yrði að sjálfsögðu tryggt.

Segja má að við séum að gera þrenns konar breytingar eða verðum að gera í framhaldinu. Það er í fyrsta lagi það sem hv. þm., 6. þm. Reykn., nefndi hér áðan, þ.e. að laga kosningalögin með lágmarksbreytingum að stjórnarskipunarfrv. Þar tek ég fram að ég er sammála honum og öðrum sem hafa talað að um þær breytingar liggur fyrir samkomulag í öllum meginatriðum sem menn hljóta að halda sig við. Þeir þættir lúta að því að draga mörk nýrra kjördæma og ákveða þingsætatölu í hverju þeirra, þ.e. kjördæmasæti ásamt jöfnunarsætum, að fela landskjörstjórn að ákveða mörk Reykjavíkurkjördæmanna tveggja um hver áramót samkvæmt fyrirmælum stjórnarskrár, binda heimild landskjörstjórnar til að færa þingsæti á milli kjördæma til að draga úr misvægi atkvæða kjósenda í einstökum kjördæmum við kjördæmasæti, að breyta hugtakinu ,,landsframboð`` í ,,stjórnmálasamtök``, að fela yfirkjörstjórn að úthluta kjördæmasætum og landskjörstjórn að úthluta jöfnunarsætum, að úthluta kjördæmasætum samkvæmt d'Hondt-reglu --- þetta var ein af forsendum samkomulagsins eins og menn muna --- að auka möguleika kjósenda til að hafa áhrif á röð efstu frambjóðenda lista samkvæmt Borda-reglunni sem menn lögðu til grundvallar þeirri aðgerð og að fella ákvæði um úthlutun jöfnunarsæta að fyrirmælum stjórnarskrár.

Þetta eru þær lágmarksbreytingar sem þarf að gera og ég tel eins og hv. þm. að um það verði að gilda svipuð og sambærileg sátt eins og um hið fyrra stóra mál.

Síðan er fjöldi annarra breytinga sem þarf að gera og tekur mikinn tíma að fara yfir og ganga frá. Samræma þarf reglur um öll sveitarfélög, það þarf að fela sveitarfélögum að ráða skiptingu sveitarfélaga í kjördeildir og skipa undirkjörstjórnir. Koma þarf á fót hverfis- og yfirkjörstjórn í sveitarfélögum þar sem fleiri en ein kjördeild er á kjörstjórn og yfirkjörstjórn þar sem slíkir kjörstaðir eru fleiri en einn. Setja þarf reglur um hæfi kjörstjórnarmanna. Athuga þarf með að stytta frest til að breyta kjörskrá ef kjósendur hafa skipt um lögheimili. Athuga þarf að kveða á um tilkynningarskyldu sveitarfélaga ef athugasemdir koma fram á kjörskrá.

Allir þessir þættir og miklu fleiri voru í því frv. sem dómsmrh. lagði sérstaklega fram og var ekki hluti af þessari sátt. Jafnframt eru fleiri þættir, við getum talað lengi um þætti sem þarf að athuga samkvæmt því frv. Síðan eru atriði sem þarf að skoða nánar sem voru ekki í því frv. Það eru atriði eins og hvort fela mætti öðrum en nú er, t.d. sveitarfélögum eða kjörstjórnum þeirra eða póstinum, að framkvæma atkvæðagreiðslu utan kjörfundar innan lands. Menn eru ekki sáttir við það hvernig utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur farið fram á undanförnum árum. Það þarf líka að athuga tilhögun utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis og rýmka þær reglur. Það þarf að rýmka reglur um heimild til að veita kjósanda aðstoð, hvort heldur á kjörfundi eða utan kjörfundar.

Nýlega komu fram kröfur frá sveitarfélögum að athuga skiptingu kostnaðar eða þátttöku ríkisins í kostnaði sem sveitarfélögin bera af kosningum. Það þarf að ræða um hvort taka eigi upp talningu atkvæða á fleiri stöðum í kjördæmi en nú er. Um þetta hefur verið rætt. En það þarf að athuga fjölda kjósenda í kjördeild og fjölda kjörstjórnarmanna og þá í leiðinni allt fyrirkomulag við atkvæðagreiðslu á kjördegi. Það þarf að skoða hvort heimila ætti móttöku umsókna um kosningarrétt frá þeim sem fluttir væru til útlanda eftir næsta 1. desember fyrir kjördag. Það þarf að athuga reglur um afsal kosningarréttar í kjördeild þar sem maður er á kjörskrá. Það þarf að athuga aðgang að kjörskrá.

Það er því fjöldi þátta sem menn þurfa að fara nákvæmlega yfir í tengslum við breytingar á kosningareglum og ég fullyrði að við yrðum í átta eða tólf vikur í sumar að fjalla um þessa þætti alla ef við ætluðum að gera það. Þannig er skynsamlegt, fyrst það er hægt, að leita eftir þverpólitískri samstöðu um að setja þessi mál í farveg og stefna að því að allt það mál verði frágengið um næstu áramót og allt komið í fastan farveg. Að því á að vera hægt að vinna skipulega.

Ég hef heyrt það á mönnum hér að talsmenn flokkanna hafa tekið því vel að taka þátt í þess háttar þverpólitískri starfsemi. En þetta er skýringin á því að við erum ekki með allt þetta undir í dag. Þá mættum við gera ráð fyrir að þing stæði fram í ágúst eða september. En þrátt fyrir að við séum viljugir og duglegir þingmenn held ég að ekki sé mikill spenningur fyrir því, satt best að segja, að við gerum það þannig.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja umræðurnar en endurtek þakklæti mitt í garð þeirra manna sem hafa tjáð sig skýrt og skilmerkilega um þetta mál og vonast til að samvinnan í framhaldinu verði jafngóð og í undanfaranum.