1999-06-10 15:01:37# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:01]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem hóf máls á þessu. Það er afar óheppilegt að svo skuli hátta til að hæstv. sjútvrh. sé ekki viðstaddur umræðuna. Þetta er nokkuð óvenjulegur alþjóðasamningur sökum þess að hann tengist verksviði sjútvrh. á fjölmörgum sviðum. Hann varðar það að opna íslensku landhelgina fyrir útlendingum, veita þeim veiðiheimildir í tegundum sem sumar eru fullnýttar eða a.m.k. nálægt því. Ég bendi jafnframt á að afleiðing þessa samnings verður sú að hæstv. sjútvrh. mun með reglugerð úthluta varanlegum veiðiheimildum í samræmi við þann kvóta sem þarna hefur verið samið um. Reyndar er það svo kostulegt að hæstv. fyrrv. sjútvrh. kom því í verk áður en hann fór til London að gefa út reglugerðina fyrir fram þó að hún hafi ekkert gildi fyrr en búið er að staðfesta samninginn af þjóðþingum allra aðildarríkjanna. Af einhverjum undarlegum ástæðum var það þó gert.

Því eru margar og mjög gildar ástæður, herra forseti, fyrir því að fara fram á að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur umfjöllun um þetta mál. Það kann að vera að því verði ekki við komið að hann verði hér við fyrri umræðu en hann verður þá við seinni umræðu. En þá er afar óheppilegt að í staðinn verði hæstv. utanrrh. farinn úr landi. Ég verð að segja eins og er, með fullri virðingu fyrir mikilvægum verkefnum þessara mikilvægu ráðherra, að það er dapurlegt ef nýjum ráðherrum liggur svo á úr landi að til stórfelldra vandræða horfi í þessu stutta þinghaldi sem tekur fjóra til fimm daga. Var ekki einhvern veginn hægt að reyna að skipuleggja þetta þannig að ekki þyrfti að koma upp sú neyðarlega staða, t.d. í tilviki hæstv. nýskipaðs sjútvrh., að í fyrsta skipti sem reyndi á viðveru hans á Alþingi á hans málasviði skyldi hann burtu floginn og til útlanda? Þetta eru miklar utanstefnur, það verður að segjast.

Ég sel það í vald hæstv. forseta að finna fram úr því hvernig skást er að standa hér að málum. Þetta er heldur óheppileg uppákoma og ég meina það í fullri alvöru. Við stjórnarandstæðingar setjum hér fram vel rökstudda gagnrýni og efnislega. Það er létt að sýna fram á að eðlilegt væri að ræða fjölmörg mál sem fyrst og fremst eru á sviði hæstv. sjútvrh. í tengslum við umfjöllun Alþingis um þetta mál.