1999-06-10 14:55:30# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., utanrrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég mótmæli því sérstaklega að ráðherrar sýni Alþingi óvirðingu með þeim hætti sem hv. þm. sagði. Það er rétt sem hann sagði að þetta mál er á forræði utanrrn. en að sjálfsögðu hefur sjútvrn. komið mjög að þessu máli eins og eðlilegt er og hv. þingmönnum er það ekki ókunnugt.

Ráðherrar þurfa á hverjum tíma að sinna skyldustörfum sínum og því miður er það svo að við ráðum því ekki alltaf hvenær nauðsynlegt er að við sinnum þeim, bæði innan lands og á erlendum vettvangi. Ráðherrar hafa ávallt reynt að taka sem mest tillit til starfsemi þingsins og þeir eiga að sjálfsögðu að gera það. En ég vek athygli á því að íslenskir ráðherrar geta ekki ávallt ráðið því hvernig þeim tíma er varið og það er oft gert með mjög löngum fyrirvara þannig að við verðum að sjálfsögðu að vega og meta það. En ég tel það vera alveg í samræmi við hefðir og venjur að sá ráðherra sem ber fyrst og fremst ábyrgð á málinu sé viðstaddur umræðuna.